Nr. 32/2001. Samkomulag um endurtryggingarvernd

24.9.2001

Fréttatilkynning
Nr. 32/2001


Í framhaldi af setningu bráðabirgðalaga nr. 118/2001 hefur fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs í dag gert samkomulag við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. fyrir hönd Samtaka norrænna flugvátryggjenda. Norræna tryggingasamsteypan hefur samþykkt að veita íslenskum flugrekendum sem stunda alþjóðlegt flug viðbótarábyrgðartryggingu í stað þeirrar ábyrgðartryggingar sem fellur úr gildi á miðnætti í nótt. Ríkissjóður sem endurtryggjandi ábyrgist norrænu tryggingasamsteypunni sem frumvátryggjendum fulla greiðslu á tjónum sem íslenskir flugrekendur kunna að verða bótaskyldir fyrir gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika.

Ábyrgðartryggingin sem norræna tryggingasamsteypan tekst á hendur og ríkissjóður endurtryggir tekur til einstakra tjóna að því leyti sem þau eru umfram 50 milljónir bandaríkjadala, þó aldrei umfram áður gildandi vátryggingarfjárhæð.

Samkomulagið er til eins mánaðar og fellur úr gildi á miðnætti þann 24. október 2001.


Fjármálaráðuneytinu, 24. september 2001

Til baka Senda grein