Hoppa yfir valmynd
17. mars 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ræða fjármálaráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands 17. mars 2016

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra - mynd

Talað orð gildir

Ræða fjármálaráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands 17. mars 2016

Formaður bankaráðs, seðlabankastjóri, sendiherrar, aðrir fundargestir

Það eru orðin tvö ár síðan ég sótti minn fyrsta ársfund sem fjármálaráðherra. Þá höfðu fyrstu skrefin þegar verið stigin í átt að haftaafnámi með skipun sérfræðingahóps, sem lauk störfum þetta sama vor en við af honum tók svokallaður framkvæmdahópur um afnám fjármagnshafta.

***

Fyrir ári greindi ég fundargestum frá því að stutt væri í að stórar ákvarðanir yrðu teknar sem myndu marka leiðina fram á við að losun hafta. Framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta var þá að leggja lokahönd á tillögur til stýrinefndar um aðgerðaáætlun sem ætlað var að gera okkur kleift að losa um höft án þess að stefna efnahagsstöðugleika Íslands í hættu.

Ekkert ríki hafði, fyrr eða síðar svo vitað sé, þurft að glíma við viðlíka greiðslujafnaðarvanda og Ísland stóð frammi fyrir. Landið hvíldi undir snjóhengju fjármagns sem leitaði útgöngu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mat að næmi 70% af landsframleiðslu.

Það var ljóst að þessi fordæmalausa staða kallaði á fordæmalausar aðgerðir.

Það sem ég gat hins vegar ekki upplýst gesti ársfundarins um á þessum tíma var að tveimur dögum áður hafði aðgerðaáætlun stjórnvalda verið hrundið í framkvæmd.

Framkvæmdahópurinn og erlendir ráðgjafar stjórnvalda höfðu þá átt fundi með fulltrúum helstu kröfuhafa Kaupþings, Glitnis og LBI þar sem þeim voru í fyrsta skipti kynntar fyrirætlanir um stöðugleikaskatt á eignir slitabúanna. Af markaðsástæðum ríkti trúnaður um samskiptin og innihald þeirra, en þarna var um algjör kaflaskil að ræða í samskiptum kröfuhafa og stjórnvalda.

Um margra ára skeið höfðu fulltrúar slitabúanna kallað eftir stefnu um það hvernig hægt væri að ljúka skuldaskilum þeirra þannig að kröfuhafar gætu flutt sitt fé úr landi – og þarna sáu þeir svart á hvítu hver stefna íslenskra stjórnvalda var: Að afnema höft á þann hátt að um niðurstöðuna skapaðist pólitísk og samfélagsleg sátt. Í því fólst að uppgjör búanna mætti ekki hafa neikvæðar efnahagslegar afleiðingar fyrir almenning á Íslandi.

Þann 8. júní á síðasta ári var áætlun stjórnvalda um losun hafta kynnt með ýtarlegum hætti og innan við mánuði síðar samþykkti alþingi frumvarp mitt um stöðugleikaskatt á slitabú föllnu bankanna. Samhliða kynntu stjórnvöld stöðugleikaskilyrði sem gætu orðið grundvöllur að undanþágum samhliða nauðasamningsgerð. Það er ánægjulegt að segja frá því að einmitt í dag samþykkti Alþingi svo lög um móttöku stöðugleikaframlagsins.

Við sjáum það nú að inngrip stjórnvalda var nauðsyn. Án lagasetningar og afarkosta eru líkur til þess að við sætum enn að bíða eftir hugmyndum slitabúa að nauðsamningum.

Öll okkar vinna, allur okkar undirbúningur hafði það markmið að skapa hér skilyrði fyrir uppgjör slitabúa samhliða efnahagslegum stöðugleika.

Það er ástæða til þess á ársfundi Seðlabanka Íslands að þakka öllu því fólki sem hér starfar fyrir gott og árangursríkt samstarf við að vinna að framgangi þessarar áætlunar. Framlag Seðlabankans og sérfræðinga okkar, innan lands og utan, að ógleymdum öllum þeim starfsmönnum ráðuneyta og öðrum úr stjórnsýslunni sem lögðu hönd á plóg, skapaði þennan árangur.

Réttir hvatar og tímafrestir tryggðu að stærsta snjóhengjan, 30% af landsframleiðslu, var leyst á um 10 mánuðum eftir að aðgerðir stjórnvalda hófust. Þar sem ég stóð hér fyrir ári síðan hafði ég aðeins veika von um að okkur tækist að nýta tímann til áramóta til að ganga frá málefnum allra fallinna fjármálafyrirtækja, en það tókst.

Frágangur allra fallinna fjármálafyrirtækja er kominn í farveg með samþykktum nauðasamningum. Útistandandi lagaleg ágreiningsmál eru engin.

Markmið heildaráætlunar okkar um afnám hafta var - og er - að uppgjör málsins yrði hlutlaust gagnvart greiðslujöfnuði þjóðarbúsins. Þetta var ekki tekjuöflunaraðgerð.

Framsal slitabúanna á innlendum eignum sínum til ríkissjóðs ásamt ýmsum öðrum ráðstöfunum til að taka á krónuvanda þeirra hefur hins vegar þegar haft mikil og varanleg áhrif á fjárhag ríkissjóðs.

Það helgast af því að þó að einhvern tíma muni taka að koma þessum eignum í verð og ráðstafa söluandvirði til greiðslu skulda ríkissjóðs, bera þessar eignir góða rentu á meðan, í flestum tilfellum nokkuð hærri en ríkið greiðir í vexti af skuldum sínum.

Þannig hefur hin fordæmalausa staða sem leyst var með fordæmalausum aðgerðum nú haft fordæmalaus áhrif á framtíðarheildarjöfnuð ríkissjóðs. Umskiptin í vaxtajöfnuði ríkissjóðs og áhrifin á heildarjöfnuðin eru slík að ég get fullyrt það hér að þau standa undir byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss eins og mun sjást í ríkisfjármálaáætlun til fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi í fyrsta sinn um næstu mánaðamót.

***

Í tæp sjö ár hafa fjármagnshöftin takmarkað áhættudreifingu í eignasöfnum innlendra aðila. Sparnaður innlendra aðila frestar neyslu og fjárfestingu og stuðlar því sjálfkrafa að viðskiptaafgangi innanlands. Í einfaldaðri mynd má því segja að takmörkun á erlendum fjárfestingum innlendra aðila feli í sér framtíðarráðstöfun á viðskiptajöfnuði enda er sparnaðinum ætlað að standa undir neyslu eða fjárfestingu í framtíðinni.

Stærstur hluti neyslu- og fjárfestingarvara hér á landi er innfluttur og vegna smæðar hagkerfisins er líklegast að svo verði áfram. Þess vegna er afar mikilvægt að unnt verði að losa um fjármagnshöft á innlenda aðila sem fyrst, áður en uppsöfnuð fjárfestingarþörf fer að verða sjálfstætt vandamál við losun fjármagnshafta auk þess að bjaga eignaverð innan lands.

Næsta skref í haftalosuninni snýr að aflandskrónunum. Okkur hefur orðið vel ágengt við að undirbúa næstu aðgerðir en seðlabankastjóri mun fara yfir stöðu þess máls hér á eftir. Farsæl framkvæmd útboðsins, sem stefnt er að, er lykillinn að næstu stóru áföngum í haftaafnámi.

Það er eðlilegt að fólk spyrji sig hvernig efnahagslíf án hafta muni spjara sig. Við það fólk vil ég segja að það stendur ekki til að bjóða heim hættu á viðlíka ójafnvægi og hér myndaðist á árunum fyrir fall bankanna.

Þannig munu varúðarreglur leysa fjármagnshöftin af hólmi, fjármálastöðugleikaráð er þegar starfandi og nýtt regluverk á fjármálamarkaði gerir mun strangari kröfur til þeirra sem á honum starfa en við þekktum hér áður fyrr.

***

Myndin sem við okkur blasti þegar við hittumst hér árið 2014, þegar ég ávarpaði ársfund seðlabankans í fyrsta sinn, var talsvert ólík því sem við sjáum nú. Mig langar einmitt til að minna ykkur á orð mín þá, þegar ég sagði að þótt við værum enn að glíma við ýmsar afleiðingar efnahagsáfallsins, væri engu að síður tímabært að við færum að búa okkur undir að vinna á móti þenslu til að tryggja varanlegan stöðugleika.

Og það er sá veruleiki sem við er að eiga nú.

Til að komast í gegnum þessa erfiðu tíma höfum við þurft að styðja okkur við hækjur. Þar má helstar nefna annars vegar efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrisjóðsins sem fjármagna þurfti með aðstoð vinaþjóða - og hins vegar höftin. Nú höfum við greitt upp öll neyðarlánin sem okkur voru veitt og við hyggjumst sleppa hinni hækjunni, - höftunum - síðar á árinu.

Viðfangsefnin hafa nú gjörbreyst.

Fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar voru í járnum. Fjárlagafrumvarpinu var skilað með um hálfs milljarðs afgangi haustið 2013, og þar munaði um skattlagningu slitabúanna, sem skipti sköpum við að rétta af fjárhag ríkissjóðs. Útkoma ársins 2014 og 2015 fór reyndar verulega fram úr væntingum, en það breytir ekki því að mikil skuldabyrði með háum vaxtagjöldum hefur reynst okkur afar íþyngjandi. En nú er tekið við skuldalækkunarferli og á síðasta ári greiddum við upp um 10% af heildarskuldum og stefnum að enn frekari uppgreiðslum á þessu ári. Staða ríkissjóðs batnar því hratt - og þegar litið er til hreinnar stöðu þjóðarbúsins hefur hún aldrei verið betri. Þessi þróun og trúverðug áætlun stjórnvalda við losun fjármagnshafta hefur skilað sér í að lánshæfisfyrirtækin þrjú hafa öll hækkað lánshæfiseinkunn ríkissjóðs á síðustu mánuðum.

En vandi fylgir vegsemd hverri. Hagvöxtur varð meiri árið 2015 en spáð var, eða rúm 4% og á þessu ári er spáð sambærilegum vexti. Framleiðsluslakinn er horfinn og spenna tekin að myndast á vinnumarkaði. Launahækkanir hafa verið umfram það sem samræmist verðbólguviðmiði og framleiðnivexti og því eru ýmis sígild hættumerki við sjóndeildarhringinn í íslenska hagkerfinu.

Við þessar aðstæður er mikilvægt að ríkisfjármálin styðji þétt við peningastefnuna til að draga úr þenslu og koma í veg fyrir óstöðugleika - með öðrum orðum: Það er mikilvægt að gæta aðhalds í útgjöldum hins opinbera við þessar aðstæður. Stjórnmálamenn verða að hafa það í huga að þótt kosningar séu fram undan eru ríkisfjármálin mikilvægt hagstjórnartæki sem verður að meðhöndla af varfærni. Aðhaldið er ekki síst mikilvægt til þess að koma í veg fyrir að beita þurfi vaxtatækinu með þeim hætti að efnahagsleg velferð almennings skerðist.

***

Viðreisn efnahagslífsins hefur gengið mun hraðar en búist var við, en leiðin til hagsældar er ekki tímabundið átaksverkefni. Það er ekki vel til árangurs fallið að taka sífellda spretti umfram getu og þurfa svo að safna kröftum á milli. Hugsa þarf til langs tíma.

Ég er bjartsýnn á framtíð okkar og vil ganga svo langt að segja hún hafi aldrei verið jafn björt hjá okkur Íslendingum.

Þetta eru stór orð, kann einhver að segja, og ég skal hér færa fyrir þeim rök:

Í fyrsta lagi er ljóst að landsframleiðsla á Íslandi hefur aldrei verið meiri, þetta á við að raungildi og mælt á hvern landsmann. Gangi spár eftir lifum við nú lengsta hagvaxtarskeið seinni tíma.

Í öðru lagi og þessu tengt - íslenska efnahagsvélin gengur vel. Fyrir ekki svo löngu hitti ég mann sem sagði:,, Bjarni, þetta var fjármálakrísa, ekki efnahagshrun - því stoðir efnahagsins stóðust þetta allt vel.”

Þetta er vissulega bara skoðun eins manns, en það kemur sífellt betur í ljós hve vel hinar ýmsu einingar efnahagskerfisins hafa staðist þessi áföll. Með því er ég að vísa til frammistöðu Íslendinga við að skapa verðmæti úr sjávarfangi, hagkvæmum orkukostum og öflugum iðnaði í landinu - þessar og margar aðrar grunnstoðir efnahags okkar hafa staðið sterkar og verið grundvöllur verðmætasköpunar. Við erum góð í að skapa værðmæti úr auðlindum okkar en megum aldrei slá slöku við og eigum sífellt að leita leiða til að gera enn betur.

