Ríkisaðstoð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með framkvæmd þess hluta EES-samningsins sem fjallar um ríkisaðstoð.

Ráðuneytið ber ábyrgð á öllum tilkynningum til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um fyrirhugaða ríkisaðstoð, sem og ársskýrslum til ESA og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um veitta ríkisaðstoð.

Ráðuneytið veitir almenna ráðgjöf á sviði ríkisaðstoðar og er í forsvari fyrir öll mál á sviði ríkisaðstoðar sem ESA (eða EFTA dómstóllinn) hefur til skoðunar á hverjum tíma og varða íslenska ríkið. Er það óháð því hvort þau mál eru að frumkvæði ESA, íslenskra stjórnvalda eða þriðju aðila.

Einnig fylgist ráðuneytið með þeim gerðum á sviði ríkisaðstoðar sem eru í mótun hjá Evrópusambandinu, er í forsvari fyrir vinnuhópi EFTA um ríkisaðstoð og ber ábyrgð á innleiðingu gerðanna í landsrétt.

Þannig gegnir ráðuneytið samræmingar- og leiðbeiningarhlutverki í málaflokknum en hefur ekki eftirlit með öðrum stjórnvöldum. Þeim stjórnvöldum sem að ráðstöfununum standa ber að taka afstöðu til þess hvort um tilkynningarskylda ríkisaðstoð sé að ræða og útbúa nauðsynlegar upplýsingar vegna samskipta við ESA.