Hoppa yfir valmynd
1. október 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárlagafrumvarp 2009

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 14/2008.

Fjárlagafrumvarp ársins 2009 hefur nú verið lagt fyrir Alþingi.

Í frumvarpinu leggur fjármálaráðherra jafnframt fram rammafjárlög til fjögurra ára samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og er það í fyrsta sinn sem það er gert. Með því að leggja fram ramma fjárlaga næstu ára er verkefnum forgangsraðað í samræmi við áherslumál í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Einnig eru sett fram viðmið um útgjöld og tekjuöflun ríkissjóðs, auk markmiða um aðhald í ríkisrekstri. Loks er rammafjárlögum ætlað að stuðla að þeirri meginstefnu ríkisstjórnarinnar að ríkisfjármálin gegni sveiflujafnandi hlutverki á tímabilinu og tekur frumvarpið nokkuð mið af því.

Rammafjárlög 2009 - 2012

Í milljöðrum króna á verðlagi hvers árs

Liður
Áætlun 2009
Áætlun 2010
Áætlun 2011
Áætlun 2012
Tekjur
450,5
476,7
514,8

556,7

Gjöld
507,4
522,3
533,3
553,7
Tekjuafkoma
-56,9
-45,6
-18,5
3,0
Hlutfall af landsframleiðslu
-3,7%
-2,8%
-1,1%
0,2%

Hallarekstur til ársins 2012

Samkvæmt því sem fram kemur í þessari rammaáætlun verður viðsnúningur á rekstri ríkissjóðs á næsta ári frá því sem verið hefur. Er nú áætlað að halli á ríkissjóði verði 56,9 milljarðar króna á næsta ári, þá taki við minni hallarekstur næstu tvö árin þar á eftir en síðan verður tekjuafkoma orðin jákvæð þegar árið 2012.

Sterk staða ríkissjóðs

Sterk staða ríkissjóðs vegna góðrar afkomu undanfarinna ára, gerir kleift að mæta þeim samdrætti sem áætlaður er að verði í tekjum ríkissjóðs á næstu árum.

Má ætla að innistæða ríkisins í Seðlabankanum muni nema rúmum 170 milljörðum króna í lok árs 2008, en var til samanburðar um 17 milljarðar króna árið 2004. Hreinar skuldir hins opinbera hér á landi hafa verið lækkaðar verulega og eru talsvert lægri en gengur og gerist hjá öðrum löndum innan OECD og á Evrusvæðinu. Munar þar mest um mikla lækkun skulda ríkissjóðs.

Innistæður ríkisins í Seðlabanka

Tímabundinn samdráttur

Fjármálaráðuneytið hefur lagt mat á horfur í efnahags- og ríkisfjármálum næstu fjögur árin. Því er spáð að landsframleiðsla dragist saman um 1,6% á næsta ári en að hagvöxtur verði hóflegur og vaxandi árin 2010-2012. Spáð er að verðlag hækki um 5,7% á næsta ári, kaupmáttur ráðstöfunartekna dragist saman um 1,4% og atvinnuleysi verði 2,7%. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá ráðuneytisins mun verðbólga hjaðna hratt á næstu árum og verða á bilinu 2,5-2,8% á seinni hluta tímabilsins. Frá árinu 2010 mun kaupmáttur ráðstöfunartekna fara vaxandi og hagkerfið komast í jafnvægi.

Hagvöxtur

Dregur hratt úr viðskiptahalla

Talsverður viðsnúningur er að verða í vöru- og þjónustuhallanum sem fer úr því að vera 10,5% af landsframleiðslu árið 2007 í 3,8% árið 2008. Neikvæð þróun þáttatekna skyggir þó á jákvæðan viðsnúning á vöru- og þjónustujöfnuði og því breytist viðskiptahallinn lítið frá fyrra ári og er áætlað að hann verði 16,8% á þessu ári. Það mun hinsvegar draga hratt úr honum á næsta ári og er ætlað að viðskiptahallinn verði 8,2% árið 2009 og heldur sú þróun áfram næstu árin.

Viðskiptahalli

Breyttar rekstrarforsendur

Lægð í efnahagslífinu leiðir óhjákvæmilega til þess að tekjur ríkissjóðs minnka og útgjöld aukast. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs árið 2009 verði 450,5 milljarðar króna, sem er 13 milljörðum króna minna en í endurskoðaðri áætlun fyrir árið 2008. Skýrist það m.a. af lakari þjóðhagshorfum með minnkandi sköttum á tekjur og hagnað. Þannig mun persónuafsláttur hækka um 24 þúsund krónur frá næstu áramótum, en hann er jafnframt verðtryggður sem leiðir til þess að tekjuskattur einstaklinga skilar talsvert minna í ríkissjóð en ella. Raunar er áætlað að skattleysismörk hækki um 18 prósent í þessum fyrsta áfanga.

Skatttekjur ríkissjóðs sem hlutfall af VLF

Heildargjöld ríkissjóðs árið 2009 eru áætluð 507,4 milljarðar króna og aukast útgjöldin um 3,9% að raungildi á milli ára miðað við endurskoðaða áætlun ársins 2008, þar af hækka rekstrargjöldin um 2,9% að raungildi. Munar þar mest um hækkun rekstrargjalda á sviði heilsugæslu, öldrunarþjónustu og í málefnum fatlaðra, hækkun á framlögum til menntamála og löggæslu- og öryggismála. Verulega munar líka um aukin útgjöld í kjölfar kjarasamninga við stéttarfélög ríkisstarfsmanna, hækkun verðlags og verðfalls krónunnar. Gripið er til ýmissa aðgerða á gjaldahlið til að lækka útgjöldin, sem nemur um 10 milljörðum króna. Er þar um að ræða aðhald í rekstri, lækkun á tekjutilfærslum og breytingar á tímaröðun ýmissa framkvæmda.

Útgjöld ríkissjóðs sem hlutfall af VLF

Sveiflujafnandi áhrif ríkisfjármála

Markmið ríkisstjórnarinnar í hagstjórninni er að stuðla að auknum stöðugleika í efnahagslífinu, með lægri verðbólgu, lægra vaxtastigi, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jöfnum og öflugum hagvexti og traustri stöðu ríkissjóðs. Frumvarpið felur í sér að ríkissjóður sinnir hagstjórnarlegu hlutverki sínu til að jafna sveiflur í efnahagslífinu, t.a.m. með aukinni fjárfestingu á meðan á niðursveiflu stendur. Á gjaldahlið aukast útgjöldin sem hlutfall af landsframleiðslu um 1,6% frá árinu 2008 og á tekjuhlið lækka skatttekjurnar sem nemur 2,1% frá fyrra ári. Samanlagt má því segja að sveiflujafnandi áhrif ríkisfjármála verði 3,7% af landsframleiðslu næsta árs.

Sveiflujafnandi áhrif ríkisfjármálanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum