Hoppa yfir valmynd
2. maí 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Norrænir menningarmálaráðherrar funduð í dag: Áhersla á tungumál og máltækni

Norrænir menningarmálaráðherrar komu til reglulegs ráðherrafundar í dag en að þessu sinni fara Svíar með formennsku í Norðurlandasamstarfinu eftir að hafa tekið við henni af Íslandi. Norðurlöndin eiga í nánu og rótgrónu samstarfi á hinum ýmsu sviðum og vinna að mörgum sameiginlegum verkefnum á sviði menningarmála.

Ásamt því að ræða um þann árangur sem náðst hefur í menningarmálum á Íslandi ræddi Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra sérstaklega um íslenskuna og þann árangur sem Ísland hefur náð á sviði máltækni. Í formennskutíð sinni í Norrænu ráðherranefndinni árið 2023 lagði Ísland meðal annars áherslu á máltækni og sameiginlega norræna stefnu í þeim efnum. Afrakstur þeirrar vinnu verður aðgengilegur síðar á árinu þegar að skýrslan Language Technology for Less-Resourced Languages in the Nordics. Current Developments and Collaborative Opportunities verður birt.

Tungumál verða áfram í brennidepli í Norðurlandasamstarfinu en ný Norræn tungumálayfirlýsing verður undirrituð af ráðherrunum síðar í dag. Þá ræddu Danir og Íslendingar um gjaldtöku af erlendum streymisveitum sem nýtt verður til að styðja við framleiðslu á innlendu menningarefni. Stefnt er að því að innleiða gjaldtökuna hér á landi 1.janúar 2025 en menningar- og viðskiptaráðherra mun mæla fyrir frumvarpi þess efnis á Alþingi.

Ráðherrarnir ræddu einnig drög að nýrri norrænni samstarfsáætlun í menningarmálum 2025-2030 sem kynnt var fyrir þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandasamstarfsins á árlegu þemaþingi Norðurlandaráðs í Þórshöfn í apríl sl. Nefndin lýsti við það tilefni ánægju sinni með áætlunina og lagði áherslu á að mikilvægt væri að hlúa að starfsumhverfi listamanna – sérstaklega í ljósi fenginnar reynslu eftir Kóróna -19 heimsfaraldurinn.

Þá var einnig fjallað um tillögur sem miða að því að draga úr skrifræði og einfalda ferlið við lán á menningardýrgripum milli menningarstofnana Norðurlandanna, Menningarverðlaun Norðurlandaráðs og menningararf á tímum átaka og stríðs út frá alþjóðlegu sjónarhorni og enn frekara samstarf í menningarmálum á milli Norðurlandanna.

,,Hið rótgróna samstarf  Norðurlandanna er að mörgu leyti einstakt á heimsvísu. Það er mikilvægt að við höldum áfram að hlúa að því til framtíðar enda hafa Norðurlöndin mjög margt fram að færa og mikill styrkur er fólginn í samstarfinu. Það er einkennandi fyrir Norðurlöndin og samstarfið hve rík áhersla er lögð á að styðja við menningu með ráðum og dáðum og þann samhug þarf að halda í,‘‘ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum