Hoppa yfir valmynd
8. júní 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áframhaldandi upplýsingafundir að því er varðar losun gjaldeyrishafta (Glitnir) 

Ensk útgáfa er upprunaleg útgáfa.

Í dag tilkynnti fjármálaráðuneytið að haldið hafi verið áfram með upplýsingafundi með aðilum sem verða fyrir áhrifum gjaldeyrishaftanna á Íslandi um tillögur sem stjórnvöld eru að íhuga um losun þeirra hafta.

Meðlimir framkvæmdahóps Íslands um losun gjaldeyrishafta (stofnaður af fjármálaráðuneytinu og Seðlabanka Íslands árið 2014) og ráðgjafar þeirra hafa haldið röð upplýsingafunda undanfarna tvo mánuði, m.a. með fulltrúum lítils hóps fjárfesta sem eiga verulegar kröfur í bú þriggja stóru íslensku bankanna sem urðu greiðsluþrota árið 2008, Kaupþing hf., Glitnir hf. og Landsbanki Íslands hf. Framkvæmdahópurinn heyrir undir stýrinefndina um afnám gjaldeyrishafta, sem skipuð er fjármálaráðherra, seðlabankastjóra og fulltrúum forsætisráðuneytisins.

Á þessum upplýsingafundum með kröfuhöfum slitabúanna ræddi framkvæmdahópurinn fyrstu tillögur sínar til stýrinefndarinnar um það hvernig gjaldeyrishöftin – að svo miklu leyti sem þau hafa áhrif á slitabú þriggja stóru föllnu bankanna – gætu verið afnumin. Framkvæmdahópurinn útskýrði að innlendar eignir búanna (að mestu í íslenskum krónum) ógnuðu greiðslujöfnuði Íslands og áætluninni um efnahagslega endurreisn. Framkvæmdahópurinn útskýrði að hann íhugaði að leggja það til að allar eignir slitabúanna þriggja gætu, í kjölfar nauðasamninga sem staðfestir væru af íslenskum dómstólum, verið greiddar út til kröfuhafa í slitameðferðunum í kjölfar greiðslu hvers bús á stöðugleikaskatti, sem innheimtur skyldi einu sinni. Fyrstu ráðleggingar framkvæmdahópsins höfðu að geyma greiningu fyrirhugaðra lagabreytinga með það í huga að greiða fyrir gerð nauðungasamninga fyrir búin. Samkvæmt frumgreiningu framkvæmdahópsins þyrfti að setja 37% stöðugleikaskatt á heildareignir hvers bús (eins og þær voru metnar við lok júní 2015) til að ná fram því markmiði að hlutleysa þá ógn sem að greiðslujöfnuði stafaði, með frádrætti frá heildareignum fyrir 45 milljarða íslenskra króna fyrir hvert bú, sem myndi færa virka skattprósentu í um 35%. Tillagan sem var til skoðunar hjá framkvæmdahópnum myndi einnig gera búunum kleift að nota hluta eigna sinna í langtíma fjárfestingar á Íslandi. Slíkar fjárfestingar gætu lækkað skattstofn bús og lækkað þannig virka skattprósentu stöðugleikaskattsins eins og hann yrði lagður á búið. Þegar skatturinn hefði verið greiddur gætu búin greiðlega ráðstafað eignunum sínum og greitt þær út, og hægt væri að greiða stöðugleikaskattinn í hvaða gjaldeyri sem búið kysi, þ.m.t. íslenskum krónum.

Í kjölfar þessara funda hefur fjármálaráðuneytið haldið áfram að móta frumvarp um stöðugleikaskatt, þ.m.t. að því er varðar skattprósentuna, undanþáguskilyrðin og heimildir til langtímafjárfestinga. Fjármálaráðuneytið reiknar með að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í dag.

Stýrinefndin hefur líka sjálfstætt skoðað ramma (stöðugleikaskilyrði), sem framkvæmdahópurinn hefur þróað, til að greina og takast á við afleiðingar innlendra eigna í eigu slitabúanna fyrir greiðslujöfnuð.

Framkvæmdahópurinn hefur einnig tekið við tillögum frá kröfuhöfum sem sótt hafa þessa fundi um valfrjálsar ráðstafanir að þeirra frumkvæði sem gerðar eru með það í huga að hlutleysa þá ógn sem að greiðslujöfnuði stafar vegna innlendra eigna í búunum. Í þessum tillögum er íhugað að bregðast við þeirri ógn bæði með greiðslu stöðugleikaframlags ásamt öðrum ráðstöfunum sem ætlað er draga úr útflæði króna sem hafa verið fastar í gjaldeyrishöftum og efla gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands.

Glitnir

Einkum að því er varðar Glitni, voru haldnir upplýsingafundir á síðustu tveimur mánuðum milli (i) hóps eigenda krafna í bú Glitnis sem sæta höftum, sem allir hafa skrifað undir samning um þagnarskyldu og takmörkun á viðskiptum og ráðgjafa þeirra og (ii) tiltekinna meðlima framkvæmdahópsins og ráðgjafa Íslands.

Að loknum nýjasta fundi meðlima framkvæmdahópsins, ráðgjafa Íslands og ráðgjafa kröfuhafa (haldinn 2. júní 2015) lagði Akin Gump LLP, fyrir hönd kröfuhafa í slitabú Glitnis, tillögu fyrir fjármálaráðherra (sem formanns stýrinefndarinnar) hinn 8. júní 2015. Lykilatriði í tillögu kröfuhafa í Glitni eru eftirfarandi:

Stöðugleikaframlag sem samanstendur af:

greiðslu á krónum í lausafjáreignum í búi Glitnis, að upphæð u.þ.b. 58 milljarðar króna, sem inniheldur (i) 37 milljarða króna umframarðgreiðslur sem Íslandsbanki skuldar búi Glitnis (eins og lýst er nánar hér á eftir) og (ii) gerir ráð fyrir 7 milljarða króna arði af innlendum eignum,

framsal krafna og réttinda bús Glitnis á hendur hendur tilteknum innlendum íslenskum gagnaðilum, með bókfært virði sem nemur u.þ.b. 59 milljörðum króna,

útgáfu og afhendingu veðtryggðs skuldabréfs í íslenskum krónum að fjárhæð 119 milljarða króna að nafnvirði,

greiðslu allra fjárhæða í íslenskum krónum sem Glitnir myndi endurheimta að því er varðar allar kröfur á hendur innlendum aðilum sem að öðrum kosti hefðu talist til framseldra réttinda en ekki er hægt að framselja með beinum hætti (jafnað á móti öllum fjárhæðum í íslenskum krónum sem Glitnir greiddi innlendum aðilum í tengslum við kröfur á hendur Glitni), metið að upphæð u.þ.b. 14 milljarðar króna og

greiðslur í krónum sem Glitnir myndi endurheimta að því er varðar ágreiningskröfur á hendur innlendum aðilum, sem hafnar voru fyrir gerð nauðasamninga.

Bú Glitnis mun geyma í varasjóði 5 milljarða króna til að greiða réttmætan, raunverulegan og skráðan kostnað í íslenskum krónum fyrir árin 2015, 2016 og 2017 sem er greiddur til innlendra aðila (að undanskyldum hvatakerfum).

Skilmálar skilyrta veðtryggða skuldabréfsins myndu verða eftirfarandi:

skal greiðast eftir því hvort gerist fyrr: (i) sala eða peningavæðing 95% hluta Glitnis í Íslandsbanka, að hluta til eða öllu leyti, og (ii) á þeim degi þegar liðin eru þrjú ár frá útgáfu þess,

5.5% vextir,

það skal tryggt með veði í nýjum víkjandi skuldabréfum gefnum út í evrum til meðallangs tíma (EMTN-skuldabréf sjá að neðan), ríkisskuldabréfum, nýju víkjandi skuldabréfum útgefnum af Íslandsbanka, (víkjandi skuldabréf, sjá skilgreiningu neðar) og 95% hlutum í Íslandsbanka og skal veðhlutfallið ávallt skal nema að virði að lágmarki 115% útistandandi höfuðstóls. Fjárhæðin til greiðslu skilyrta veðtryggða skuldabréfsins skal: (i) einungis koma til greiðslu að því marki og í sömu hlutföllum og hver sá hundraðshluti 95% hlutarins í Íslandsbanka sem er seldur einum eða fleiri innlendum aðilum og (ii) skal lækka um sömu hundraðshluta og allir hundraðshlutar 95% hlutarins í Íslandsbanka sem seldur er fyrir erlendan gjaldeyri til eins eða fleiri erlendra aðila þannig að sala á öllum 95% hlutnum í Íslandsbanka til eins eða fleiri kaupenda Íslandsbanka í erlendum gjaldeyri gerir það að verkum að skilyrta verðtryggða skuldabréfið kemur ekki til greiðslu.

Glitnir mun kaupa á nafnvirði, sem nemur 138 milljón evrum, þau víkjandi skuldabréf sem ríkissjóður veitti Íslandsbanka við endurfjármögnun Íslandsbanka og sem bú Glitnis mun bjóðast til að endurfjármagna í ný víkjandi skuldabréf í erlendum gjaldmiðli sem eru verðlögð á markaðsskilmálum með 10 ára lágmarkstíma.

Bú Glitnis mun leitast við með viðskiptalega skynsamlegum hætti að (a) hefja peningavæðingu varðandi eigið fé Íslandsbanka eigi síðar en á þeim degi sem nauðarsamningar Glitnis taka gildi og (b) miða að því að ljúka peningavæðingu eigin fjár Íslandsbanka fyrir árslok 2016 svo fremi sem sanngjarnt markaðsvirði fæst sem er fullnægjandi og viðunandi á þeim tímapunkti. Fjárfestingarbanki sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og er ráðinn af Glitni og óháður kröfuhöfum Glitnis skal hafa umsjón með peningavæðingarferlinu. Fjárfestingarbanki sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og er tilnefndur af Seðlabanka Íslands skal veita sanngirnisálit um söluverðið ef salan er ekki fyrsta almennt útboð og skráning á skipulegum markaði fer fram í kjölfarið. Ef fjárfestingarbankinn kemst að þeirri niðurstöðu að verið sé að selja Íslandsbanka á minna en 90% af matsvirði fjárfestingarbankans verður Íslandsbanki ekki seldur ef kaupverðið er lægra en bókfært virði bankans. Þetta skal tekið fram í hluthafasamkomulagi milli stjórnvalda og Glitnis. Öll ákvæði varðandi tillögur kröfuhafa um sölu eða peningavæðingu vegna eigin fjár Íslandsbanka skulu einnig gilda um sölu eða peningavæðingu vegna eiginfjár GLB Holding og/eða ISB Holding, sem eru móðurfélag Íslandsbanka.

Lengt verður í (i) innstæðum Glitnis í erlendum gjaldeyri í íslenskum bönkum að upphæð 37 milljörðum króna og (ii) öðrum innleystum innlendum eignum í erlendum gjaldeyri, sem metnar eru á u.þ.b. 3 milljarða króna, með skuldabréfum gefnum út samkvæmt EMTN-skuldabréfaramma Íslandsbanka á markaðsverði með sjö ára lágmarkstíma.

Áður en nauðarsamningar takast um bú Glitnis skal lækka heildareiginfjárhlutfall Íslandsbanka niður í 23%, á eftirfarandi hátt, með fyrirvara um samþykki Íslandsbanka, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans:

Með arðgreiðslu í erlendum gjaldeyri (eða, ef arðgreiðsla reynist ekki möguleg, endurkaupum frá Glitni á bókfærðu virði) sem samsvarar 17 milljörðum króna, þar af færi upphæð að jafnvirði 16 milljarða króna til Glitnis og sem er skilyrt því að Íslandsbanki samþykki útgáfuna og að Glitnir muni endurfjárfesta um hlut sinn í AT1 nafnverðsskuldabréfum eða öðrum víkjandi skuldabréfum samkvæmt markaðsskilmálum með 10 ára lágmarkstíma og

Með viðbótararðgreiðslu að upphæð 38 milljarðar króna (eða, ef arðgreiðsla reynist ekki möguleg, endurkaupum af Glitni á nafnverði) og þar af mun 37 milljarða króna skuldin við Glitni mynda hluta af 58 milljarða króna greiðslunni á stöðugleikaframlaginu í óbundnum krónum.

Kröfuhafar í bú Glitnis styðji breytingu bús Glitnis á samþykktum Íslandsbanka sem (i) myndi takmarka framtíðarsölu allra síðari kaupenda á hlutabréfum í Íslandsbanka við innlenda aðila í 5 ár frá dagsetningu nauðarsamnings með losun á 20% af þeirri takmörkun á ári sem mundi hefjast á þeim degi þegar liðin eru fimm ár frá nauðasamningi og ljúka á þeim degi þegar liðin eru tíu ár frá nauðasamningi („samningsbundnar takmarkanir á framsali“) og (ii) myndi þurfa atkvæði 100% hluthafa í Íslandsbanka til að breyta samningsbundnum takmörkunum á framsali.

Við sölu eða peningavæðingu á 95% hlutnum í Íslandsbanka til innlends aðila mundi bú Glitnis skipta öllu innleystu fjárhagslegu virði 95% hlutarins í Íslandbanka með ríkisstjórn Íslands með heildarskiptasamningi með:

greiðslu á 33⅓% af öllum hreinum söluhagnaði á bilinu 85 til 119 milljarðar króna, til íslenskra yfirvalda,

greiðslu á 50% af öllum hreinum söluhagnaði á bilinu 119 til 136 milljarðar króna, til íslenskra yfirvalda og

greiðslu á 75% af öllum hreinum söluhagnaði yfir 136 milljörðum króna, til íslenskra yfirvalda.

Eftirstöðvar hagnaðarins ef einhverjar eru yrðu eftir hjá Glitni.

Við innlenda sölu eða peningavæðingu Íslandsbanka og að því leyti sem ríkisstjórnin (í gegnum Bankasýslu ríkisins eða annan framsalshafa sem er útnefndur síðar) á eignarhlut í Íslandsbanka mun ríkisstjórnin (gegnum Bankasýslu ríkisins eða annan framsalshafa sem er útnefndur síðar) greiða atkvæði með hverjum þeim breytingum á samningsbundnum takmörkunum á framsali til að greiða fyrir slíkri innlendri sölu.

Við sölu eða peningavæðingarferli vegna 95% hlutarins í Íslandsbanka fyrir erlendan gjaldeyri til erlends aðila, ef eiginfjárhlutfall Íslandsbanka er 23% eða minna, mundi bú Glitnis deila öllu innleystu fjárhagslegu virði 95% hlutarins í Íslandbanka með ríkisstjórn Íslands, sem hluthafa í Íslandsbanka, með heildarskiptasamningi að upphæð sem samsvarar 60% af öllum hreinum söluhagnaði, upp að bókfærðu virði 95% hlutarins í Íslandsbanka í íslenskum krónum á söludegi, eins og því er skipt á miðgengi Seðlabanka Íslands fyrir evruna, miðað við 5. júní 2015, sem var 148,53 krónur á móti 1 evru. Ef gengið er hærra en 148,53 krónur fyrir evruna (t.d. 160,0 krónur fyrir evruna), þegar slík sala eða peningavæðing fer fram, þá nemur greiðsluupphæðin 60% af söluhagnaði upp að bókfærðu virði eins og því er skipt í evrur á því gengi krónu gagnvart evru sem gildir á söludaginn.

Eftirstöðvar hreins hagnaðar, ef einhverjar eru, yrðu eftir hjá Glitni.

Ef svo fer að eiginfjárhlutfall Íslandsbanka er hærra en 23% greiðist upphæð sem samsvarar umfram eigin fé til ríkisstjórnarinnar, sem hluthafa í Íslandsbanka.

Komi til sölu eða peningavæðingarferlis vegna 95% hlutarins í Íslandsbanka fyrir erlendan gjaldeyri til erlends aðila býðst Glitnir til að endurfjárfesta hluta af hagnaðinum af sölu eða peningavæðingu Íslandsbanka í erlendum gjaldeyri í langtíma fyrirgreiðslu við fjármögnun til að fjármagna ríkissjóð að upphæð, sem talin er skynsamlega nauðsynleg til að takast á við vandamál tengd fjármálastöðugleika sem stafa af áhættuvarnarráðstöfunum vegna gjaldeyris sem einhver kaupandi í Íslandsbanka, allt að 319 milljón evrum, (eða samsvarandi upphæð í öðrum gjaldmiðlum sem ríkissjóður óskar eftir á þeim tíma) og skal tilboðið standa ríkissjóði Íslands til boða í 6 mánuði eftir sölu eða peningavæðingu Íslandsbanka fyrir erlendan gjaldeyri. Slík langtíma fyrirgreiðsla skal: (i) hafa 7-10 ára líftíma, með fyrirvara um þarfir ríkissjóðs, og (ii) vera með markaðsskilmálum að því er varðar vaxtafyrirkomulag og vera án fyrirframgreiðslukostnaðar.

Glitnir skuldbindur sig til að verja ekki eigið fé sitt í Íslandsbanka eftir nauðasamning, beint eða óbeint, og skal fá samsvarandi skuldbindingu (skal Seðlabanki Íslands eða fulltrúi hans vera rétthafi þriðja aðila að henni) frá kaupanda þess hlutafjár fyrir erlendan gjaldeyri (annarra en kaupenda í fyrsta útboði verðbréfa eða skráningu á skipulögðum markaði).

Kröfuhafar í bú Glitnis og hlutdeildarfélög þeirra munu ekki kaupa, beint eða óbeint, neinn hluta af hlutfénu í Íslandsbanka sem hluta af þessu sölu- eða peningavæðingarferli nema þess hlutafjár sé fyrst aflað með almennu útboði eða síðara útboði eftir skráningu á skipulögðum verðbréfamarkaði.

Útgreiðslur til kröfuhafa mundu vera lausar að greiddu stöðugleikaframlaginu þegar útgáfu skilyrta verðtryggða skuldabréfsins er lokið og þegar búið er að leggja fram tengda tryggingu og framselja framseldu réttindin.

Framkvæmdahópurinn hefur staðfest að tillögur kröfuhafa Glitnis séu í samræmi við rammann sem studdur er af stýrinefndinni og leggur til að veitt verði undanþága á grundvelli tillagna kröfuhafa í slitabú Glitnis. Ef Seðlabanki Íslands veitir undanþágu frá gjaldeyrishöftunum á grundvelli tilagna kröfuhafa í slitabú Glitnis, skulu þær eignir sem eftir eru í slitabúi Glitnis ekki lengur sæta gjaldeyrishöftum og skulu tiltækar til útgreiðslu til kröfuhafa í slitabúið í samræmi við þá málsmeðferð sem kveðið er á um í íslenskum lögum. Eignir bús Glitnis skulu í framhaldinu ekki sæta gjaldeyrishöftum á Íslandi og þá skal hvorki búið eða kröfuhafar þess greiða stöðugleikaskatt í neinni mynd eða sambærilega skatta eða gjöld (annað en greiðslu bankaskatts fyrir árið sem lýkur 31. desember 2014).

Upplýsingafundir framkvæmdahópsins við aðila sem verða fyrir áhrifum af fyrirhugaðri afléttingu gjaldeyrishaftanna eiga sér enn stað.

--------------------------------------------------------

[1] Tillaga Glitnis byggir á upplýsingum sem lágu fyrir til handa kröfuhöfum í bú Glitnis hinn 8. júní 2015 og kunna að breytast til að hlutleysa áhrif útstreymis á krónum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum