Hoppa yfir valmynd
22. september 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 22. september 2016

Talað orð gildir

Kæru ráðstefnugestir!

Það er ánægjulegt að fá að koma hingað á ykkar fund - og í þriðja sinn sem ég kem hingað sem fjármála- og efnahagsráðherra og er þess heiðurs aðnjótandi að fá að segja hér nokkur orð. Og það er kærkomið að fá tækifæri til þess að ræða það sem hefur áunnist í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Verkefni ykkar sveitarstjórnarfólks eru mikilvæg og tengsl við íbúa í hverju byggðalagi náin enda viðfangsefnin og þjónustan sem sveitarfélög veita þess eðlis.

Gott samstarf og hreinskiptin samskipti milli kjörinna fulltrúa frá hverju byggðalagi annars vegar og fulltrúa ríkisvaldsins hins vegar eru því mikilvæg við úrlausn ýmissa þjóðmála og almenna hagstjórn.

Í grunninn hef ég enn sömu sjónarmið og fyrr um samskipti ríkis og sveitarfélaga. En mikið hefur áunnist á undanförnum árum og ég ætla að nota þetta tækifæri hér til að reifa nokkur helstu atriði sem þar hafa komið við sögu og þá sérstaklega með áherslu á fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Fyrst vil ég nefna árangur á sviði opinberra fjármála. Á undanförnum árum hefur náðst mikill árangur á því sviði. Saman hafa farið öflugur hagvöxtur, bætt afkoma hins opinbera og markviss vinna við treysta lagalegan ramma opinberra fjármála.

Efnahagslífið stendur nú traustum fótum og hagvöxtur er öflugur. Þrátt fyrir hraðan vöxt í efnahagslífinu er verðbólga er lág og skuldir þjóðarbúsins fara lækkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Ný lög um opinber fjármál mynda heildstæða umgjörð um þróun opinberra fjármála og marka þáttaskil í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Með þessu aukna samstarfi ríkis og sveitarfélaga er tryggð heildarsýn yfir opinber fjármál og forsendur skapaðar til að beita þeim úrræðum sem best eiga við hverju sinni til að samhæfa fjármálastefnu opinberra aðila og bæta opinbera hagstjórn. Þetta er eitt af þeim atriðum sem við vorum sammála um eftir fall bankanna, eftir þær miklu sveiflur sem urðu í efnahagslífi okkar, að við þyrftum að taka til skoðunar - við þyrftum að gera betur og að það þyrfti að samhæfa betur áherslur ríkis og sveitarfélaga.

Fyrst ber hér að nefna fjármálaáætlunina. Hún er lykilþáttur í nýju lögunum. Samkvæmt þeim leggur fjármálaráðherra fram árlega tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til fimm ára og var fyrsta ætlunin lögð fram síðastliðið vor. Með henni er mörkuð heildstæð stefna fyrir þróun fjármála ríkis og sveitarfélaga.

Gert er ráð fyrir því að árleg heildarafkoma hins opinbera verði á tímabili áætlunarinnar jákvæð um sem nemur 1% af vergri landsframleiðslu. Að mestu er sá jákvæði afgangur borinn uppi af ríkinu en áfram er búist við því á næstu árum að heildarafkoma sveitarfélaga verði í járnum. Þessi afkoma skapar engu að síður tækifæri til enn frekari lækkunar skulda en einnig til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar og styrkja opinbera þjónustu.

Þáttur sveitarfélaga í fjármálaáætluninni byggir á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga, eins og formaður hefur hér nýlega komið inn á, en þar er fjallað um markmið um afkomu og efnahag sveitarfélaga sem og ríkisins.

Með samkomulaginu setja ríki og sveitarfélög sér sameiginleg markmið um þróun opinberra fjármála og afkomu hins opinbera. Þá er í samkomulaginu fallað um margvísleg sameiginleg verkefni sem snúa að tekjustofnum og útgjaldaþróun.

Mér finnst þetta skipta gríðarlega miklu máli. Þetta er ekki bara formsatriði. Þetta er ekki bara lagarammi sem er tómur og við þiggjum eins og vélmenni bara til þess að hafa fyllt út í kassann. Þetta er stórmál og á að breyta verklagi og allri hugsun. Einn bæjarstjóri sagði við mig um árið að það að við skyldum setja fjármálareglu fyrir sveitarfélögin, líkt og ríkið er búið að gera núna, hafi haft áhrif á allan hugsunarhátt á sveitarstjórnarstiginu. Það var ekki bara formsatriði heldur er nú vísað til reglunnar. Með sama hætti vonast ég til þess að menn byggi á samkomulaginu og vísi til þess til þess að setja sér markmið inn í framtíðina.

Það er mikilvægt að ríki og sveitarfélög móti sér sameiginlega sýn á helstu viðfangsefni opinberra fjármála til lengri tíma og lyfti sér upp fyrir smærri viðfangsefni sem gjarnan taka mikla orku frá degi til dags. Þannig verður að horfa heildstætt til þróunar tekna og útgjalda helstu málaflokka.

Mig langar til þess að hnykkja sérstaklega á einu: Þetta er ekki einhliða loforð sveitarstjórna gagnvart ríkinu. Í samskiptum ríkis og sveitarfélaga finnst mér um of litið þannig á að ríkið geti á grundvelli laga eða samkomulags af þessum toga komið til sveitarstjórnarstigsins og sagt að nú verði það að skila sínu. Þetta er tvíhliða samkomulag. Hvers vegna minni ég á þetta? Það er vegna þess, meðal annars, að nú eru framundan kosningar. Við erum að rísa upp úr öldudalnum. Það flæða fram alls konar hugmyndir um ný útgjaldatilefni ríkisins. Hafið þá í huga góða sveitarstjórnarfólk að eftir því sem að ríkisvaldið ætlar sér meira svigrúm til nýrra útgjalda án þess að tekið sé tillit til þess samkomulags sem gildir milli ríkis og sveitarfélaga, þeim mun meira verður gengið á svigrúm sveitarfélaga til þess að láta til sín taka ef ná á markmiðum um heildarafkomu hins opinbera samkvæmt áætlunum. Þetta skiptir máli í því samhengi til dæmis að í aðdraganda hrunsins þá vorum við sammála um að það hefði skort á samhæfingu milli þessara tveggja stiga.

Formaðurinn ykkar kom hér inn á nýtt samkomulag vegna lífeyrismála. En það má segja að ramminn um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga veiti tækifæri til þess að nálgast slík verkefni með nýjum hætti. Með þessum samningi hefur ríkisvaldið tekið að sér að fjármagna verulegan hluta af kostnaði sveitarfélaga vegna breytinga á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Við gerðum það ekki bara til þess að þið þurfið ekki að hlusta á Karl Björnsson útskýra þessi mál aftur og aftur, eins og formaðurinn kom hér inn á áðan. Við gerðum þetta vegna þess að það er einfaldlega skynsamlegast í ljósi aðstæðna, í ljósi heildarmats á stöðu og afkomu ríkis og sveitarfélaga, að ríkið taki að sér að fjármagna þennan þátt málsins. Það er rétt niðurstaða. Með farsælli niðurstöðu í lífeyrismálinu er gefinn tónninn varðandi þær áherslur sem ríkið leggur í fjárhagslegum samskiptum á næstu árum. Það verður að horfa til stærri þátta sem hafa áhrif á afkomu sveitarfélaga sameiginlega og forgangsraðað með réttum hætti hverju sinni. Þannig getum við sameiginlega stuðað að farsælli stjórn opinberra fjármála.

Mig langar líka til þess að minnast stuttlega á samkomulag um gerð rammasamnings til þriggja ára um þjónustu og rekstur hjúkrunarheimila sem rekin eru á daggjöldum. Á grundvelli þess samkomulags lögðum við í gær fram fjáraukalagafrumvarp þar sem við leggjum einn og hálfan milljarð króna inn í þennan málaflokk til viðbótar, til þess að styrkja daggjaldagrunninn. Við höfum sömuleiðis gengið frá bókun um meðferð lífeyrisskuldbindinga. Ég vonast til þess að við getum á grundvelli þessa samkomulags um rammasamninga gengið í framhaldinu frá þjónustusamningum og fengið farsæla lúkningu á áralangt samtal um meðferð lífeyrisskuldbindinga á þessum sviðum – þ.e. hjúkrunarheimili á daggjaldagrunni. Þetta er stórt skref og mikill áfangi og ég gleðst yfir því að við skyldum hafa náð á sumarmánuðum að ljúka því samtali og undirrita þetta samkomulag nú fyrr í þessum mánuði.

Góðir ráðstefnugestir. Nokkur orð um tekjustofna sveitarfélaga. Vinna hefur staðið yfir undanfarin misseri við að greina ýmis atriði er varða bæði tekjur og útgjöld sveitarfélaganna.Upphaflega var sú vinna í tengslum við beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga um nýja tekjustofna til handa sveitarfélögunum en eftir að samkomulag við sveitarfélögin var gert á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál hafa þessi mál verið hugsuð meira í þann farveg.

Vinna ráðuneytisins hefur verið kynnt í reglubundnu samráði milli ríkis og sveitarfélaga, s.k. Jónsmessunefnd.

Sú greiningarvinna sem farið hefur fram hefur leitt í ljós hversu mjög fjárhagsleg staða sveitarfélaganna er mismunandi, að því er varðar tekjur og gjöld, afkomu og eignastöðu.

Umfjöllun um fjárhag sveitarfélaganna hefur beinst mjög að afkomu þeirra og þá einkum að þeim sveitarfélögum sem eru illa stödd. Því hafa málefni annarra sveitarfélaga kannski fallið nokkuð í skuggann.

Bæði ríki og sveitarfélög urðu fyrir miklu tekjufalli í hruninu en síðan þá hafa tekjurnar vaxið nokkurn veginn í takt þegar tekið er tillit til þess að verkefna- og tekjuskipting hefur orðið á undanförnum árum m.a. með flutningi á málefnum fatlaðra.

Áfram verður unnið að mati á tekjustofnum á grundvelli samkomulags ríkis og sveitarfélaga. Í því efni er brýnt að mótuð séu viðmið um það hvaða tekjustofnar henti sveitarfélögum best. Ef þörf er talin á að hækka tekjur sveitarfélaga ætti að vera hægt að gera það án nýrra tekjustofna. Við skulum ekki útiloka að við komumst að niðurstöðu um einhverja slíka þætti, til dæmis með vísan til þess sem rakið var hér í inngangserindi. Ég lýsi mig fyllilega reiðubúinn til þess að skoða alla kosti í þeim efnum.

Æskilegt er út frá sjónarmiðum um einfaldleika og hagkvæmni að sveitarfélög hafi fáa og skýrt afmarkaða tekjustofna. Þeir ættu að vera tiltölulega stöðugir þannig að áhrif hagsveiflunnar á þá séu takmörkuð, enda er ríkissjóður í mun betri aðstöðu til að takast á við sveiflur í afkomu en sveitarfélögin.

Við val á tekjustofnum þarf að horfa til langs tíma og ekki til þess hvaða stofnar eru sterkir hverju sinni. Þá er æskilegt að það sé ákveðið samhengi milli þróunar tekna og samsetningar útgjalda sveitarfélaga, einkum að saman fari þróun tekna og launaútgjalda.

Ekki er hægt að fjalla um tekjustofna án þess að koma inn á það hvernig þeim er skipt milli einstakra sveitarfélaga. Í því efni er mikilvægt að tekjuskiptingin sé sanngjörn og að hún tryggi að öll sveitarfélög hafi sambærilega möguleika á að veita góða þjónustu að teknu tilliti til ólíkra aðstæðna, samsetningar íbúa og breytilegra þarfa þeirra.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga starfar á grundvelli reglna sem eru komnar til ára sinna. Nú er nýhafin endurskoðun á málefnum Jöfnunarsjóðs sem byggir að hluta á undirbúningi sem átt hefur sér stað yfir allmörg ár.

Ég bind vonir við að nýjar reglur leiði til réttlátari skiptingar með tilliti til þeirra verkefna sem sveitarfélög þurfa að sinna af mismunandi þunga. Jafnframt tel ég að eitt af því sem er nauðsynlegt að breyta sé að sveitarfélögin leggi meira til jöfnunarinnar af fasteignasköttum, einkum vegna lögaðila.

Sveitarfélögin eru í mismunandi stöðu vegna félagslegrar og lýðfræðilegrar samsetningar íbúanna sem getur verið mjög mismunandi einkum í fjölmennu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.

Þarna er dæmi um atriði sem vel kemur til greina að jafna á milli eftir útgjaldaþörf og almennt er skynsamlegt að byggja jöfnunina á mælanlegum þáttum í mismunandi útgjaldaþáttum og að skilja enga umfangsmikla þætti eftir.

Góðir fundargestir!

Ég hef hér rétt tæpt á nokkrum helstu atriðum er snúa að fjárhagslegum samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga um þessar mundir. Árangur hefur náðst enda samstarfið við Samband íslenskra sveitarfélaga og við ykkur öll verið gott og gott traust ríkir í öllum samskiptum. Ef ég man rétt þá nefndi ég það fyrir ári síðan að viss stirðleiki og pirringur í samskiptum ríkis og sveitarfélaga ætti eflaust rætur að rekja til þess að báðir aðilar þurftu mjög að hagræða og finna leiðir til þess að ná endum saman að nýju eftir efnahagslegan samdrátt á Íslandi. Það var í sjálfu sér ekki við öðru að búast en að það myndi kalla fram núning, einhver pirring, átök um leiðir til þess að báðir aðilar gætu mætt markmiðum sínum. En nú eru bjartari tímar, það dregur ský frá sólu og mér finnst sem samskiptin hafi farið batnandi. Ég hef hér rakið nokkur dæmi um áfanga sem við höfum náð á tiltölulega skömmum tíma. Þetta eru risastór mál sem eiga að gefa okkur von um að samskiptin batni áfram og að við getum sameiginlega, ríki og sveitarfélög, náð þeim markmiðum sem við erum að keppa að í þágu landsmanna.

Ég vonast þess vegna til þess, hvað sem líður niðurstöðum kosninganna sem eru framundan, að sami andi ríki áfram yfir þessum verkefnum, þ.e.a.s. að það verði sama vægi lagt á mikilvægi þess að viðhalda góðu samstarfi og þétta sameiginlega sýn á opinber fjármál.

Þakka ykkur fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum