Nr. 35/2001. Þjóðhagsforsendur fjárlagafrumvarpsins

3.10.2001

Fréttatilkynning
Nr. 35/2001

Þjóðhagsforsendur fjárlagafrumvarpsins
Eftir að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2002 var kynnt sl. mánudag hefur nokkurt veður verið gert úr því að ekki sé fullt samræmi milli allra forsendna frumvarpsins og talna í þjóðhagsáætlun. Hefur jafnvel verið fullyrt að þetta ósamræmi feli í sér brot á lögum um fjárreiður ríkisins og að fjármálaráðuneytið hafi kallað fram "gervihagvöxt" og með því "falsað" tekjutölur í frumvarpinu.

Þessar alvarlegu ásakanir eru á misskilningi byggður. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði 1,5 % en 1% árið 2002. Sambærilegar tölur í þjóðhagsáætlun eru 1,9% í ár og -0,3% fyrir árið 2002. Mismuninn má að nokkru leyti rekja til mismunandi mats á framvindu efnahagsmála á þessu ári en einnig þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að verðhækkanir milli áranna 2001 og 2002 verði 5%, sem er svipað og spá Seðlabankans sýnir, en þjóðhagsáætlun gerir ráð fyrir 5,9% hækkun verðlags. Þessi munur hefur áhrif á ætlaða einkaneyslu á næsta ári og þar með hagvöxt.

Kjarni málsins er þó sá að niðurstaða ráðuneytisins leiðir ekki til hærri landsframleiðslu árið 2002, eins og haldið hefur verið fram, og þar með hærri skatttekna. Þvert á móti leiða forsendur ráðuneytisins til heldur lægri landsframleiðslu í krónum talið á næsta ári en fram kemur í þjóðhagsáætlun. Ráðuneytið gerir ráð fyrir 782,5 milljarða króna landsframleiðslu en þjóðhagsáætlun hins vegar 783,4 milljörðum. Munar því tæpum milljarði króna. Fullyrðingar um "gervihagvöxt" og annað í þeim dúr eiga því ekki við rök að styðjast.

Í 21. grein laga um fjárreiður ríkisins (sótt á vef Alþingis) og eftirlit með þeim segir að frumvarp til fjárlaga skuli samið " með hliðsjón af" þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Einnig að áætlanir um tekjur og gjöld skuli gerðar "á sömu meginforsendum" og þjóðhagsáætlun. Fráleitt er að halda því fram að þessi lagagrein hafi verið brotin.Fjármálaráðuneytinu, 3. október 2001

Til baka Senda grein