Hoppa yfir valmynd
24. október 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra í tilefni af útgáfu nýs tíu þúsund króna seðils

Ávarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í tilefni af útgáfu nýs tíu þúsund króna seðils, 24. október 2013. Ávarpið var flutt við athöfn í Seðlabanka Íslands.

Talað orð gildir

 

Ekki fá allir fjármálaráðherrar að taka við nýjum peningaseðli á sínum starfsferli, og líklega má segja - sem betur fer. Frá þvi nýkrónan var tekin upp við myntbreytinguna árið 1981 hefur rýrnandi gildi hennar kallað á breytingar, bæði í myntum og seðlum, eins og seðlabankastjóri talaðI um hér áðan.

Mín fyrsta minning um peninga og gildi þeirra er frá áttunda áratugnum, sennilega upp úr honum miðjum. Ég hitti gömlu barnapíuna mína í götunni og hún gaf mér fimmtíu krónur. Ég fór með fimmtíu kallinn upp í Kaupfélag Hafnfirðinga í Garðabæ og keypti mér fyrir hann eina kókosbollu. Ekki mörgum árum síðar voru þessar fimmtíu krónur orðnar að 50 gljáandi koparaurum, sem dugðu enn fyrir dálitlu nammi í kaupfélaginu.
Í dag fáum við hér í hendurnar seðil sem er 20.000 sinnum verðmeiri, að nafninu til, en fimmtíueyringurinn frá 1981, þótt mér sé það stórlega til efs að ég fengi fyrir hann 20.000 kókosbollur.

Árið 1981 var verðmesti seðillinn 500 krónu seðilll, sem nú myndi reiknast á um 20.000 krónur. Við göngum þó ekki svo langt í seðlaútgáfunni og þykir líklega nóg að hafa náð því marki að aldrei áður í seðlasögu Íslands, sem þó nær frá 1778, hefur verið gefinn út seðill með jafnhárri krónutölu.

Okkur þykir hann vissulega fallegur og kunnum Kristínu Þorkelsdóttur ásamt Stephen A. Fairbairn miklar þakkir fyrir hönnunina. Oft hefur verið vísað til hinna undirliggjandi verðmæta, auðlindanna, jarðhitans, búfénaðar og sjávarfangs, en að þessu sinni er það listin og náttúran, sem við metum að sjálfsögðu einnig sem hin mestu verðmæti okkar Íslendinga.  Við fögnum að auki mjög tækifærinu til að heiðra þjóðskáldið - en þátt fyrir þetta allt er vonandi að hér munum við láta staðar numið. Ekki þannig að handan við hornið bíði önnur myntbreyting og enn nýrri króna, heldur að við berum gæfu til að tryggja hér stöðugleika og gildi myntarinnar með traustri efnahagsstjórn og öruggri peningastefnu.

Það er sameiginlegt hlutverk okkar sem hér erum og okkar fólks en vitaskuld ekki okkar einna. Við treystum einnig á samhljóm við atvinnulífið og jafnvægi í samskiptum aðila vinnumarkaðarins til að stemma stigu við hinni landlægu óværu, verðbólgunni.

Þessi stefna er mörkuð í fyrsta fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar, þar sem stefnt er að hallalausum rekstri á næsta ári. Í vetur legg ég fram frumvarp til laga um opinber fjármál sem eiga að treysta enn frekar umgjörð ríkisfjármálanna og að auki er einnig unnið að frumvarpi um fjármálastöðugleikaráð, sem verður enn eitt lóðið á vog hagstjórnarinnar. Þegar þetta allt kemur saman, traust lagaumgjörð, öflug hagstjórn og skýr pólitísk markmið um stöðugleika treysti ég því að okkur takist að vernda gildi peninganna og þetta verði síðasti seðillinn í þriðju seðlaröð Seðlabanka Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum