Fjársýsla ríkisins

Erindisbréf fjársýslustjóra skv. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Fjársýslustjóri veitir Fjársýslu ríkisins forstöðu og er skipaður af fjármálaráðherra til fimm ára í senn og ber ábyrgð gagnvart honum. Fjársýslustjóra ber að framfylgja lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem um stofnunina gilda og ber að öðru leiti að starfa samkvæmt stefnu fjármálaráðherra hverju sinni og stýra starfi stofnunarinnar í samræmi við erindisbréf þetta.

Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, ásamt síðari breytingum. Fjársýslustjóri skal í embættissýslan sinni einnig fara eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993, og öðrum lögum og reglum sem snerta kunna stofnunina eða einstök verkefni hennar eftir því sem við getur átt.

Hlutverk Fjársýslu ríkisins er að samræma reikningsskil ríkisaðila og tryggja tímanlegar og áreiðanlegar upplýsingar um fjármál ríkisins. Einnig stuðla að öruggri og skilvirkri greiðslumiðlun fyrir ríkissjóð.

Helstu verkefni eru:

  1. Gerð og framsetning uppgjöra fyrir ríkissjóð.
  2. Samræming og gerð verklagsreglna fyrir bókhald og reikningsskil ríkisins.
  3. Rekstur upplýsingakerfa og þróun og ráðgjöf er tengist notkun þeirra.
  4. Ráðgjöf og kennsla fyrir ríkisaðila um bókhald, reikningsskil, innheimtu og launaafgreiðslu. Einnig ráðgjöf um nýtingu fjárhagsupplýsinga við fjármálastjórn.
  5. Eftirfylgni með því að bókhald stofnana sé uppfært reglulega og um tilhögun innra eftirlits.
  6. Færsla fjárhags- og launabókhalds fyrir ríkisstofnanir eftir því sem hagkvæmt þykir.
  7. Móttaka innheimtufjár og annast greiðslur fyrir ríkissjóð.
  8. Umsjón með innheimtugagnavinnslum ríkissjóðs.

Fjársýslustjóri vinnur að gerð langtímaáætlunar á grundvelli árangursstjórnunarsamnings við fjármálaráðuneytið þar sem meginmarkmið stofnunarinnar eru nánar útfærð og skilgreind. Áætlunina má endurskoða eftir þörfum.

Í desembermánuði ár hvert skal fjársýslustjóri skila ráðuneytinu ársáætlun fyrir næsta ár sem innihaldi bæði rekstraráætlun og tiltekin markmið og mælikvarða innan ársins á grundvelli langtímaáætlunar. Í mars ár hvert skilar stofnunin ársskýrslu til ráðuneytisins sem gerir grein fyrir árangri í starfsemi stofnunarinnar undanfarið ár með samanburði við þau markmið sem birt eru í ársáætluninni ásamt uppgjöri.

Fjármálaráðuneytið tekur afstöðu til þeirrar markmiðssetningar, forgangsröðunar og mælikvarða sem fram koma í áætlunum stofnunarinnar og kemur sjónarmiðum ráðuneytisins á framfæri vegna þess. Jafnframt heldur það fundi með Fjársýslustjóra ár hvert í kjölfar þess að stofnunin skilar ársskýrslu þar sem árangur ársins á undan er ræddur og langtímaáætlun stofnunarinnar skoðuð í því ljósi.

Fjársýslustjóri ber ábyrgð á því að rekstur stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og langtímaáætlun hennar og að fjármunir séu nýttir á sem árangursríkastan hátt.

Erindisbréf þetta gildir þar til fjármálaráðherra ákveður annað. Fjársýslustjóri getur óskað eftir endurskoðun á erindisbréfi þessu.

Fjármálaráðuneytinu 4. janúar 2005