Lykiltölur um starfsmenn og stofnanir ríkisins

Alþingi samþykkir fjárlög til eins árs í senn og þau kveða m.a. á um hvernig útgjöld ríkisins skiptast á milli verkefna. Útgjöldunum má skipta í þrjá meginflokka eftir eðli verkefnanna, þ.e. framkvæmdir, tilfærslur í almannatryggingakerfinu eða viðvarandi þjónustu- og rekstrarverkefni. Undir síðastnefnda flokkinn falla verkefni ráðuneyta og stofnana svo sem löggæslu, heilsugæslu og sjúkrahús, menntastofnanir, eftirlitsstofnanir og fleira. Nánari fróðleik um starfsemi ríkisins má finna á vefnum ríkiskassinn.is.

Upplýsingarnar eru unnar úr gögnum úr launavinnslukerfi fjársýslu ríkisins. Árið 2007 var launavinnsla stofnana ríkisins í fyrsta sinn sameinuð í eitt launavinnslukerfi, Oracle. Frá þeim tíma eru til samræmdar upplýsingar um heildarfjölda ríkisstarfsmanna, vinnumagn og fleira sem auðveldar samræmda upplýsingagjöf um starfsmannamál ríkisins.

Til að byrja með er stuttlega fjallað um hlut ríkisins í íslenskum vinnumarkaði, fjölda stofnana og starfsmanna ríkisins. Á næstu mánuðum verður bætt við upplýsingum, meðal annars um samningssvið samninganefndar ríkisins, launakostnað og launaþróun hjá ríkinu, vinnutíma og fjarvistir.

Vinnumarkaður á Íslandi

Ríkið er stærsti vinnuveitandi landsins þar sem fjölbreytt og krefjandi störf bjóðast um allt land. Starfsmenn ríkisins eru að jafnaði um 21 þúsund talsins en stöðugildi eru töluvert færri þar sem margir eru í hlutastörfum.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar starfa tæplega 175 þúsund manns á ársgrundvelli á íslenskum vinnumarkaði og eru ríkisstarfsmenn því um 12% starfandi í landinu.

Hið opinbera – ríki og sveitarfélög

Vinnumarkaðinum er gjarnan skipt í tvennt, í almennan og opinberan vinnumarkað. Á almennum vinnumarkaði eru starfsmenn einkafyrirtækja en á opinberum vinnumarkaði sem eru starfsmenn ríkis, sveitarfélaga og sjálfseignarstofnana ýmissa. Mismunandi lög og reglur gilda að mörgu leyti um almennan og opinberan vinnumarkað og að sama skapi eru kjarasamningar og launaákvarðanir ólíkar milli markaða og ríkis og sveitarfélaga einnig.

Í daglegu tali um vinnumarkaðsmál er ríkið oft lagt að jöfnu við opinberan vinnumarkað, en mikilvægt er að hafa í huga að opinber vinnumarkaður er tví- eða þrískiptur og ríkið aðeins hluti „hins opinbera“.

Stofnanir ríkisins

Stofnanir ríkisins eru rúmlega 200 talsins en þá eru ekki talin opinber hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða lögaðilar sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins.  Flestar ríkisstofnanir heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti. Stofnanir eru fjölbreyttar að stærð en hjá tæpum helmingi þeirra starfa færri en 20 starfsmenn. Langfjölmennasti vinnustaðurinn er Landspítalinn þar sem starfa tæplega 6.000 manns.

Starfsmenn ríkisins

Töluverðar sveiflur eru í starfsmannafjölda hjá ríkinu yfir heilt ár. Þannig fjölgar starfsmönnum yfir sumarmánuðina vegna afleysinga en færri eru við störf yfir vetrarmánuðina. Að meðaltali voru 21.202 starfsmenn hjá ríkinu árið 2014. Fjöldi ársverka er nokkuð færri þar sem margir eru í hlutastörfum, en ársverkin árið 2013 voru 16.594.

Konur eru 64% ríkisstarfsmanna eða næstum því tveir af hverjum þremur starfsmönnum. Vinnuframlag kvenna er hins vegar nokkru minna hlutfallslega þar sem þær eru líklegri til að vinna hlutastarf en karlar.

Kjarasamningsumhverfi ríkisins

Fjármálaráðherra fer með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð kjarasamninga við starfsmenn ríkisins. Hann skipar samninganefnd til að annast samningagerð fyrir sína hönd og starfar hún í nánum tengslum við starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis.

Í kjarasamningi er samið um launatöflur, vinnutíma, laun fyrir yfirvinnu, orlof, rétt til launa í veikindum og fleira. Kjarasamningar skulu vera skriflegir og í þeim skal kveðið á um lengd samningstímans. Kjarasamningur gildir frá undirskrift samningsins nema um annan gildistíma hafi verið samið og hann ekki verið felldur við atkvæðagreiðslu félagsmanna.

Áður fyrr var samið um launasetningu starfa í kjarasamningum en í lok liðinnar aldar var horfið frá miðlægri ákvörðun launa og hún færð til stofnana með stofnanasamningum. Í stofnanasamningum, sem gerðir eru milli stofnunar og stéttarfélags, er fjallað um útfærslu tiltekinna þátta kjarasamningsins og taka þeir nánari mið af þörfum stofnunar og starfsmanna en miðlægur kjarasamningur bauð upp á.

Fjöldi kjarasamninga sem fjármálaráðherra gerir ræðst meðal annars af samstöðu stéttarfélaga innan bandalaga. Á samningstímabilinu sem lauk árið 2008 gerði samninganefnd ríkisins 31 kjarasamning við 126 stéttarfélög. Til samanburðar gerði samninganefndin 42 kjarasamninga við 116 stéttarfélög á samningstímabilinu 2004−2008. Á samningstímabilinu 2000−2004 gerði nefndin mun fleiri samninga eða 77 við 136 stéttarfélög. Fækkun samninga er jákvæð þróun sem ræðst af því að stéttarfélög hafa sameinast og önnur hafa samflot um samningsgerðina.

Ríkið gerir kjarasamninga við stéttarfélög opinberra starfsmanna sem starfa á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986. Samkvæmt lögum hafa stéttarfélög umboð til að semja um kaup og kjör félagsmanna sinna, en félögin geta einnig framselt samningsumboð sitt til heildarsamtaka eða bandalags. Flest stéttarfélög tilheyra bandalögum en þau fjölmennustu eru Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Bandalag háskólamanna (BHM) og Kennarasamband Íslands (KÍ). Nokkur stéttarfélög standa utan bandalaga, til dæmis Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Læknafélag Íslands.BSRB eru stærstu samtök opinberra starfsmanna en aðildarfélög bandalagsins eru 26 og fjöldi félagsmanna um 22.000, þar af um 5.500 hjá ríkinu. Í BHM eru 26 stéttarfélög og eru flest þeirra svokölluð fagstéttarfélög. Um 4.900 starfsmenn ríkisins eru í BHM. Kjarasamningur ríkisins við Kennarasamband Íslands nær til tæplega 1.400 kennara og skólastjórnenda í framhaldsskólum.

Ríkið gerir einnig kjarasamninga við stéttarfélög sem starfa á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Flest þeirra eru í Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) sem eru stærstu heildarsamtök launafólks á Íslandi. Félagsmenn ASÍ eru ríflega 98.000 í 5 landssamböndum og 51 aðildarfélögum en hjá ríkinu starfa um 1.000 félagsmenn aðildarfélaga ASÍ.

Vegna stöðu sinna og starfa eru laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, ráðherra, dómara, presta, forstöðumanna ríkisstofnana og skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu einhliða ákveðin af Kjararáði, sem starfar skv. lögum nr. 47/2006. Úrskurðir Kjararáðs jafngilda kjarasamningum og heyra starfskjör tæplega 600 einstaklinga undir ráðið.