Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný heildarlög um stimpilgjald

Við Tjörnina í Reykjavík
Við Tjörnina í Reykjavík

Þann 1. janúar sl. tóku gildi ný heildarlög um stimpilgjald en með þeim voru eldri lög um stimpilgjald, nr. 36/1978, felld úr gildi. Með nýju lögunum er tekið upp mun einfaldara kerfi en áður gilti um innheimtu stimpilgjalds.

Gjaldskyldan samkvæmt nýju lögunum nær einungis til skjala er varða eignaryfirfærslu á fasteignum hér á landi og á skipum yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi. Gjaldskyld eru þau skjöl sem fela í sér eigendaskipti á þessum eignum s.s. afsöl, kaupsamningar og gjafagerningar. Örfá skjöl eru sérstaklega undanþegin stimpilgjaldinu og eru þau helstu skjöl sem fela í sér eigendaskipti vegna arfs og búskipta hjóna. Gjaldskylda stofnast þann dag sem skjalið hefur verið undirritað af öllum undirritunaraðilum og gjalddagi er tveimur mánuðum síðar.

Skylda til að greiða stimpilgjald af lánsskjölum fellur brott


Stærsta efnisbreytingin með nýjum lögum er án efa sú að skyldan til að greiða stimpilgjald af lánsskjölum fellur brott, lántakendum til góða. Samkvæmt eldri lögum þurftu til dæmis lántakendur að greiða um 1,5% stimpilgjald af fjárhæð hvers veðskuldabréfs og gat slíkur kostnaður vegið þungt í fasteignaviðskiptum þegar fasteign var að miklu leyti fjármögnuð með lántöku.

Lagabreytingin hefur einnig í för með sér að ekki er lengur skylt að greiða stimpilgjald vegna hlutabréfa, skilríkja fyrir eignarhlut í félögum og félagssamninga. Þá fellur einnig niður skyldan til að greiða stimpilgjald vegna vátryggingarskjala, aðfarargerða, kyrrsetningargerða, löggeymslna, leigusamninga um jarðir og lóðir, heimildarskjala um veiðiréttindi, skjala sem leggja ítök, skyldur og kvaðir á annarra eign og vegna kaupmála enda fjalli þeir ekki um eignaryfirfærslu á fasteignum og/eða skipum yfir 5 brúttótonnum.

Með nýju lögunum hækkar gjaldhlutfallið vegna eignaryfirfærslu á fasteignum og skipum yfir 5 brúttótonnum úr 0,4% í 0,8% hjá einstaklingum og úr 0,4% í 1,6% hjá lögaðilum. Þó er heimilt að veita einstaklingum helmingsafslátt af stimpilgjaldi þegar þeir kaupa sér í fyrsta sinn íbúðarhúsnæði til eigin nota.

Óhætt er að fullyrða að við þessa breytingu verður álagning, innheimta og eftirlit með stimpilgjaldi til muna einfaldari og skilvirkari en áður var. Þannig má nefna að sýslumenn sjá nú einir um innheimtu gjaldsins en áður var innheimtan á hendi margra aðila. Þá heyra bæði ástimplun stimpilmerkjavélar og álíming stimpilmerkja á stimpilskyld skjöl nú sögunni til því framvegis skal eingöngu gefa út kvittun sem staðfestingu fyrir greiðslu.

Til að stuðla enn frekar að samræmdri framkvæmd á landsvísu mun fjármála- og efnahagsráðuneytið á næstunni birta nánari leiðbeiningar um innheimtu stimpilgjaldsins samkvæmt nýjum lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum