Hoppa yfir valmynd
28. maí 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mikill aðflutningur til landsins á fyrsta ársfjórðungi

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 22. maí 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í nýbirtum tölum Hagstofunnar um búferlaflutninga á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs kemur fram að enn er mikill aðflutningur erlendra ríkisborgara til landsins og að brottflutningur þeirra í heild hefur ekki aukist.

Á myndinni má sjá hvernig mismunur á aðfluttum og brottfluttum milli landa hefur þróast frá árinu 2000. Í efnahagslægðinni sem varð skömmu eftir aldamótin fluttust fleiri íslenskir ríkisborgarar á brott en komu til landsins. Á sama tíma dró úr fjölgun erlendra ríkisborgara vegna þess að aðfluttum fækkaði meðan fjöldi brottfluttra stóð í stað. Í uppsveiflu undanfarinna ára voru aðfluttir íslenskir ríkisborgarar einungis fleiri en brottfluttir árið 2005. Útrás íslenskra fyrirtækja kann að eiga sinn þátt í því. Þó ber að hafa í huga að nettóflutningar íslenskra ríkisborgara eru einungis lítið brot af flutningi þeirra inn í landið eða úr því. Því er ólíkt farið með erlenda ríkisborgara. Aðflutningur þeirra hefur vaxið mjög og var mestur árið 2007. Það ár var jafnframt sett met í brottflutningi þeirra sem leiddi til þess að nettóflutningur var töluvert minni en árið 2006 enda fóru þá margir starfsmenn við stóriðju- og virkjanaframkvæmdirnar úr landi.

Hreinn fólksflutningur frá útlöndum til Íslands

Á fyrsta ársfjórðungi ársins í ár fluttust hingað til lands 2.816 erlendir ríkisborgarar á meðan 671 þeirra fluttust á brott. Um er að ræða meiri aðflutning en á sama tíma á fyrra ári en einnig minni brottflutning. Ef heldur sem horfir er nýtt metár í uppsiglingu hvað nettóinnflutning erlendra ríkisborgara varðar. Ekki er reiknað með að þetta innstreymi útlendinga til landsins haldi áfram þegar hægja tekur á í efnahagslífinu. Vísbendingar eru nokkuð misvísandi um hvort og að hve miklu leyti sé tekið að hægja á í atvinnulífinu. Þannig kemur það einnig nokkuð á óvart að á fyrstu þremur mánuðum ársins hefur aðflutningur íslenskra ríkisborgara aukist og dregið úr brottflutningi þeirra. Ofangreind þróun bendir til að enn hafi verið mikill gangur í atvinnulífinu á fyrsta ársfjórðungi 2008 hvað sem síðar verður.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum