Fréttatilkynning nr. 14/2002. Fundur alþjóðafjárhagsnefndarinnar (International Monetary and Financial Committee) í Washington 20. apríl 2002.

22.4.2002

Fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hélt vorfund sinn í Washington laugardaginn 20. apríl 2002. Formaður nefndarinnar er Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands.

Á fundinum var fjallað um ástand og horfur í alþjóðaefnahagsmálum auk þess sem rætt var um hlutverk og stefnumál Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nefndin fagnaði því að horfur fara batnandi í heimsbúskapnum og að hagvöxtur er meiri en áður var gert ráð fyrir. Nefndin studdi aðgerðir til að treysta hið alþjóðlega fjármálakerfi. Nefndin lagði jafnframt áherslu á öfluga baráttu við peningaþvætti og að áfram verði unnið gegn fjármögnun hryðjuverka. Nefndin fagnaði ályktun þróunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Monterrey í Mexíkó og lýsti stuðningi við markmið um að efla glímuna við fátækt.

Ísland gegnir nú forystuhlutverki í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og situr Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, í fjárhagsnefndinni fyrir hönd þessara ríkja. Fjármálaráðherra gerði í ræðu sinni grein fyrir afstöðu ríkjanna og lýsti ánægju með batnandi horfur í efnahagslífi heimsins. Ráðherra lagði áherslu á jákvæða þætti hnattvæðingar og tók undir Monterrey-yfirlýsinguna um að ná fram þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á nýrri öld. Fjármálaráðherra lýsti sérstökum áhyggjum af þróun mála í Argentínu og hvatti stjórnvöld við að vinna með sjóðnum að raunhæfri áætlun í efnahagsmálum sem tryggt gæti hagvöxt og stöðugleika til frambúðar. Ráðherra studdi hugmyndir um formlegan vettvang til að leysa úr greiðsluerfiðleikum mjög skuldsettra ríkja en lagði jafnframt áherslu á mikilvægi þess að samhliða yrðu þróuð frekar þau úrræði sem þegar eru fyrir hendi.

Ræða fjármálaráðherra er birt á vefsíðu fjármálaráðuneytisins.

Gögn um fundinn er að finna á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.


Fjármálaráðuneytinu, 20. apríl 2002
Til baka Senda grein