Embættismenn

Lausn frá embætti og önnur starfslok

Um starfslok embættismanna gilda lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (starfsmannalög/stml.). Þar eru ítarleg ákvæði um starfslok embættismanna í 25. gr. og VI. kafla sem ber yfirskriftina lausn frá embætti.

Stjórnvald er skipar/setur mann í embæti veitir og lausn frá því eða ákveður önnur starfslok í samræmi við ákvæði starfsmannalaga nema öðruvísi sé sérstaklega mælt fyrir í lögum. Þetta vald er oftast í höndum ráðherra. Sjá nánar 31. gr. stml.

Embættismaður getur ekki einhliða lokið starfssambandi sínu. Hann þarf að beiðast lausnar frá embætti hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi. Slík beiðni á að vera skrifleg og almennt með þriggja mánaða fyrirvara. Skylt er að veita lausn ef hennar er löglega beiðst. Sjá nánar 37. gr. stml.

Samkvæmt 31. gr. starfsmannalaga skal lausn frá embætti vera skrifleg. Í lausnarbréfinu þarf að koma fram frá hvaða degi embættismaður skuli taka lausn. Þá skal jafnan greina frá orsökum (ástæðum) lausnarinnar. Ástæður lausnar þurfa að vera málefnalegar og í samræmi við 25. gr. starfsmannalaga en þar eru talin upp þau atriði (ástæður) sem kunna að valda starfslokum embættismanna. Gæta þarf að því að strangar málsmeðferðarreglur gilda þegar ástæðan er sú að embættismaður brýtur af sér í starfinu (brot á starfsskyldum) svo að honum beri að víkja úr því. Sjá nánar neðar á síðunni um frávikningu úr embætti.

Setning í embætti fellur úr gildi þegar setningartími viðkomandi embættismanns rennur út. Lausn frá embætti er því óþörf í slíkum tilvikum. Aftur á móti gera lögin ráð fyrir því að embættismanni sem er að nálgast 70 ára hámarksaldur sé veitt lausn frá og með næstu mánaðmótum eftir að hann nær þeim áfanga. Við þær aðstæður er sérstök ástæða til að sýna varfærni og virðingu í hvívetna. Sjá nánar 33. gr. stml. og dreifibréf nr. 7/2001.

Starfssambandi embættismanna er jafnan lokið með lausn frá embætti, þ.e. formlegu lausnarbréfi þar sem fram kemur dagsetning lausnar og ástæður hennar. Þetta er þó ekki algilt og á t.d. ekki við þegar 5 ára skipunartími rennur út, flutning í annað embætti, niðurlagningu embættis eða andlát embættismanns.

Skipun í embætti fellur úr gildi þegar 5 ára skipunartími viðkomandi rennur út, hafi honum hafi verið tilkynnt a.m.k. 6 mánuðum áður að embættið verði auglýst laust til umsóknar. Ákvörðun um að auglýsa embætti þarf að tilkynna skriflega þar sem hnykkt er á því að vegna hennar muni skipunartími viðkomandi renna út á tilteknum degi. Slíkt bréf kemur í stað hefðbundins lausnarbréfs. Sé bréf um fyrirhugaða auglýsingu ekki sent embættismanni framlengist skipunartími hans sjálfkrafa um 5 ár. Í slíkum tilvikum þegar 5 ára skipunartími rennur út, á viðkomandi rétt á launum í tiltekinn tíma eftir starfslok, þ.e. ýmist í 3 eða 6 mánuði. Sjá nánar 23. gr. og 35. gr. stml.

Um flutning embættismanns úr einu embætti í annað er fjallað í 36. gr. starfsmannalaga. Tilflutningur milli embætta felur í sér starfslok/lausn frá eldra embætti. Ákvörðun í þessum efnum ber að tilkynna skriflega með tilvísun í 36. gr. stml. Slíkt bréf kemur í stað hefðbundins lausnarbréfs.

Um niðurlagningu embættis og rétt til biðlauna er fjallað í 34. gr. starfsmannalaga. Niðurlagning embættis felur í sér starfslok/lausn frá embætti. Ákvörðun í þessum efnum ber að tilkynna skriflega. Í sama bréfi er rétt að gera grein fyrir rétti til biðlauna sem er ýmist 6 eða 12 mánuðir. Biðlaunaréttur á þó ekki við hafni viðkomandi sambærilegu starfi, óháð því hvort það er á vegum ríkisins eða annars aðila. Við mat á því hvort starf telst sambærilegt er litið til allra kjaralegra atriða sem og innihalds starfs og stöðu að öðru leyti. Athygli er vakin á því að bréf um niðurlagningu embættis kemur í stað hefðbundins lausnarbréfs. Tilkynningu um niðurlagningu embættis og biðlaunarétt er hægt að orða svo: Niðurlagningarbréf. Frekari upplýsingar um biðlaunarétt eru á vefnum undir spurt og svarað um biðlaun.

Um niðurlagningu embættis og rétt til biðlauna er fjallað í 34. gr. starfsmannalaga. Niðurlagning embættis felur í starfslok/lausn frá embætti. Ákvörðun í þessum efnum ber að tilkynna skriflega með tilvísun í 34. gr. stml. ásamt upplýsingum um biðlaunarétt sem er ýmist 6 eða 12 mánuðir. Slíkt bréf kemur í stað hefðbundins lausnarbréfs. Sjá nánar á vefnum undir spurt og svarað um biðlaun.

Ástæður starfsloka

Það er ljóst að ástæður þess að til starfsloka embættismanna kemur eru af ýmsum toga.

