Sagan

- Ágrip af sögu fjármálaráðuneytisins og Stjórnarráðs Íslands

Þegar Ísland fékk heimastjórn árið 1904 tók stjórnarráð til starfa í Reykjavík og tók það yfir þau störf sem íslenska ráðuneytið í Kaupmannahöfn hafði haft til meðferðar, ásamt stærstum hluta þeirra starfa sem landshöfðingi, amtmenn, stiftsyfirvöld og amtsráð höfðu sinnt (Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, Reykjavík; Sögufélagið, 1969).Mynd eftir Sigurhans E. Vigni

Í fyrstu var stjórnarráðinu skipt í þrjár skrifstofur einnig oft nefndar deildir og var einn skrifstofustjóri yfir hverri skrifstofu en þær voru:

  1. skrifstofa (kennslumála- og dómsmáladeild),
  2. skrifstofa (atvinnu- og samgöngumáladeild) og
  3. skrifstofa (fjármála- og endurskoðunardeild).

Ráðherra var einungis einn í fyrstu og hafði hann landritara sér til aðstoðar, en hann var nokkurs konar yfirskrifstofustjóri stjórnarráðsins, gekk næstur ráðherra og var staðgengill hans.

Árið 1917 urðu þær breytingar á að stjórnarráðið hætti að vera ein heildarstofnun með því að ráðherrarnir urðu þrír og fékk hver ráðherra sitt afmarkaða verksvið eða deild. Sama ár var embætti landritara lagt niður og urðu skrifstofustjórar hvers ráðuneytis þá næstir ráðherra. Árið 1922 var heiti deildanna formlega breytt í ráðuneyti og hefur það heiti haldist síðan.

Þessi skipan hélst formlega í nær 50 ár. Á þeim tíma áttu sér stað miklar breytingar á stjórnarráðinu við sundurgreiningu hinna gömlu ráðuneyta og stofnun og útþenslu nýrra.

Undirbúningur löggjafar fyrir stjórnarráðið stóð í rúman áratug og lauk með samþykkt laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969 en þau tóku gildi hinn 1. janúar 1970. Upphaflega voru ráðuneytin þrettán þ.e. forsætisráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Hagstofa Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, menntamálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, utanríkisráðuneyti og viðskiptaráðuneyti. Eitt ráðuneyti bættist við árið 1990 þegar samþykkt voru lög um sérstakt umhverfisráðuneyti. Jafnframt var lögfest ákvæði um að hvorki mætti stofna nýtt ráðuneyti né leggja niður nema með lögum og að ekki megi skipta verkefnum ráðuneytis á milli ráðherra.

Fjármálaráðuneytið er eitt af átta ráðuneytum sem saman mynda Stjórnarráð Íslands. Við gildistöku laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, féllu þrjár stjórnardeildir undir ábyrgð fjármálaráðherra þ.e. hið almenna ráðuneyti, ríkisendurskoðun og fjárlaga- og hagsýslustofnun. Árið 1986 var ríkisendurskoðun færð undir Alþingi, 1991 var fjárlaga- og hagsýslustofnun sameinuð hinu almenna ráðuneyti og 1998 var launadeild starfsmannaskrifstofu færð til Ríkisbókhalds.

Þann 1. september 2012 var fjármálaráðuneytinu breytt í fjármála- og efnahagsráðuneyti.