Meðallaun starfsmanna ríkisins

Meðallaun starfsmanna ríkisins

Fjármála- og efnahagsráðuneytið, í samstarfi við heildarsamtök starfsmanna ríkisins, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kjarafélag Tæknifræðingafélags Íslands, Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Stéttarfélag verkfræðinga birtir á vef sínum upplýsingar um laun starfsmanna ríkisins eftir bandalögum og stéttarfélögum. Framsetning upplýsinganna verður í líkingu við þá framsetningu sem var í Fréttariti KOS (Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna) með ákveðnum breytingum sem samkomulag hefur orðið um.

Forsaga

Í kjölfar bókunar með kjarasamningum 2005 var bein starfsemi á vegum KOS lögð af. Annars vegar með því að gerður var samstarfssamningur milli KOS og Hagstofu Íslands sem ætlað er að tryggja samræmi í launarannsóknum á almennum og opinberum vinnumarkaði. Hins vegar gerðu fjármálaráðuneytið og bandalög ríkisstarfsmanna með sér „ Samkomulag um umgjörð upplýsingagjafar frá ríki til heildarsamtaka ríkisstarfsmanna“ . Tilgangurinn með því samkomulagi var að samræma upplýsingagjöf til heildarsamtaka ríkisstarfsmanna og að skapa samráðsvettvang um opinbera birtingu upplýsinga um laun ríkisstarfsmanna. Aðilar hafa komist að samkomulagi um aðferðafræði og reiknireglur vegna opinberrar birtingar og má sjá þær í skýringum hér að neðan. Félög utan bandalaga hafa gert hliðstæð samkomulög við fjármálaráðuneytið um umgjörð upplýsingargjafar.

Talnaefni

Hér fyrir neðan eru skrár með upplýsingum um laun ríkisstarfsmanna eftir stéttarfélögum í heildarsamtökum og stéttarfélögum utan bandalaga. Einungis eru birtar upplýsingar um þá hópa sem hafa að lágmarki 20 stöðugildi í dagvinnu í viðkomandi launatímabili. Upplýsingarnar eru sérgreindar fyrir karla og konur ef sama lágmarksfjölda er náð.

Aðferðafræði og skýringar

Upplýsingarnar sýna meðaltöl launa. Gögnin eru ekki greind frekar og þar af leiðandi er takmarkað hve miklar ályktanir er hægt að draga af upplýsingunum. Meðaltal sýnir aðeins hvar þunginn í launasetningu hvers hóps liggur og launaþróun hans. Meðaltal tekur lítið tillit til einstaklingsbundinna þátta sem hafa áhrif á launamyndun, svo sem menntun, starfsreynslu, stjórnunarskyldur og innihald starfa. Því er hér um óleiðréttan launamun að ræða, það er að ekki er búið að taka tillit til skýribreyta.

Reikniaðferðir sem lagðar eru til grundvallar eru að mestu sambærilegar við þær sem notaðar voru í fréttariti KOS með tveimur mikilvægum undantekningum. Vaktaálag er hér flokkað sérstaklega en ekki með öðrum launum. Þá eru aðeins teknar með í útreikningana þær færslur úr gagnasafni þar sem stöðugildi í dagvinnu (greitt starfshlutfall) er á bilinu 25% til 100%. Tilgangur þess er að forðast óeðlileg áhrif frávika í minni hópum, enda geta óregluleg launauppgjör og frávik í skráningum haft umtalsverð áhrif á meðallaun.

Meðallaun eru fengin með því að deila með fjölda greiddra stöðugilda í samtölu viðkomandi launaflokkunar samanber meðfylgjandi skýringar á flokkun launategunda.

Skilgreiningar á launahugtökum

Stöðugildi

Samtala stöðugilda í dagvinnu þeirra sem eru skráðir í 25-100% starf í hverjum mánuði. Upplýsingar eru ekki birtar ef fjöldi stöðugilda í stéttarfélagi eru færri en 20. Það sama gildir um sundurliðun milli kynja.

Dagvinnulaun

Til dagvinnulauna teljast mánaðarlaun og tímakaup í dagvinnu.

Yfirvinnulaun

Yfirvinnulaun eru greidd fyrir vinnu sem er umfram vinnuskyldu samkvæmt kjara- eða ráðningarsamningi. Einnig önnur laun sem greidd eru með yfirvinnukaupi, með þeirri undantekningu að greiðslur vegna röskunar neysluhléa vaktavinnumanna falla undir önnur laun.

Vaktaálag

Vaktaálag fylgir vinnuskilum dagvinnu og er greitt þegar vinnuskyldu er sinnt utan dagvinnumarka eins og þau eru skilgreind í kjarasamningi. Vaktaálag greiðist til viðbótar mánaðarlaunum eða tímakaupi í dagvinnu. Hér undir falla ekki álagsgreiðslur vegna bakvakta.

Önnur laun

Til annarra launa teljast áður ótalin laun á launatímabili, meðal annars álagsgreiðslur fyrir bakvaktir, skráðar greiðslur vegna röskunar kaffitíma vaktavinnumanna og orlofs- og persónuuppbætur.

Heildarlaun

Samtala ofantalinna launaliða.

Upplýsingar um laun starfsmanna ríkisins taka mið af greiddum launum eins og þau eru skráð í launavinnslukerfi Fjársýslu ríkisins. Allar fjárhæðir eru án launatengdra gjalda.

Samanburður við launarannsókn Hagstofunnar

Hagstofan birtir upplýsingar um laun á almennum vinnumarkaði. Unnið er því á vettvangi Hagstofunnar að birta samræmdar upplýsingar fyrir opinberan markað (ríki og sveitarfélög).

Launahugtök Hagstofunnar eru frábrugðin þeim sem hér eru notaðar við samantekt á meðallaunum á stöðugildi. Einnig birtir Hagstofan upplýsingar um laun eftir störfum, samkvæmt ÍSTARF starfaflokkunarkerfinu, en hér eru þær birtar eftir bandalögum og stéttarfélögum. Upplýsingarnar eru því ekki samanburðarhæfar. Niðurstöður ættu þó í báðum tilvikum að gefa greinargóðar vísbendingar um almenna launasetningu og launaþróun.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Hagstofunnar.