Einelti á vinnustað

Einelti er alvarlegt vandamál á vinnustöðum sem stjórnendum ber að taka á. Afleiðingar þess eru ekki aðeins slæmar fyrir þolendurna heldur einnig fyrir rekstur stofnana eða fyrirtækja. Einelti getur haft margvísleg neikvæð áhrif á líðan starfsmanna, starfsánægju, metnað, fjarvistir og félagslegt starfsumhverfi. Það getur því valdið vinnuveitanda miklu fjárhagslegu tjóni.

Hvað er einelti á vinnustað?

Til eru ýmsar skilgreiningar á einelti sem allar eiga þó sameiginlegt að vísa til neikvæðrar hegðunar sem beinist að ákveðnum aðila eða aðilum á vinnustað. Í reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum, nr. 1000/2004, er einelti skilgreint þannig:

Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda sé skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur hvorki viðvarandi eða endurtekinn kerfisbundið.

Einelti á vinnustöðum ríkisins

Rannsóknir annars staðar á Norðurlöndum og í Bretlandi gefa til kynna að almennt verði 3-10% starfsmanna fyrir einelti á vinnustað. Tíðni þessi getur þó verið mismunandi eftir atvinnugreinum. Það virðist t.d. vera með hærra móti á heilbrigðis­stofnunum og ýmiss konar opinberri starfsemi. Í rannsókn meðal starfsfólks íslenskra fjármálastofnana árið 2002 kom fram að um 8% aðspurðra töldu sig vera þolendur eineltis.

Í starfsumhverfiskönnun haustið 2006 voru ríkisstarfsmenn spurðir hvort þeir hefðu orðið fyrir einelti og/eða kynferðislegri áreitni á núverandi vinnustað. Tæp 17% töldu sig hafa orðið fyrir einelti, þar af 10% oftar en einu sinni, og eru það hærri tölur en gera mátti ráð fyrir út frá almennum viðmiðunartölum (sjá bls. 56 í skýrslunni). Ekki mældist mikill munur milli kynja en hlutfall þeirra sem orðið höfðu fyrir einelti lækkaði heldur með hækkandi aldri.

Í könnuninni var ekki spurt um hvenær eineltið átti sér stað né hverjir væru gerendur. Því vakna spurningar eins og: „Í hve miklum mæli eru gerendur eineltis yfirmenn?“, „Hvort eru gerendurnir samstarfsmenn eða viðskiptavinir?“ og „Er stutt eða langt síðan eineltið átti sér stað?“. Ætla má að einelti hefði mælst lægra ef spurningin hefði aðeins náð til síðustu 12 mánuða en ekki ótilgreinds tíma. Til viðmiðunar sýna niðurstöðurnar að einelti meðal starfsmanna með eins árs starfsaldur eða minna er 6,1% en 14% meðal starfsmanna með eins til fimm ára starfsaldur. Þótt tíðni eineltis meðal þessara hópa sé lægri en hjá heildinni er hún samt sem áður ólíðandi há.

Nánari umfjöllun um niðurstöður könnunarinnar hvað varðar einelti á vinnustað er í Fréttabréfi stjórnenda ríkisstofnana frá september 2007.

Lagaumhverfi


  1. Fyrsti liður slíkrar áætlunar er áhættumat, kerfisbundin athugun á vinnuaðstæðum til þess að kanna hvort eitthvað í vinnuumhverfinu, vinnuskipulaginu eða við framkvæmd vinnunnar geti hugsanlega leitt til andlegs eða líkamlegs tjóns, þar á meðal eineltis.
  2. Að því búnu skal sett áætlun um heilsuvernd og forvarnir þar sem tilgreindar eru fyrirhugaðar úrbætur í samræmi við niðurstöður áhættumatsins.
  3. Loks skal þess gætt að eftirfylgni sé tryggð og áætlunin endurskoðuð reglulega.

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd áhættumats og reglugerðar um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Það hefur gefið út ýmiss konar leiðbeiningar og haldið námskeið um forvarnaáætlanir og áhættumat og um einelti og viðbrögð við því.

Hvernig eiga ríkisstofnanir að fyrirbyggja einelti?

Hverri stofnun ber að móta stefnu og setja verklagsreglur um forvarnir og viðbrögð gegn einelti og kynferðislegri áreitni og fella t.d. inn í starfsmannastefnu sína eða jafnréttisáætlun. Stefna vinnustaðar ætti að innihalda:

  • Skilgreiningu á hugtakinu einelti á vinnustað
  • Dæmi um birtingarform eineltis
  • Stefnuyfirlýsingu stofnunar um afstöðu til eineltis á vinnustað
  • Fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir
  • Upplýsingar um hvert starfsmenn geta leitað telji þeir sig verða fyrir einelti
  • Upplýsingar um hvert starfsmenn geta leitað verði þeir vitni að einelti
  • Viðbragðsáætlun (verklagsreglur) vinnustaðar, þ.e. fyrirfram skilgreindar aðgerðir gegn einelti

Til að stefna stofnunar og verklagsreglur þjóni tilgangi sínum þurfa þær að vera kunnar öllum starfsmönnum. Hvetja ætti til opinskárra umræðna á vinnustaðnum um efni þeirra og e.t.v. veita almenna fræðslu um eineltismál, t.d. með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa. Þannig ætti öllum að vera ljóst að einelti líðst ekki á vinnustaðnum, að tilkynningar um slíkt verði litnar alvarlegum augum og að tekið verði á þeim eftir markvissum leiðum. Það er hlutverk stjórnenda að ganga á undan með góðu fordæmi, leysa ágreiningsmál og vanda alla stjórnunarhætti svo sem fyrr er getið.

Hvernig eiga ríkisstofnanir að taka á einelti?

Taka ber allar tilkynningar um einelti alvarlega og bregðast skjótt við, hlusta á sjónarmið allra aðila og gæta trúnaðar og tillitssemi, deila upplýsingum með öðrum starfsmönnum ef þess gerist þörf en álykta aðeins um tilvikið eða grípa til ráðstafana að vel athuguðu máli. Fylgja ber leiðbeiningum og áætlunum sem liggja fyrir.

Stjórnendur ríkisstofnana hafa ríkar skyldur varðandi málsmeðferð, sbr. viðmið um góða starfshætti ríkisstarfsmanna. Flókið lagaumhverfi má þó ekki verða til þess að þeim fallist hendur og er engin afsökun fyrir því að taka ekki á eineltismálum.

Viðbrögð við kvörtun um einelti þar sem meintur gerandi er forstöðumaður stofnunar

Almennt er það hlutverk forstöðumanns ríkisstofnunar að taka á kvörtun um einelti. Í þeim tilfellum þar sem meintur gerandi er forstöðumaður, ber ráðuneyti að grípa inn í og gera nauðsynlegar ráðstafanir á grundvelli vinnuveitandahlutverks síns. Fjármálaráðuneytið hefur unnið verklagsreglur fyrir ráðuneyti og stofnanir til að fara eftir þegar upp koma eineltistilfelli þar sem meintur gerandi er æðsti stjórnandi stofnunar.

Fyrirmyndarvinnustaður

Á fyrirmyndarvinnustað er upplýsingaflæði í hávegum haft og rík áhersla lögð á góð samskipti. Þar er ólíkum einstaklingum sýnt umburðarlyndi og fordómar ekki liðnir. Tekið er á vandamálum sem upp koma, þ.m.t. ágreiningi, einelti og kynferðislegri áreitni. Viðbrögðin eru markviss og leitað lausna í stað þess að grafa slík mál í þögn.

Góðir stjórnendur hafa afgerandi áhrif á vinnustaðarmenningu. Þeir gera starfsmönnum ljóst til hvers er ætlast af þeim, setja skýr markmið og deila ábyrgð. Þeir sjá líka til þess að vinnuálag sé hæfilegt og veita starfsmönnum tækifæri til að hafa áhrif á starf sitt og starfsumhverfi.

Líkur á einelti aukast ef stofnun stendur andspænis erfiðleikum eða einhvers konar breytingum, taka á upp nýja tækni, breyta vinnuskipulagi og verkháttum, draga þarf saman seglin og jafnvel segja fólki upp. Þá skiptir jákvæð og kraftmikil vinnustaðarmenning, styrk stjórn og góður undirbúningur sköpum.

Vefsíður

Bæklingar

Kannanir

Fyrrihluta ársins 2008 var gerð könnun til að meta tíðni eineltis innan ríkisstofnana á vegum fjármálaráðuneytisins. Tilgangur þeirrar könnunar var meta árangur fræðslu vegna eineltis auk þess sem spurt var með nákvæmari hætti en gert var í starfsumhverfiskönnun ríkisstarfsmanna frá árinu 2006 um tildrög og birtingarmynd eineltis.

Seinnihluta ársins 2010 var að öðru sinni lögð fyrir könnun til að meta tíðni eineltis innan ríkisstofnana á vegum fjármálaráðuneytisins. Könnunin  er sambærileg  könnuninni  frá  árinu  2008.  Spurningar voru þær sömu og þannig fæst nákvæmur samanburður á tíðni og þróun eineltis meðal ríkisstarfsmanna á  tímabilinu.


Fréttabréf

Ítarefni

Í nóvember 2007 héldu starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins og Félag forstöðumanna ríkisstofnana sérstakan fund ætlaðan forstöðumönnum, þar sem fjallað var um einelti á vinnustöðum og hvað er til ráða ef slík mál koma upp. Erindi fyrirlesara eru aðgengileg hér fyrir neðan.