Fjármálakerfið - sem hrundi - hefur líka rétt úr kútnum og við höfum í dag öflugar, vel fjármagnaðar stofnanir.

Í þessu sambandi er einnig nauðsynlegt að geta þess hve mikill vöxtur hefur orðið í ferðaþjónustu á Íslandi en það hefur tekið okkur nokkurn tíma að kortleggja þau áhrif og mæla. Samandregið birtast þau okkur nú í fleiri störfum, aukinni verðmætasköpun og meiri gjaldeyristekjum. Við höfum eignast nýja öfluga grunnstoð.

Íslenska hagkerfið hefur því aldrei hvílt á jafn mörgum öflugum stoðum.

Í þriðja lagi vil ég nefna að skuldastaða bæði fyrirtækja og heimila hefur snarbatnað, fjármál ríkisins eru komin í jafnvægi og skuldahlutföll fara hratt lækkandi.

Þessi þrjú atriði - kraftmikið hagvaxtarskeið, sterkt efnahagslíf reist á fleiri stoðum en áður og góður árangur við skuldalækkun heimila, fyrirtækja og ríkis - blása mér bjartsýni í brjóst um að Íslendingum muni áfram auðnast að bæta lífskjör sín.

Þessi góða staða er gott veganesti. Höfum það hugfast. En hún er ekkert meira en það. Framhaldið er undir okkur komið.

Hvort við getum staðið á eigin fótum er í höndunum á okkur sjálfum en ég tel að við höfum tækin til þess. Þetta er samvinnuverkefni og það krefst aga og langtímasýnar.

Ég hef áður á þessum vettvangi talað um nýja umgjörð opinberra fjármála. Hún er nú orðin að veruleika, en það er einungis hálfur sigurinn unninn með nýjum lagaramma.

Það sem við þurfum er hugarfarsbreyting hjá öllu stjórnkerfinu til að laga sig að meiri aga og minni skammtímareddingum. Og löggjafinn sjálfur, sjálft fjárveitingarvaldið Alþingi, þarf að beina augunum að stóru myndinni og taka minni tíma í smáatriði.

Og - ein af stóru spurningunum sem blasir við í efnahagslegu tilliti er: Hvernig mun okkur takast að þróa sambandið og samstarfið milli stjórnvalda og vinnumarkaðar?

Ég sé rík merki um vilja til að gera betur sem birtist t.d. Í SALEK-samkomulaginu og stofnun þjóðhagsráðs sem kemur saman í fyrsta sinn í byrjun apríl. En, – nú reynir á það á næstu misserum og árum hversu mikið við erum tilbúin að leggja á okkur til að ná langtímaárangri.

Við skulum einsetja okkur saman að fylgja þessum jákvæðu merkjum vel eftir. Þau eru í mínum huga lykillinn að frekari efnahagslegum framförum.

Gefist menn upp í miðri á - eða slái á frest nauðsynlegum umbótum, má vænta hærri verðbólgu og hærra vaxtastigs. Gerist þetta bið ég um eitt: Ekki skella þá skuldinni á gjaldmiðilinn, íslensku krónuna, sem allt of oft er lítið annað en blóraböggull fyrir agaleysi. Íslenska krónan mun ávallt fyrst og fremst vera mælikvarði fyrir hina undirliggjandi stöðu efnahagsmála.

***

Þetta eru merkilegir tímar. Fyrir áhugamenn um hagfræði og efnahagsmál almennt verður reynsla Íslands af því að fara í gegnum krísu, setja á höft - og afnema - verðugt rannsóknarefni. Hér hafa verið mótuð fordæmi, eins og með neyðarlögunum og nálgun okkur gagnvart innistæðum í bönkunum sem þegar hafa haft áhrif á þróun alþjóðlegra réttarreglna. Hugsanlega geta fleiri atriði orðið öðrum ríkjum í vanda eitthvert leiðarljós í framtíðinni, en það er jafnlíklegt að svo verði ekki, enda er árangur Íslands að mörgu leyti einstakur.

Það eru margir sem hafa komið að þessu verkefni, bæði innan þessarar stofnunar og víðar. Mig langar að nota tækifærið til að ítreka þakkir til starfsfólks seðlabankans og sérfræðinga sem unnið hafa að áætlun stjórnvalda um afnám fjármagnshafta, og þakka bankaráði og seðlabankastjóra fyrir ánægjulegt samstarf í þágu þjóðarhags.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum