Nr. 29/2001. Ríkisreikningur 2000

5.9.2001

Fréttatilkynning
Nr. 29/2001


Ríkisreikningur 2000Afkoma ríkissjóðs árið 2000. Niðurstöðutölur rekstrarreiknings ríkissjóðs fyrir árið 2000 sýna halla að fjárhæð 4,3 milljarða króna. Afkoman er lakari en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga þar sem rekstrarafgangur var áætlaður 16,7 milljarðar. Skýring á þessu fráviki felst alfarið í færslu óreglulegra liða sem áhrif hafa á rekstrarafkomu ársins, en án þeirra hefði rekstrarafgangur verið rúmir 22 milljarðar króna.

Rekstur ársins skilar hinsvegar 17 milljörðum króna af handbæru fé sem er heldur betri afkoma en fjárlög gerðu ráð fyrir og svipuð upphæð og á síðasta ári. Þessi stærð, handbært fé frá rekstri, segir til um það hverju rekstur ársins skilar til að greiða niður skuldir eða bæta stöðu ríkissjóðs að öðru leyti. Af þessari upphæð var tæplega 9 milljörðum varið til að greiða inn á skuldbindingar ríkissjóðs hjá Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna (LSR) og 8 milljörðum til að greiða niður skuldir umfram nýjar lántökur.


Meðal óreglulegra liða sem koma til færslu á árinu, vegur þyngst 17 milljarða króna gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga umfram áætlanir, einkum vegna kjarasamninga grunnskóla- og framhaldsskólakennara. Með gerð þessara samninga er að ljúka ferli svokallaðra aðlögunarsamninga þar sem hluti dagvinnulauna í heildarlaunum er aukinn. Slík tilfærsla hefur hins vegar áhrif til hækkunar á áunnum lífeyrisréttindum þessara starfsmanna og þar með á skuldbindingar ríkissjóðs. Auk þess vega afskriftir skattkrafna tæplega 7 milljörðum króna umfram áætlun. Nýr hugbúnaður í tekjukerfum ríkissjóðs hefur gefið mun betri yfirsýn yfir útistandandi tekjur og betri grundvöll til að leggja mat á þær. Gagnrýnin endurskoðun á uppfærðum kröfum leiddi í ljós að þær hafa verið ofmetnar í reikningum fyrri ára og var ákveðið að stíga stórt skref í að endurmeta þessar kröfur nú en þessu verkefni verður framhaldið á þessu ári.

Afkoma ríkissjóðs á rekstrargrunni árið 2000 var lakari en árið áður en þá nam rekstrarhagnaður 23 milljörðum króna. Til viðbótar því sem nefnt er hér að framan skýrist lakari afkoma ársins 2000 af sveiflum í sölu ríkiseigna. Á árinu 1999 nam söluhagnaður 11 milljörðum króna, en hann var óverulegur árið 2000.

Almennar tekjur ríkissjóðs námu 224,7 milljörðum króna eða um 33,6% af landsframleiðslu ársins. Árið 1999 námu tekjurnar 222,6 miljörðum króna eða 35,7% af landsframleiðslunni. Hækkun milli ára nam einungis 2,1 milljarði króna og lækka að raungildi um 3,9%.

Tekjur ríkissjóðs skiptast þannig að skattar á tekjur og hagnað einstaklinga og lögaðila námu 59,6 milljörðum króna eða um fjórðung teknanna. Árið á undan voru tekjur þessara aðila 53 milljarðar og hækka því um 12,5% milli ára. Tekjur af tryggingagjöldum námu 19,7 milljörðum króna samanborið við 17,8 milljarða árið á undan og tekjur af eignarsköttum 9,9 milljörðum en þeir voru 8,4 milljarðar árið 1999. Virðisaukaskattur er stærsti skattstofn ríkisins og námu tekjur af honum 71,9 milljörðum króna og er hækkun frá fyrra ári einungis 1,9 milljarðar eða 2,7%. Þar skiptir hinsvegar í tvö horn því tekjur af innflutningi aukast nokkuð á meðan samdráttur er í tekjum af sölu vöru og þjónustu. Þá aukast endurgreiðslur um 1,5 milljarða og eru tveir þriðju af henni vegna opinberra aðila. Vörugjöld og aðrir sértækir veltuskattar námu 39,6 milljörðum króna eða tæpum fimmtungi heildartekna. Árið á undan námu tekjurnar 38,5 milljörðum og er hækkun frá fyrra ári því óveruleg. Aðrar rekstrartekjur voru 19 milljarðar króna en undir þær falla arðgreiðslur, vaxtatekjur og ýmiskonar neyslu- og leyfisgjöld fyrir þjónustu. Árið á undan námu þessar tekjur 17,5 milljörðum og kemur hækkunin að mestu fram í auknum vaxtatekjum. Loks eru aðrar tekjur sem námu 5 milljörðum króna en þar vegur þyngst endurmat á eignarhlutum ríkisins í Orkubúi Vestfjarða og Flugstöð Leifs Eiríkssonar en hún nam 3,2 milljörðum króna. Árið á undan námu aðrar tekjur hins vegar 17,4 milljörðum króna og lækka því um 12,4 milljarða frá fyrra ári. Þar vegur þyngst að á árinu 1999 var hagnaður af eignasölu 11,1 milljarðar en einungis 0,7 milljarðar árið 2000.

Gjöld ríkissjóðs námu alls 229,0 milljörðum króna eða 34,2% af landsframleiðslu. Árið 1999 voru gjöldin 199,0 milljarðar króna eða 31,9% af landsframleiðslunni. Hækkunin milli ára er 30 milljarðar króna og skýrast tæplega tveir þriðju af færslu óreglulegra liða þ.e., lífeyrisskuldbindinga og afskrifta skattkrafna, eins og áður er vikið að. Af því sem er þar umfram fara 7 milljarðar til félagsmála, einkum heilbrigðismála og almannatrygginga, um 2 milljarðar til samgöngumála og 2,6 milljarðar til almennra mála.
Í yfirlitum reikningsins er, auk hefðbundinnar skiptingar gjalda á ráðuneyti sýnd skipting þeirra á málaflokka en hún auðveldar samanburð milli ára þar sem verkefni geta flust milli ráðuneyta sem torveldar slíkan samanburð. Félagsmál eru sem fyrr stærsti útgjaldaflokkur ríkisins og er varið til þeirra 120,0 milljörðum króna eða 52,4% af heildargjöldum. Þar vega heilbrigðismál þyngst með 51,4 milljarða króna útgjöld, almannatryggingar með 36,1 milljarð og fræðslu- og menningarmál sem kosta 25,4 milljarða. Á árinu 1999 námu útgjöld til félagsmála 112,8 milljörðum króna og hækka því um 7,2 milljarða. Til atvinnumála var varið 31,0 milljörðum eða 13,5% af heild. Þar eru fyrirferðamest samgöngumál með 13,4 milljarða og landbúnaðar og skógræktarmál með 9,1 milljarð króna. Hækkun framlaga til atvinnumála frá fyrra ári nemur 2 milljörðum sem skýrist að mestu af auknum framlögum til samgöngumála. Til almennra mála er varið 22,8 milljörðum eða 10% af heild en þar undir falla meðal annars dóms- og löggæslumál. Önnur útgjöld nema 55,1 milljarði en það er 24,1% af heild. Þar undir falla meðal annars vaxtagjöld en þau voru 15,2 milljarðar og lífeyrisskuldbindingar en gjaldfærsla þeirra nam 24,9 milljörðum króna samanborið við 12,9 milljarða árið áður. Loks nema afskriftir skattkrafna 11,4 milljörðum króna og hækka um 6,8 milljarða frá fyrra ári eins og skýrt var hér að framan.

Lánsfjárjöfnuður. Ríkissjóður skilar lánsfjárafgangi á árinu 2000 fjórða árið í röð, en í því felst svigrúm hans til að greiða niður skuldir eða bæta stöðu sína að öðru leyti. Lánsfjárafgangur nam 9,5 milljörðum króna á árinu auk þess sem greiddar voru 8,8 milljarðar króna til að lækka skuldbindingar ríkisins hjá LSR. Uppsafnaður afgangur síðastliðinna þriggja ára nemur 45 milljörðum króna sem að stærstum hluta hefur verið varið til að greiða niður innlendar skuldir ríkissjóðs. Þá hefur ríkissjóður auk þess greitt tæpa 17 milljarða til lækkunar á skuldbindingum sínum hjá LSR.

Niðurstöðutölur eignahliðar efnahagreikningsins sýna að bókfærðar eignir námu alls 214,8 milljörðum samanborið við 212,2 milljarða árið á undan. Alls eru bókfærðir eignahlutir í fyrirtækjum ríkisins 75 milljarðar og útistandandi veitt lán nema 71 milljarði. Þá nema viðskiptakröfur, sem einkum eru vegna óinnheimtra ríkistekna, 52 milljörðum og handbært fé í árslok var 17 milljarðar króna. Heildarskuldir námu 412,9 milljörðum króna samanborið við 383,8 milljarða árið á undan. Aukningin skýrist að stærstum hluta af hærri lífeyrisskuldum en þær námu 163 milljörðum í lok árs. Staða tekinna lána ríkissjóðs var 228,5 milljarðar króna sem skipist þannig að innlend lán eru 89 milljarðar en erlend 139 milljarðar. Á árinu námu afborganir umfram nýjar lántökur 14 milljarðar en á móti því vegur endurmat skulda á árinu vegna gengissigs krónunnar.

Fylgiskjal: Yfirlit yfir tekjur og gjöld ríkissjóðs árið 2000 og 1999.

Fjármálaráðuneytinu, 4. september 2001Til baka Senda grein