Starfsmannastefna

Starfsmannastefna ríkisins er hvergi sett fram heildstæð. Því veldur bæði að vinnuveitandahlutverkið er skipt og að stefnan á sér margar stoðir. Miðlæg stefna ríkisins birtist þannig í lögum, reglum og stefnu ríkisstjórnarinnar að ógleymdum kjarasamningum. Hvert ráðuneyti hefur einnig áhrif á starfsmannastefnu stofnana sinna með ýmsum hætti. Þá gerir dreifstýringarstefnan og ýmis lagaákvæði um tiltekin atriði hverri stofnun nauðsynlegt og skylt að móta sér starfsmannastefnu til fyllingar miðlægum stefnumiðum í samræmi við markmið sín.

Miðlæg starfsmannastefna

Miðlæg starfsmannastefna ríkisins birtist í hinum ýmsu lögum, sem sett hafa verið um málefni starfsmanna ríkisins, svo sem lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kjarasamningar innihalda einnig mörg ákvæði sem eru hluti miðlægrar starfsmannastefnu. Stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisrekstrinum hefur verið sett fram undir nafninu ,,Nýskipan í ríkisrekstri" og gefin út í bæklingum fjármálaráðuneytisins 1993 og aftur 1996, auk t.d. stefnu í jafnréttismálum, bæklingur fjármálaráðuneytisins 1996. Þessi stefna er uppspretta núverandi starfsmannastefnu ríkisins og hefur lögum, er varða starfsmenn, flestum verið breytt til samræmis við hana og kjarasamningar við stéttarfélög hafa mótast af inntaki hennar.

Áhrif einstakra ráðuneyta

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með málefni starfsmanna ríkisins skv. lögum um Stjórnarráð Íslands en velferðarráðuneytið fer með vinnumarkaðsmál og hefur þannig einnig mikil áhrif. Hvert ráðuneyti fer hins vegar með lög um þau málefni sem undir þau heyra og hefur það hlutverk að framfylgja þeim. Til dæmis um þessi áhrif einstakra ráðuneyta á starfsmannastefnu má nefna að skv. lögum setur menntamálaráðherra reglugerð um starfslið skóla og heilbrigðisráðherra reglugerð um starfslið sjúkrahúsa. Hver ráðherra setur forstöðumönnum sínum erindisbréf.

Starfsmannastefna stofnana

Stofnanir hafa lagaskyldu til að gera jafnréttisáætlanir en er annars ekki skylt að setja fram sérstaka starfsmannastefnu. Nútímamannauðsstjórnun og stjórnsýslustefna ríkisins, sem miðast við að hver stofnun setji sér þjónustu- og rekstrarmarkmið, gerir þó hverri stofnun nauðsynlegt að móta sér eigin starfsmannastefnu sem sé vel kynnt og skýr. Ákvæði kjarasamninga gera framsetningu slíkrar stefnu einnig óumflýjanlega. Fjármála- og efnahagsráðuneytið setur hins vegar ekki fram fyrirmyndir að starfsmannastefnu stofnana.