Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 14. febrúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Seðlabanki Íslands hefur í dag ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum, í 13,75%.

Í endurskoðaðri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem birt var 15. janúar sl. er gert ráð fyrir að Seðlabankinn hefji lækkun stýrivaxta á seinni hluta þessa árs. Sú spá er í samræmi við yfirlýsingar Seðlabankans um væntan stýrivaxtaferil. Nauðsynlegt er að setja inn forsendur um þennan þátt eins og aðra í gerð þjóðhagspár.

Líkt og í haustspá er í þjóðhagsspánni gert ráð fyrir að stýrivextir taki að lækka á síðari hluta ársins í ákveðnum skrefum allt þar til þeir verða komnir niður í 5,5% í lok árs 2009. Sú spá byggir á þeirri forsendu að niðurstaða kjarasamninga verði hófleg, spenna á vinnumarkaði hjaðni, gengisþróun haldist hagstæð, að ótvíræðar vísbendingar komi fram um minnkandi innlenda eftirspurn og að ekki komi til frekari stóriðjuframkvæmda á árinu. Miðað við það er gert ráð fyrir að stýrivextir verði að meðaltali 13,2% árið 2008 og 7,8% árið 2009.

Væntur stýrivaxtaferill Seðlabanka Íslands

Ljóst er að forsendur þjóðhagsspár hafa breyst nokkuð þótt um gagnverkandi áhrif á innlenda eftirspurn sé að ræða. Ástand á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur dregið úr framboði af lausafé og það lagst á sveif með aðhaldssamri hagstjórn við að draga úr innlendri eftirspurn.

Merkjanlega hefur dregið úr veltu á fasteignamarkaði að undanförnu.Á móti hefur verð fasteigna haldið áfram að hækka og gengi krónunnar lækkað. Þá benda tölur um greiðslukortaveltu í janúar til að einkaneysla sé enn að aukast. Eins og kemur fram í grein hér að ofan ríkir spenna á vinnumarkaði og kaupmáttur ráðstöfunartekna er enn að aukast. Þá hafa líkur aukist að stóriðjuframkvæmdir í Helguvík hefjist í ár.

Þótt umtalsverð óvissa tengist efnahagshorfum er ekki ósennilegt að Seðlabankinn telji þörf á aðhaldi í peningastefnunni enn um sinn, eða þar til skýr merki eru kominn fram um að tekið sé að draga úr spennu og að verðbólguvæntingar samræmist verðbólgumarkmiði.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum