Hoppa yfir valmynd

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Menningar- og viðskiptaráðuneytið
Mennta- og barnamálaráðuneytið
Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið
Forsætisráðuneytið

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð forsætisráðherra, menningar- og viðskipta­ráð­herra, mennta- og barnamálaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Það skiptist í fimm málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2022–2024.

Heildarútgjöld

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn fyrir málaflokk lista, menningar og íþrótta- og æskulýðsmála er að Ísland skipi sér í fremstu röð á þessum sviðum. Stefnt er að því að Ísland verði miðstöð skapandi greina. Allir landsmenn eiga að geta aukið lífsgæði sín með þátttöku í öflugu og fjölbreyttu starfi á þeim sviðum sem heyra undir málefnasvið 18. Málefnasviðið í heild hefur sterka sam­svörun við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega í nýsköpun og betri sam­skiptum við almenning.

Meginmarkmið stjórnvalda á sviði menningar og lista eru meðal annars að jafna og bæta tækifæri til ný- og atvinnusköpunar í menningarstarfi, listum og skapandi greinum. Þannig er stefnt að því að auka verðmætasköpun í skapandi greinum, auk þess sem áhersla er lögð á varðveislu, aðgengi, miðlun og skráningu menningararfs þjóðarinnar, uppbyggingu innviða og á að efla íslensku og ís­lenskt táknmál sem opinber mál á Íslandi. Meginmarkmið stjórnvalda á sviði íþrótta- og æsku­lýðsstarfs er að auka gæði og styrkja faglega umgjörð um skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf.

Fjármögnun

Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins í heild lækki um 1.892 m.kr. frá fjárlögum 2024 til ársins 2029. Helstu breytingar til hækkunar felast í 8.220 m.kr. tímabundnu framlagi vegna framkvæmda við þjóðarhöll á tímabilinu 2025–2027 og 400 m.kr. varanlegu framlagi til menningarmála þar sem m.a. er horft til stofnunar þjóðaróperu og starfslauna listamanna. Einnig er gert ráð fyrir auknu framlagi til Þjóðskjalasafns Íslands vegna nýs varðveisluhúsnæðis ásamt því að gert er ráð fyrir að tekjur aukist um 347 m.kr. Helstu breytingar til lækkunar á útgjaldaramma á tímabilinu felast í almennri aðhaldskröfu að fjárhæð 1.064 m.kr. Einnig niðurfelling á 1.493 m.kr. tímabundnum framlögum en þar vega mest 500 m.kr. tímabundið framlag til menningarmála vegna heimsfaraldurs, 360 m.kr. vegna máltækni, um 200 m.kr. vegna Tónlistarmiðstöðvar og um 197 m.kr. vegna ýmissa tímabundinna framlaga. Að auki er um að ræða 166 m.kr. á ýmsum tímabundnum framlögum til íþrótta- og æskulýðsmála.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi

Helstu áherslur 2025–2029

 

18.1 Safnamál

Verkefni

Undir málaflokkinn fellur starfsemi safna á vegum ríkisins, sveitarfélaga, sjálfseignar­stofnana og annarra aðila. Löggjöf um málaflokkinn tekur til opinberra safna og stuðnings við önnur söfn. Áfram verður hugað að starfsemi höfuðsafnanna þriggja, Þjóðminjasafns, Lista­safns og Náttúruminjasafns, og unnið samkvæmt aðgerðaáætlun fyrir stefnumörkun um safna­starf sem samþykkt var 2023. Á tíma fjármálaáætlunar er stefnt að því að framkvæmdir á varanlegu húsnæði fyrir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands og viðbótum við Listasafn Einars Jónssonar muni ljúka. Auk þess er verið að vinna að endurbótum á Gljúfrasteini ásamt því að verið er að tryggja Þjóðskjalasafni nýtt varðveislurými. Málefni almenningsbókasafna, héraðsskjalasafna og annarra safna sem falla undir bókasafnalög og lög um opinber skjalasöfn, auk málefna sem tengjast fjárhagslegum stuðningi við starfsemi safna á öllum sviðum, m.a. í gegnum samninga, falla einnig undir málaflokkinn. Nýlegri myndlistarstefnu verður fylgt eftir. Stefnan felur í sér fjölbreyttan stuðning við listsköpun, menntun og myndlæsi sem styður við myndlistarmenningu og aukna þekkingu og áhuga almennings á myndlist.

Ofangreind verkefni styðja við velsældaráherslur ríkisstjórnar hvað varðar grósku í nýsköpun og betri samskipti við almenning.

Helstu áskoranir

Sett verður stefna um rafræna langtímavörslu skjala. Rafræn skjalavistun er of skammt á veg komin og nauðsynlegt er að endurnýja rafræna innviði opinberrar stjórnsýslu til að mæta nýjum kröfum í málaflokknum.

Húsnæðisvanda Þjóðskjalasafns Íslands þarf að leysa til framtíðar. Skoða skal möguleika á samnýtingu varðveisluhúsnæðis safna í eigu ríkisins og þá sérstaklega samstarf Þjóðskjala­safns Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Að sama skapi þarf að huga að varanlegu varðveisluhúsnæði allra þriggja höfuðsafnanna og samlegð varðandi slíkt sérhæft húsnæði.

Tækifæri til umbóta

Kanna þarf fýsileika á auknu samstarfi eða sameiningu safna í eigu hins opinbera.

Úrbóta er þörf í söfnun tölfræðigagna sem tengist safnastarfi, m.a. um aðgengi, þátttöku og aldurs- og kynjaskiptingu, og greiningu þeirra. Áfram verður unnið með Hagstofu Íslands að markvissri gagnaöflun. 

Áhættuþættir

Mikilvægt er að huga að varðveislu á menningararfi þjóðarinnar, í því skyni verður áfram unnið að viðbragðsáætlunum vegna þeirrar hættu sem steðjar að safnkosti um land allt vegna loftslags- eða náttúruvár og annarra hamfara. Í því sambandi þarf einnig að huga að breytingum á framtíðarvarðveisluhúsnæði höfuðsafnanna, Þjóðminjasafns, Listasafns og Náttúruminjasafns, m.a. staðsetningu þess.

Áfram verður unnið með greiningu og tillögur að úrbótum á húsnæðiskosti Listasafns Íslands með sérstakri áherslu á varðveislurými safnsins sem og sýningarými fyrir fastasýningu. ­

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Betri aðgangur að menningu og menningararfi.

4.7

Fjöldi heimsókna í söfn.

1.800.000*

2.000.000

2.500.000

Efla vernd á menningararfi þjóðarinnar í samræmi við alþjóðlegar kröfur.

11.4

Fjöldi safna í eigu ríkisins með viðunandi varðveislu og sýningarhúsnæði.

1 af 5

2 af 5

5 af 5

 

Fjöldi viðurkenndra safna um landið sem eru hluti af við­bragðsáætlun stjórnvalda vegna loftslagsbreytinga og annarrar vár.

0

50%

100%

Auka skráningu safnkosts.

11.4

Fjöldi skráninga í Sarp.[1]

1.652.000

1.700.000

2.000.000

11.4

Stafvæðing á hliðrænum safnkosti og efnisgreining.

9%

12%

16%

 

Stafræn endurgerð safnkosts Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

7,8 millj. bls.

8,2 millj. bls.

9,0 millj. bls.

*Samkvæmt tölum Hagstofunnar 2021.

18.2 Menningarstofnanir

Verkefni

Löggjöf um málaflokkinn tekur til opinberra stofnana á sviði lista og menningar. Ríkið á og rekur menningarstofnanir ásamt því að eiga í samvinnu við aðra um rekstur menningarstarfsemi, m.a. með rekstrarstuðningi. Stofnanirnar eru undirstaða fyrir aðra menningar- og lista­starfsemi í landinu á viðkomandi sviði og þjóna landsmönnum öllum, auk þess sem sumar þeirra sinna stjórnsýslu eða rannsóknum á sínu sviði.

Í gildi eru veigamiklar stefnur og aðgerðaáætlanir stjórnvalda á sviði menningarmála þar sem hlutverk menningarstofnana og aðgengi að listum og menningarstarfi er áréttað. Þar er einnig lögð áhersla á fjölmenningu og þátttöku barna og ungmenna með annað móðurmál en íslensku í menningarstarfi.

Fornleifar eru frumheimildir um sögu Íslands. Markviss og kerfisbundin fornleifaskráning og miðlun þekkingar er grundvöllur minjaverndar. Einnig er vitneskja um fornleifar mikilvæg fyrir skipulags- og framkvæmdaraðila, skógrækt og ferðaþjónustu. Minjastofnun Íslands vinnur eftir áætlun um heildarskráningu fornleifa í landinu út frá forgangsröðun, m.a. vegna náttúruhamfara og loftslagsvár. Stofnunin vinnur einnig að innleiðingu stefnu um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi sem kom út árið 2023.

Helstu áskoranir

Menningarstofnanir veita landsmönnum tækifæri til að njóta menningar og lista. Þær eru þjónustustofnanir sem taka mið af fjölbreytni samfélagsins í starfi sínu og dagskrá, auk þess að gegna lykilhlutverki í menningarfræðslu og miðlun. Mikilvægt er að áfram verði unnið að því að auka aðgengi landsmanna allra að menningu á vegum menningarstofnana ríkisins og annarra samstarfsaðila, sem viðvarandi verkefni og að unnið verði að varðveislu menningararfs og stafræns aðgengis að honum.

Árið 2023 gaf umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið út skýrslu starfshóps um stöðu minjaverndar í landinu. Starfshópurinn greindi 12 helstu áskoranir minjaverndar og lagði í skýrslunni til 49 tillögur til úrbóta, þar af átta lykiltillögur. Mikil og brýn þörf er á markvissu og öflugu átaki í vernd minja sem eru í hættu og vitundarvakningu um mikilvægi þeirra. Verði ekkert að gert getur hluti af mikilvægustu menningarminjum­ þjóðarinnar tapast alveg á næstu árum, t.d. vegna náttúruhamfara og loftslagsvár. Þetta á líka við um byggingararfinn og bátaarfinn en ef ekkert verður að gert munu nokkur af síðustu eintökum tiltekinna gerða af fornbátum fara forgörðum. Tækifæri eru í að nýta betur menningarminjar, þ.m.t. handverk, í ferðaþjónustu. Eftir því sem lögbundnar skyldur stjórnvalda vegna minjaverndar aukast þarf að auka stafrænt aðgengi að upplýsingum um skráðar minjar. Aukið samtal milli stjórnvalda, almennings, félagasamtaka og annarra hagsmunaaðila um minjavernd, með liðsinni stafrænnar tækni og miðla, eykur samlegð og eflir áhuga og skilning á mikilvægi menningarminja hjá almenningi. Lögð er áhersla á að efla stafræna innviði minjavörslunnar til að hraða málsmeðferð og efla upplýsingagjöf, fræðslu og miðlun á hennar vegum.

Ofangreind verkefni styðja við velsældaráherslur ríkisstjórnar hvað varðar grósku í nýsköpun, virkni í námi og starfi og betri samskipti við almenning.

Tækifæri til umbóta

Drög að sviðslistastefnu eru í vinnslu og lagt hefur verið fram frumvarp um stofnun Þjóðar­óperu innan Þjóðleikhússins. Gert er ráð fyrir að þar sé stigið fyrsta skrefið í átt að auknum samrekstri sviðslistastofnana ríkisins en bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu kveður á um nefnd er skuli kanna slíkt fyrirkomulag. Stefnt verði að auknu jafnræði leiklistar, danslistar og óperu­listar með sameiginlegri yfirstjórn. Útfærsla verður undirbúin á næstu árum og innleiðing áætluð 2030.

Um leið gefst færi á að skoða sameiginlega lausn á húsnæðisvanda Íslenska dansflokksins og Þjóðleikhússins en báðar stofnanir skortir varanlegt æfingahúsnæði. Vorið 2023 var Edda tekin í notkun en byggingin hýsir starfsemi Árnastofnunar og íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Sérstakt sýningarrými fyrir handrit er í húsinu og stefnt er að því að hægt verði að taka á móti gestum á síðari hluta ársins 2024 sem mun auka aðgengi landsmanna að menningararfi þjóðarinnar.

Ákveðnir staðir víðs vegar um landið hafa í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki og skipa sérstakan sess í sögu lands og þjóðar. Þessa staði má nefna sögustaði. Sérstök áhersla verður lögð á eflingu og uppbyggingu á slíkum stöðum, m.a. í samræmi við áherslur áfangastaðastofa, með það að markmiði að standa vörð um staðinn sjálfan og þá sögu sem hann hefur að segja og miðla henni áfram til komandi kynslóða. Í samræmi við þetta er til að mynda unnið að undirbúningi við uppbyggingu á fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar, Hrauni í Öxnadal. Bygging menningarhúsa er liður í að jafna tækifæri landsmanna til að njóta og taka þátt í menningu og listum um land allt. Undirbúningur er jafnframt hafinn að byggingu menningarhúss í Skagafirði. 

Áhættuþættir

Brýnt er að efla heildræna gagnasöfnun og rannsóknir á sviðum menningar og skapandi greina svo undirbyggja megi enn markvissari stefnumótun þeirra til framtíðar. Unnið er að þróun hagvísa fyrir menningu og skapandi greinar og birtingu tölfræði um aðgengi og menning­arþátttöku. Ýmsar aðgerðir í því samhengi er að finna í stefnum stjórnvalda á sviði menningarmála. ­­

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Efla aðgengi og auka aðsókn að menningarstofnunum.

Hlutfall menningarstofnana sem ná markmiðum sínum um aðgengi og gestafjölda.*

0%

50%

100%

Vernda menningararf þjóðarinnar með markvissari hætti.

11.4

Hlutfall fornleifaskráðra svæða af heildarflatarmáli landsins.

26%

29%

35%

 

Hlutfall stafrænnar endurgerðar handritasafns Árnastofnunar.

31%

39%

55%

* Þessi nýji mælikvarði er til að ná utan um áheyrendaþróun menningarstofnana varðandi fjölda áheyrenda, fjölbreytileika og inngildingu.

18.3 Menningarsjóðir 

Verkefni 

Fjárveitingum til menningar og lista, sem ekki renna til ríkisstofnana eða eru bundnar í samn­ingum, er að mestu úthlutað í gegnum lögbundna sjóði. Hlutverk þeirra er að stuðla að faglegri og sjálfstæðri lista- og menningarstarfsemi og samfellu hennar. Úthlutun styrkja grundvallast á opnu umsóknarferli og tillögum faglegra úthlutunarnefnda. 

Sérlög og reglur gilda um sjóði innan málaflokksins, bæði lögbundna og aðra. Þeir eru Forn­minjasjóður, Húsafriðunarsjóður, Myndlistarsjóður, Bókmenntasjóður, Bókasafnasjóður, launa­sjóðir listamanna, Kvikmyndasjóður, Bókasafnssjóður höfunda, Tónlistarsjóður, Barna­menningar­sjóður, starfsemi atvinnuleikhúsa, sóknaráætlun landshluta til stuðnings menningu og stuðningur við útgáfu bóka á íslensku. 

Unnið er á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar Menningarsókn til 2030 og gildandi stefnum fyrir hverja og eina listgrein fyrir sig, svo sem kvikmyndastefnu, myndlistarstefnu, tónlistarstefnu og stefnu á sviði hönnunar og arkitektúrs. Stefnurnar skilgreina forgangsverkefni stjórnvalda út frá aðgerðum sem taka mið af sköpun, þátttöku og góðu aðgengi allra að listum og menningu, þróun stafrænnar tækni og fjölmenningarlegs samfélags ásamt því að auka verðmætasköpun í skapandi greinum á Íslandi sem og útflutningi. 

Helstu áskoranir

Þróun og framtíð íslenskrar tungu á tímum örrar alþjóðavæðingar og tæknibyltinga er mikilvæg til að styrkja stöðu þjóðtungunnar. Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu er samvinnuverkefni fimm ráðuneyta þar sem forgangsverkefni stjórnvalda eru skilgreind með hliðsjón af tillögum Íslenskrar málnefndar að endurskoðaðri málstefnu. Leiðarstef í áætluninni eru bætt aðgengi og gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur og aukinn sýni- og heyranleiki tungumálsins.

Í þingsályktun um málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaáætlun er lögð áhersla á megin­stoðir sem munu efla, varðveita og stuðla að þróun íslensks táknmáls. Íslenskt táknmál er eina opinbera minnihlutamálið á Íslandi en á sama tíma í útrýmingarhættu. Málstefna og aðgerðaáætlun er því markvisst viðbragð við því.

Tækifæri til umbóta 

Unnið er að umbótum á starfs- og rekstrarumhverfi listamanna og annarra sem starfa í skapandi greinum. Í því felst m.a. aukin samhæfing og styrking sjóðakerfis lista og menningar, þ.m.t. launasjóðir listamanna, með bætt aðgengi og skilvirkni að leiðarljósi.

Í gildandi kvikmyndastefnu verður áfram unnið eftir aðgerðaáætlun sem nær yfir hlut kvikmynda í menningu þjóðarinnar og hlut menntunar í kvikmyndagerð, miðlun íslensks kvikmyndaefnis og stuðning við framleiðslu. Með breytingu á kvikmyndalögum verður komið á nýjum fram­leiðslu­styrkjaflokki til lokafjármögnunar vegna leikinna sjónvarpsþáttaraða þar sem hvatt er til þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og styrkt staða framleiðanda íslensks efnis til að móta sjálfstæði í efnistökum, frásagnarhefð og frumsköpun. Ráðgert er að leggja fram frumvarp um menningarframlag streymisveitna sem mun renna sem viðbótarframlag í Kvikmyndasjóð til eflingar innlendrar framleiðslu. Áætlað er að framlagið í sjóðinn muni nema um 265 m.kr. á ársgrundvelli.

Tónlistarstefnu verður fylgt eftir og mun starfsemi nýrrar Tónlistarmiðstöðvar og tónlistarsjóðs styrkja innviði greinarinnar og skapa ný tækifæri fyrir tónlistarfólk á Íslandi. Nýttir verða þeir möguleikar sem felast í verkefninu Record in Iceland til að festa Ísland í sessi sem starfsstöð skapandi greina, sbr. málefnasvið 7. Auka þarf sýnileika íslenskrar tónlistar á stærstu alþjóðlegu streymisveitunum og tryggja rétthöfum réttlátari hlut.

Gildandi stefna í málefnum hönnunar- og arkitektúrs og aðgerðir í hennar nafni miða að því að auka vægi hönnunar í íslensku atvinnulífi og skila vaxandi árangri, fagmennsku og gæðum til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag, sjá nánar í málaflokki 7.2. 

Bókmenntastefna hefur verið lögð fram á Alþingi og þar er einnig að finna aðgerðaáætlun í 18 liðum. Meðal aðgerða er endurskoðun á regluverki kringum bókmenntir sem felur m.a. í sér stuðningskerfið vegna útgáfu bóka á íslensku, laga um bókmenntir, lög um bókasöfn o.fl. Styrking ýmissa sjóða er jafnframt meðal annarra aðgerða í stefnunni. Þá liggur Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026 fyrir þinginu þar sem er að finna aðgerðir á forræði margra ráðuneyta og á ýmsum málefnasviðum. Í ársbyrjun 2024 birti ráðuneytið nýja áætlun um íslenska máltækni undir heitinu Íslenskan okkar, alls staðar. Þar er hvatt til heildarstefnu­mörkunar í málefnum máltækni og gervigreindar til næstu ára.

Sett verður á stofn miðstöð barnamenningar sem heldur utan um Barnamenningarsjóð ásamt verkefninu List fyrir alla.

Rík áhersla er á eflingu skapandi greina í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að á kjörtímabilinu verði lögð áhersla á uppbyggingu sem renni stoðum undir fjöl­breytni í atvinnulífinu og á að efla grunnsjóði í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. 

Áhættuþættir

Almennt skortir greinargóðar tölfræðilegar upplýsingar um menningarmál og skapandi greinar. Til að stefnumótun á þeim sviðum geti þróast þarf að halda áfram að efla söfnun og miðlun tölfræði­upplýsinga, t.a.m. með hliðsjón af kynja-, byggða- og jafnréttissjónarmiðum. Hagræn og sam­félagsleg áhrif lista og menningar eru veruleg í samspili við atvinnulífið, s.s. í bókmenntum, hönnun, kvikmyndagerð, myndlist, sviðslistum, tónlist, tölvuleikjagerð og öðrum skapandi greinum. 

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Efla stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu.

4

Hlutfall barnabóka af endurgreiðslu vegna bókaútgáfu.

21%

27%

30%

 

Hagnýting mál­tæknilausna fyrir almenning.

Fjöldi árangursríkra nýsköpunarverkefna.*

0

4

10

Tryggja tölfræði og kyngreind gögn um menningarsjóði.

 

Fjöldi sjóða sem afla gagna skv. verklagi ráðuneytis.

0%

25%

100%

* Nýr mælikvarði vegna áherslu stjórnvalda í nýrri máltækniáætlun á mikilvægi hagnýtingar máltæknilausna fyrir alemnning mælikvarði.

18.4 Íþrótta- og æskulýðsmál

Verkefni

Starfsemi í málaflokknum er að mestu leyti á hendi frjálsra félaga og félagasamtaka, sem og sveitarfélaga, í samstarfi við ríkið og veltur starfsemin að hluta til á sjálfboðastarfi. Meginmarkmið aðgerða ríkis og sveitarfélaga samkvæmt íþróttalögum er að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði og tilgangur æsku­lýðslaga er að styðja börn og ungmenni til þátttöku í æskulýðsstarfi og skapa sem bestar aðstæður fyrir þau til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

Samningar eru gerðir um framlög til heildarsamtaka til þess að ná markmiðum laganna, faglegri skipulagningu starfsins, þjónustu við félög og þátttakendur og framþróun í mála­flokknum. Aðgerðir styðja vel við þær velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar sem snúa að samfélaginu, þá helst um að efla forvarnir og styðja við íþróttalíf og æskulýðsstarf, sem hefur m.a. jákvæð áhrif á andlega og líkamlega velferð einstaklinga. Sömuleiðis styður íþrótta- og æskulýðsstarf við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021, farsældarlögin) og gegna m.a. frístundaheimili og félagsmiðstöðvar mikilvægu hlutverki sem þjónustu­veitendur innan laganna. 

Helstu áskoranir

Rekstrargrundvöllur frjálsra félagasamtaka er viðkvæmur og felst áskorun í því að viðhalda fjölbreyttu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi skipulagðs íþrótta- og æskulýðsstarfs enda margvíslegur ávinningur af skipulögðu starfi þegar horft er til forvarna, uppeldis og menntunar. Heilsu landsmanna almennt hefur einnig hrakað á undan­förnum árum og áratugum og horfa þarf enn meira til forvarnastarfs vegna þess. Einnig sýna rannsóknir að þátttaka fólks af erlendum uppruna í íþrótta- og æskulýðsstarfi er minni en fólks með íslenskan uppruna.

Helstu áskoranir sem snúa að íþróttamálum felast einkum í auknum alþjóðlegum kröfum og faglegri umgjörð afreksíþróttafólks, þ.e. aðstæðum, umhverfi og starfsskilyrðum sem aukið geta líkur á framúrskarandi árangri íslensks íþróttafólks á heimsvísu. Aðstaða ýmissa íþrótta­greina, sem standa framarlega í alþjóðlegri keppni, er orðin úrelt og uppfyllir ekki alþjóðlega staðla.

Helstu áskoranir í æskulýðs- og frístundastarfi og á frístundaheimilum og í félags­miðstöðvum snúa að forvörnum, aukinni áhættuhegðun, jaðarsettum börnum og ungmennum, virkni og þátttöku, ungmennalýðræði, fjölmenningu, vinnu með flóttafólki o.fl. Nauðsynlegt er að fylgja eftir þeim breytingum sem lagðar eru til í áformum um ný heildarlög þar sem stefnt er að lögfestingu félagsmiðstöðva og ungmennaráða sveitarfélaga. Sömuleiðis þarf að styðja við hlutverk frístundaheimila og félagsmiðstöðva sem þjónustuveitendur innan laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (lög nr. 86/2021).

Tækifæri til umbóta

Framlög til afrekssjóðs ÍSÍ standa að hluta til undir kostnaði við umgjörð hjá íslenskum sérsamböndum sem stuðla að auknum möguleikum íslensks íþróttafólks til að ná árangri í alþjóðlegum keppnum. Umbætur sem unnið er að felast í því að byggja upp nýtt skipulag á afreksíþróttastarfi á Íslandi sem er sambærilegt við það sem er til staðar hjá þjóðum sem Ísland ber sig saman við, s.s. að styðja mun betur við lífsafkomu afreksfólks í íþróttum til þess að ná betri árangri, stuðla að stofnun afreksmiðstöðvar sem samræmir starf á sviði þjálfunar og faglegrar umsjónar afreksfólks.

Uppbygging þjóðarleikvanga heldur áfram og vinna stjórnvöld með Reykjavíkurborg og íþróttahreyfingunni að uppbyggingu þjóðarhallar í íþróttum, auk þess sem áfram verður unnið að undirbúningi þjóðarleikvangs í knattspyrnu og frjálsíþróttum.

Unnið verður að því að efla starfsemi íþróttasambanda og íþróttafélaga með það fyrir augum að styðja við íþróttaiðkun allra aldurshópa sem og heilsueflingu landsmanna. Stutt verður sérstaklega við þátttöku fatlaðra barna og ungmenna með annað móðurmál en íslensku í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þátttaka í slíku starfi styður aðlögun fjölskyldunnar í heild og dregur úr líkum á einangrun. Sérstök áhersla hefur verið sett á þetta í samskiptum stjórnvalda við íþrótta- og æskulýðshreyfinguna, m.a. með stuðningi við endurskipulagningu svæða­skiptingar íþróttahreyfingarinnar sem felur í sér meiri faglegan stuðning við íþróttafélög um allt land.

Starfsemi samskiptaráðgjafa hefur verið efld með auknu stöðugildi sem skapar betri og öruggari umgjörð um íþrótta- og æskulýðsstarf.

Stutt verður enn frekar við æskulýðs- og frístundastarf og samtök ungs fólks sem hafa samfélagsleg markmið og vinna að aukinni lýðræðisvitund þess. Stefna í æskulýðsmálum, Framtíðin – stefna um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna til 2030, hefur verið samþykkt og er unnið samkvæmt henni. Unnið er að heildarendurskoðun æskulýðslaga þar sem m.a. er lagt til að lögfesta skipulagt frístundastarf að 18 ára aldri sem snýr að starfsemi félagsmiðstöðva og sömuleiðis er lagt til að starfsemi ungmennaráða verði lögfest til samræmis við ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Áhættuþættir

Áhættuþættir í íþrótta- og æskulýðsstarfi snúa m.a. að fjárfestingu í uppbyggingu, við­haldi og framförum grundvallarinnviða starfsins sem er m.a. undirstaða þess að fólk með faglega menntun fáist til starfa í sveitarfélögum, hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum og annarri tengdri starfsemi. Til að geta komið til móts við þær áskoranir sem málaflokkurinn stendur frammi fyrir er nauðsynlegt að efla og styðja við íþrótta- og æskulýðsstarf, einkum fyrir börn og ungmenni. Forsenda öflugs íþrótta- og æskulýðsstarfs til lengri tíma er að rekstrar- og starfsumhverfi sé traust, faglegt, öruggt og aðgengilegt fyrir öll.

Afleiðingar þess að fjárfesta ekki í uppbyggingu, viðhaldi og framförum grundvallar­innviða eru margvíslegar og tengjast verndandi forvarnaþáttum, aðstöðu til íþrótta- og æskulýðsstarfs sem og menntun og uppbyggingu mannauðs, bæði sjálfboðaliða og launaðs fagfólks. Séu þessir þættir ekki fyrir hendi getur sá árangur, sem náðst hefur í forvarnastarfi á Íslandi, horfið á skömmum tíma með aukinni áhættuhegðun, hruni félagslegrar þátttöku, heilsutengdum vandamálum og minni farsæld borgaranna í heild. 

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

1. Bæta um­gjörð og auka gæði í skipu­lögðu íþrótta- og æskulýðs­starfi.

 

3.5,

5

Fjöldi og hlutfall skráðra iðkenda í skipulögðu íþróttastarfi af mannfjölda.

 

111.958,

30,3% af mannfjölda 2022.

Karlar: 66.933

Konur: 45.002

Annað: 23

(2022)

114.200,

32,% af mannfjölda. Karlar: 66.236

Konur: 47.964

Annað: 30

120.000,

34% af mannfjölda.

Karlar: 66.000

Konur: 54.000

Annað: 40

Fjöldi iðkenda 16 ára.*

Karlar: 1.376

Konur: 982

Annað: 4

52% af mannfjölda 2021 Karlar: 59,3% Konur: 44%

Annað: 0,002%

2.600

Karlar: 1.420

Konur: 1.180

3.000

Karlar: 1.650

Konur: 1.350

Fjöldi iðkenda í skipulögðu starfi æskulýðsfélaga á aldrinum 6–18 ára af mann­fjölda á þeim aldri.

16,8%

13%

17%

Hlutfall af fjölda þátttakenda á námskeiðum og sumarbúðum á aldrinum 6–18 ára.

18,2%

20%

22%

Fjöldi þátttakenda í leiðtogaþjálfun æskulýðsfélaga.

1.354

2.900

3.500

2. Efla umgjörð og stuðning við afreksíþrótta-fólk.

3.5,

5

Meðaltal íþróttamanna á Ólympíuleikum og lokamótum alþjóðlegra stórmóta á þriggja ára tímabili.

208 árið 2022

Karlar: 121

Konur: 87

Karlar: 372

Konur: 241

(2021–2023)

Karlar: 380

Konur: 260

Staða uppbygg­ingar þjóðar­hallar í innan­húss­íþróttum.

Unnið að undirbúningi útboðsgagna og unnið að kostnaðar­skiptingu ríkis og Reykjavíkur­borgar.

Byggingafram-kvæmdir.

Mannvirki í daglegri notkun.

Fjöldi íþróttafólks í einstaklingsgreinum á meðal 16 bestu á alþjóðlegum stórmótum og heimslistum. (ÓL,HM)

Alls: 6

Karlar: 2

Konur: 4

Alls: 5

Karlar: 3

Konur: 2

Alls:11

Karlar: 5

Konur: 6

 

Fjöldi landsliða meðal 24–32 bestu þjóða heims í hópíþróttagreinum.*

Alls: 2

Karlalið: 1

Kvennalið:1

Alls: 2

Karlalið: 1

Kvennalið: 1

 

Alls: 2

Karlalið: 1

Kvennalið:1

 

*Miðað við stærð íþróttagreinar og útbreiðslu þar sem lágmarksfjöldi þjóða er 40 í undankeppni. (HM,ÓL)

Nýjum mælikvarða hefur verið bætt inn vegna uppbyggingar þjóðarhallar. Stofnað hefur verið félagið Þjóðarhöll ehf. sem leiðir uppbygginguna. Þá hefur nýjum mælikvörðum verið bætt við vegna aðgerða í afreksíþróttum sem innleiddar verða 2025–2029.

18.5 Stjórnsýsla menningar og viðskipta

Stjórnsýsla menningar og viðskipta er á höndum aðalskrifstofu menningar- og viðskipta­ráðuneytisins. Meginverkefni menningar- og viðskiptaráðuneytisins er að stuðla að skilvirkri stjórnsýslu og eftirliti með þeirri starfsemi sem fellur undir ráðuneytið, sbr. starfsemi innan málefnasviða 7, 14, 16, 18, 19 og 22. Áframhaldandi vinna verður á árunum 2025–2029 við að samræma vinnubrögð, úthlutunarreglur, fjármál og ferla sjóða sem ráðuneytið hefur umsýslu með en þeir eru vistaðir á fjórum málefnasviðum og koma markmið þeirra fram á viðkomandi málefnasviðum. Einnig verður áhersla á að styrkja stjórnunar- og eftirlitshlutverk ráðuneytisins með því að efla stefnumótun og áætlanagerð fyrir málefnasvið ráðuneytisins, m.a. á grunni samræmds verklags og samvinnu ráðuneytisins og undirstofnana þess. Auk þess verður unnið að sameiningu stofnana á tímabilinu með það að markmiði að ná hagræði og aukinni skilvirkni.

Áherslur í starfi ráðuneytisins snúa m.a. að því að bæta eftirfylgni með gæðum og afrakstri verkefna og aðgerða innan ráðuneytisins og meðal stofnana þess og samþætta eins og kostur er framkvæmd aðgerða sem varða fleiri en eitt málefnasvið. Áfram verður unnið að mótun og framkvæmd tillagna um einföldun regluverks og verkferla.

[1] Sarpur er menningasögulegt gagnasafn sem starfrækt er sameiginlega af Þjóðminjasafni, Listasafni Íslands, Borgarsögusafni, Árnasafni og tugum annarra safna á menningarsviði.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum