Nr. 46/2001. Vátryggingavernd flugfélaga framlengd.

28.12.2001

Fréttatilkynning
Nr. 46/2001

Vátryggingavernd flugfélaga framlengd

Gefin hafa verið út bráðabirgðalög sem framlengja til 15. febrúar n.k. heimild ríkissjóðs til þess að takast á hendur vátryggingavernd vegna íslenskra flugrekenda. Ástæðan er sú að gagnstætt því sem gert hafði verið ráð fyrir bjóðast flugrekendum enn ekki fullnægjandi ábyrgðartryggingar á vátryggingamarkaði þar sem tryggingamarkaðurinn er ennþá í nokkru uppnámi vegna hryðjuverkanna í Bandaríkjunum hinn 11. september sl. Önnur Evrópuríki hafa af þessum sökum einnig ákveðið að framlengja um sinn þá vátryggingavernd sem þau hafa veitt flugrekendum.

Á grundvelli bráðabirgðalaganna hefur fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs í dag endurnýjað samkomulag við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. fyrir hönd Samtaka norrænna flugvátryggjenda. Samkvæmt samkomulaginu veitir norræna tryggingasamsteypan íslenskum flugrekendum sem stunda alþjóðlegt flug ábyrgðartryggingu til viðbótar þeirri grunntryggingu sem flugrekendum bjóðast á almennum markaði, en ríkissjóður tekst á hendur endurtryggingu.


Fjármálaráðuneytinu, 28. desember 2001


Til baka Senda grein