Sá sem skipaður/settur er í embætti gegnir því þar til eitthvert þeirra atriða (ástæðna) kemur til sem talin eru upp í 25. gr. starfsmannalaga. Hér að neðan eru þessa ástæður taldar upp auk andláts og vísað eftir því sem við á til annarra ákvæða í VI. kafla starfsmannalaga:

1. Embættismanni er veitt lausn (31. gr. stml)

- Samkvæmt eigin beiðni, sbr. 37. gr. stml.

- Vegna þess að hann fullnægir ekki lengur skilyrðum 6. gr. stml.

- Vegna þess að hann hefur náð hámarksaldri, sbr. 33. gr. stml.

- Vegna heilsubrests (30. gr. stml.).

2. Tímabundin setning í embætti rennur út (24. gr. stml.).

3. Fimm ára skipunartími endurnýjast ekki (23. gr. stml.).

4. Embætti er lagt niður (34. gr. stml.).

5. Embættismaður er fluttur í annað embætti (36. gr. stml.).

6. Andlát embættismanns.

7. Embættismaður hverfur fyrirvaralaust úr embætti (brotthvarf).

8. Embættismanni er vikið úr embætti vegna brota á starfsskyldum.

- Frávikning í kjölfar lausnar um stundarsakir (2. mgr. 29. gr. stml.).

- Fyrirvaralaus frávikning úr embætti (1. og 3. mgr. 29. gr. stml.).

Frávikning vegna brota á starfsskyldum

Frávikning kallast það þegar ástæða þess að embættismanni er veitt lausn frá embætti er sú að hann hefur brotið af sér í starfi eða brotið gegn starfsskyldum sínum á annan hátt. Sjá nánar 1. tölul. 25. gr. og 29. gr. stml.

Ávallt er nauðsynlegt að gefa embættismanni kost á tjá sig um ástæður fyrirhugaðrar frávikningar áður en endanleg ákvörðun er tekin ef þess nokkur kostur. Sjá nánar 2. mgr. 31. gr. stml. Í þessu sambandi er rétt að líta til málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum varðandi rannsókn máls og eftir atvikum meðalhóf.

Meginreglan er sú að embættismanni verður ekki vikið úr embætti nema honum hafi fyrst verið veitt lausn um stundarsakir og mál hans sent nefnd sérfróðra manna til meðferðar. Sú nefnd er jafnan kölluð nefnd skv. 27. gr. starfsmannalaga. Þegar álitsgerð nefndarinnar liggur fyrir, er endanleg afstaða tekin um frávikningu eða viðkomandi embættismanni falið að taka aftur við embætti sínu., sbr. 2. mgr. 29. gr. stml. Nánari umfjöllun um nefndina og álit hennar er á vefnum undir nefnd skv. 27. gr. stml.

Þegar embættismanni er veitt lausn um stundarsakir þarf að gæta að ströngum málsmeðferðarreglum sem er að finna í 26. gr. starfsmannalaga. Samkvæmt þeim verður embættismanni ekki veitt lausn frá embætti um stundarsakir nema um ítrekað brot á starfsskyldum sé að ræða í kjölfar skriflegrar áminningar, sbr. 2. og 4. mgr. 26. gr. stml. Um undirbúning skriflegrar áminningar, tilkynningu um fyrirhugaða áminningu og áminningarbréfið sjálft er fjallað í dreifibréfi nr. 4/2002.

Skrifleg áminning er ekki alltaf nauðsynlegur undanfari lausnar um stundarsakir. Undantekningartilvikin eru tvenns konar. Í fyrsta lagi þau tilvik þegar embættismaður hefur fjárreiður eða bókhald með höndum og ætla má eða víst þykir að óreiða sé á bókhaldi eða fjárreiðum, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga. Í öðru lagi þau tilvik þegar embættismaður er grunaðar um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Sjá nánar 3. og 4. mgr. 26. gr. stml.

Samkvæmt málsmeðferðarreglum 4. mgr. 26. gr. stml. á embættismaður almennt rétt á að tjá sig um ástæður fyrirhugðrar lausnar frá embætti um stundasakir áður en slík ákvörðun er tekin. Enda þótt ákvæðið kveði ekki á um rétt embættismanns í öllum tilvikum, þykir eftir sem áður rétt að veita embættismanni ávallt tækifæri til að tjá sig sé þess nokkur kostur.

Lausn um stundarsakir skal vera skrifleg með tilgreindum ástæðum. Ef embættismaður óskar, skal rökstyðja ákvörðun um lausn um stundarsakir. Ef annað stjórnvald en ráðherra hefur leyst mann frá embætti um stundarsakir, getur viðkomandi borið hana undir hlutaðeigandi ráðherra. Sjá nánar 4. og 5. mgr. 26. gr. stml.

Meðan á lausn um stundarsakir stendur nýtur viðkomandi helmings af föstum launum sem embætti hans fylgja. Ef honum er falið að taka aftur við embætti sínu, ber að líta svo á að hann hafi gegnt því óslitið og greiða þau laun sem hann var sviptur. Sjá nánar 28. gr. stml.

Í alvarlegum tilfellum skal víkja embættismanni fyrirvaralaust úr embætti, þ.e. án þess að honum hafi fyrst verið veitt lausn um stundarsakir og mál hans sent nefnd skv. 27. gr. stml. til meðferðar. Annars vegar á þetta við ef embættismaður hefur verið sviptur með fullnaðardómi rétti til að gegna embætti sínu, sbr. 1. mgr. 29. gr. stml. Hins vegar á þetta við ef embættismaður játar að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. mgr. 29. gr. stml.

Útgefið efni


Dreifibréf um starfslok embættismanna

Grein úr vefriti fjármálaráðuneytis

Ritröð fjármálaráðuneytis