Hoppa yfir valmynd
21. september 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á ráðstefnu Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu 14. september 2016

Hvað hefur breyst?

 

[Talað orð gildir]

Ég vil þakka Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu fyrir að boða til þessarar ráðstefnu í tilefni af útgáfu skýrslunnar Hvað hefur breyst. Þetta er gott framtak og þarft innlegg inn í umræðu um þær miklu breytingar sem hafa orðið á löggjöf á þessu sviði frá hruni og einnig þær breytingar sem framundan eru og koma til vegna aðildar Íslands að EES samningnum.

Ég ætla að byrja á því að reifa nokkur lykilatriði í aðgerðum stjórnvalda frá hruni og hvaða lærdóm við getum dregið af þeim.

Aðgerðir stjórnvalda í kjölfar fjármálakreppunnar hér á landi með neyðarlögunum svokölluðu, fólu í sér að bönkum og sparisjóðum var leyft að falla, en séð var til þess að innstæðum almennings og fyrirtækja væri borgið ásamt því að greiðslumiðlunarkerfinu var haldið gangandi.

Eftir hrun hefur komið betur í ljós að staðan á Íslandi hafi verið sú að bankar hafi verið of stórir til að bjarga en áður en fjármálakreppan skall á var það ráðandi viðhorf að íslensku bankarnir væru almennt of stórir til að falla. Vísað var lágrar skuldastöðu ríkissjóðs og af þeim sökum þótti ekki ástæða til af hálfu matsfyrirtækjanna að taka lánshæfi bankanna til endurskoðunar. Segja má að með neyðarlögunum hafi Ísland orðið leiðandi á alþjóðavísu í því að draga stórkostlega úr freistnivanda eigenda fjármálafyrirtækja.

Sú staðreynd að ríkissjóður var nær skuldlaus þegar kreppan skall á, gerði svo stjórnvöldum það á annað borð kleift að láta til sín taka við endurreisn fjármálakerfisins og takast á við þau fjölmörgu samfélagslegu vandamál sem fylgdu í kjölfar efnahagskreppunnar. Það skiptir líka máli að ríkið var ekki eigandi að bönkunum þegar fjármálakreppan skall á. Gildi þess að hafa skuldlausan ríkissjóð er að mínu mati annar stóri lærdómurinn sem við Íslendingar getum dregið af hruninu.     

Þriðja atriðið sem draga má lærdóm af vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar og þeirrar íslensku er að stjórnvöld geta ekki komið í veg fyrir fjármálakreppur eða að bankar fari á höfuðið en það er hægt að draga úr líkum á slíku og verja ríkissjóð og almenning fyrir afleiðingunum þegar og ef það gerist.

Í því sambandi er rétt að rekja í örstuttu máli hve ötullega hefur verið unnið frá hruni bankakerfisins að endurbótum á lagaumhverfi fjármálamarkaða til þess að verja almenning og ríkissjóð – eins og skýrlega kemur fram í skýrslunni og sýnir vel að ekkert er hæft í fullyrðingum um að ekkert hafi breyst í umhverfi fjármálafyrirtækja á Íslandi frá hruni.

Lögum um innstæðutryggingar hefur verið breytt og framundan er innleiðing á Evróputilskipun um innstæðutryggingar, eftirlitsheimildir hafa verið styrktar, ábyrgð stjórnenda aukin, áhættustýring innan bankanna hefur verið efld og reglur bættar, ákvæði um tengsl aðila og stórar áhættuskuldbindingar hafa verið gerð ítarlegri og kröfur um fjárhagslegan styrk auknar með nýjum reglum um eiginfjárauka. Þessar reglur hafa þegar tekið gildi og haft töluverð áhrif.

Fjármálastöðugleikaráði og kerfisáhættunefnd hefur jafnframt verið komið á fót og stofnanaumgjörðin skilgreind betur sem hluti af hagstjórnartækjum hins opinbera ásamt peningastefnunni og opinberum fjármálum. Bætt stofnanaumgjörð gerir mögulegt að hafa eftirlit bæði með heilbrigði einstakra fjármálastofnana og samspili þeirra á milli og við aðra þætti efnahagslífsins.

Allar þessar umbætur miða að því að stuðla að heilbrigði og stöðugleika á fjármálamarkaði og draga úr umfangi og áhættusækni þess til framtíðar litið.

Unnið er að frekari umbótum á yfirstandandi þingi og á komandi löggjafarþingi liggur fyrir að haldið verður áfram með vinnu við innleiðingu á Evrópureglum og mun þar sennilega mest fara fyrir frumvarpi til laga um slitameðferð fjármálafyrirtækja sem og frumvarpi um innstæðutryggingar, eins og ég nefndi hér áðan.

Ég vil líka nefna það hér að við innleiðingu á Evrópureglum verður alltaf að huga að sérstöðu Íslands og hef ég lagt áherslu á það í minni ráðherratíð að valkvæðar íþyngjandi reglur eigi ekki að taka upp nema sérstakt tilefni sé til þess. Á þessu sviði verður þó að hafa í huga að svigrúmið er oft á tíðum ekki mikið og að meginstefnu til miðast Evrópureglur við stærri fjármálafyrirtæki í Evrópu.

Góðir gestir! Íslenskt fjármálakerfi stendur nú á traustum grunni og margt hefur færist til betra horfa á liðnum árum en áður en vissulega bíða okkar ýmis úrlausnarefni.

Ég ætla að gera hér að umtalsefni einn veigamikinn þátt sem ræða verður og ígrunda vandlega á næstu misserum. En það er spurningin hvort þörf sé á því að aðskilja viðskiptabankastarfsemi frá fjárfestingabankastarfsemi. Eða með öðrum orðum hvernig takmarka megi áhættu af fjárfestingarbankastarfsemi í starfsemi alhliða banka.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að síðasta vor skipaði ég starfshóp til þess að yfirfara lög hér á landi með það að markmiði að draga úr kerfisáhættu vegna starfsemi alhliða banka og kerfislegra mikilvægra fjármálafyrirtækja – nánar tiltekið að auka viðnámsþrótt fjármálakefisins gegn áföllum.

Þau atriði sem hópurinn er með til skoðunar og vinnur tillögur að snúa m.a. að:

1)      Eigin viðskiptum alhliða banka – stöðutökur, veltubók o.fl.

2)      Eignarhaldi í fyrirtækjum í óskyldum rekstri

3)      Takmörkunum á því að alhliða bankar (sérstaklega kerfislega mikilvægir) veiti sölutryggingar

4)      Frekari takmörkunum á viðskiptavaka t.d. á milli kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja;

5)      Hvort setja eigi frekari lagaskyldur um aðskilnað starfsviða í alhliða bönkum

6)      Hvort setja eigi lagaáskilnað um hærri eiginfjárkröfur gagnvart alhliða bönkum t.d. sérstakar hlutfallsreglur.

Öll þessi atriði tengjast en með þeim er reynt að ná sama markmiði sem er að takmarka áhættu í fjármálakerfinu. Vænti ég þessi að starfshópurinn skili tillögum í haust sem hægt verði að útfæra í lagafrumvarp.

Mín nálgun á þetta viðfangsefni er sú að ég vil ekki ganga lengra en þörf krefur. Ýmsir hafa uppi þá kröfur að það verði að aðskilja að fullu þessa starfsemi. Það er vissulega skiljanleg krafa og einföld. En ýmsu kann þó að vera fórnað með því að taka slíkt skref og ekki á að grípa til slíkra ráðstafana nema þær úrbætur sem annars er hægt að vinna að með þessa starfsemi undir sama þaki dugi ekki til. Ef niðurstaða þeirrar vinnu sem er í gangi verður sú að við sitjum engu að síður uppi með of mikla áhættu þá verður einfaldlega stíga skrefið til fulls.

Að lokum til ég nefna hér tvö önnur atriði. Annað snýr að eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum á Íslandi og þá á ég við þá staðreynd að frá árinu 2008 þá höfum við sætt okkur við eignarhald á stórum bönkum sem er á skjön við þær reglur sem kveða á um hverjir teljast hæfir eigendur til að fara með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum. Ég vil minna á það að við búum enn við það ástand í tilviki Arion banka. Það horfir nú sem betur fer nú til betri vegar í þessum efnum. Arion banki er á leið í sölumeðferð. Íslandsbanki er kominn í eigu ríkisins og þá tekur við að ræða framtíðina hvað það atriði varðar.

Hitt atriði sem ég vil nefna eru skattar á fjármálafyrirtæki. Því ber að halda til haga, að þrátt fyrir að ekki sé verið að afnema sérstaka skatta á fjármálafyrirtæki eins hratt og áður var að stefnt, þá hefur þó verið dregin lína í sandinn og stefnt að afnámi þeirra. Ég er sammála því að við eigum ekki að vera með sérstaklega íþynjandi reglur á fjármálafyrirtæki sem á endanum lenda á almenningi í landinu og ekki er hægt að komast að annarri niðurstöðu en að viðbótar skattlagning hafi líka á endanum áhrif á vaxtakjörin. En ég bendi þó jafnframt á að þegar skattlagning var kynnt til sögunnar á sínum tíma þá var hún rökstudd á þá leið að ná þyrfti til baka þeim kostnaði sem fallið hafði á ríkið við hrun fjármálakerfisins. En þetta hefur nú breyst og því er tímabært að þessi skattar fjari út.

Góðir gestir! Á næstu árum verður rætt um eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Ríkið er stærsti eigandi íslenskra fjármálafyrirtækja og ég er þeirrar skoðunar að það geti ekki verið framtíðarfyrirkomulag. En skapa þarf góða sátt hvernig við gerum breytingar þar á. Ég tel mikilvægt að allur almenningur sé virkjaður til umræðu og þátttöku í því ferli, meðal annars eigum við áfram að skoða þann kostinn að almenningi verði afhentir hlutir í fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. 

Takk fyrir!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum