Nr. 3/2001. Fundur fjármálaráðherra Norðurlanda í Reykjavík 24. janúar 2001.

24.1.2001

Nr. 3/2001

Fundur fjármálaráðherra Norðurlanda
í Reykjavík 24. janúar 2001

Þróun efnahagsmála á Norðurlöndum áfram hagstæð

Fjármálaráðherrar Norðurlanda ræddu ástand og horfur í efnahagsmálum á fundi sínum í Reykjavík í dag. Ráðherrarnir töldu að þróun efnahagsmála á Norðurlöndum væri áfram hagstæð; verðbólga væri tiltölulega lág og atvinnuleysi fari minnkandi. Ráðherrarnir lögðu áherslu á nauðsyn þess að hafa hemil á kostnaðarþróuninni. Á öllum Norðurlöndunum er búist við að skuldir hins opinbera fari áfram lækkandi og að verulegur afgangur verði á fjárlögum.

Ráðherrarnir eru sammála um mikilvægi þess að fylgja áfram aðhaldssamri stefnu í efnahagsmálum, ekki síst í ríkisfjármálum, meðal annars til þess að efla hagvöxt, hamla gegn verðbólgu og tryggja næga atvinnu. Gert er ráð fyrir á öllum Norðurlöndunum verði afgangur í búskap hins opinbera bæði á þessu og næsta ári sem verður að teljast hagstætt í alþjóðlegum samanburði.

Talin var hætta á þenslu í vissum greinum atvinnulífsins og töldu ráðherrarnir mikilvægt að fylgt verði aðhaldssamri launastefnu til að halda aftur af verðbólgu. Ráðherrarnir bentu hins vegar á að aukna verðbólgu á síðasta ári mætti að langmestu leyti rekja til hækkunar olíuverðs.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir um þróun hins svokallaða nýja hagkerfis og áhrif þess og umfang á Norðurlöndunum. Þeir töldu mikilvægt að efnahagsleg skilyrði stuðluðu að áframhaldandi uppbyggingu og þróun atvinnulífsins til þess að heilbrigð samkeppni fengi að njóta sín.

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, benti á að staða efnahagsmála á Íslandi væri í öllum grundvallaratriðum traust og horfur næstu ára nokkuð bjartar. Í þessu sambandi vísaði hann til nýlegrar samantektar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem staðfesti að traust hagstjórn og umfangsmiklar skipulagsbreytingar stjórnvalda á flestum sviðum efnahagsmála hefðu lagt grunninn að stóraukinni efnahagslegri velmegun hér á landi síðasta áratug og rennt stoðum undir öflugt atvinnulíf og mikinn vöxt ýmissa nýrra greina. Stjórnvöld hefðu hert aðhald í peninga- og ríkisfjármálum í því skyni að halda aftur af innlendri eftirspurn. Margt benti til að þessi stefna væri að skila árangri og að verðbólga og viðskiptahalli færu nú minnkandi.

Ennfremur taldi ráðherra einsýnt að áhrifa nýja hagkerfisins gætti í vaxandi mæli hér á landi, ekki einungis í hinum nýju greinum á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni heldur einnig í öðrum greinum sem nýti sér hina nýju tækni til að auka framleiðni og bæta afkomuna. Ráðherra benti einnig á að Ísland væri í fremstu röð í heiminum hvað varðar notkun farsíma og vefsins. Mikilvæg forsenda þessarar þróunar væri hins vegar að hér á landi væri afar vel menntað og hæft vinnuafl auk þess sem vinnumarkaðurinn er hér sveigjanlegri en í mörgum nálægum ríkjum. Stjórnvöld ættu einnig að búa þannig um hnútana að markaðsöflin fengju að njóta sín án of mikilla afskipta ríkisins.

Ráðherrarnir ræddu einnig ýmis málefni á vettvangi Evrópusambandsins í kjölfar leiðtogafundarins í Nice í síðasta mánuði. Meðal annars var rætt um samræmingu skatta innan Evrópusambandsins og stöðu þeirra ríkja sem sótt hafa um aðild að sambandinu.

Loks ræddu ráðherrarnir almennt um þá vinnu sem er í gangi og varðar sjálfbæra þróun efnahagslífsins, jafnt á vettvangi Norðurlandanna sem og innan OECD og Evrópusambandsins.

Fjármálaráðuneytinu, 24. janúar 2001
Til baka Senda grein