Hoppa yfir valmynd
23. júní 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 23. júní 2008

3. tbl. 10. árg.
Útgefið 23. júní 2008
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri
Vefur:
www.fjarmalaraduneyti.is
Tölvupóstfang:
[email protected]

Fréttabréfið er einnig fáanlegt á PDF-formi sem er afar hentugt til útprentunar og sem unnt er að lesa með forritinu Adobe Acrobat Reader.

Undirritaðir kjarasamningar og samþykktir

Að þessu sinni er fréttabréfið tileinkað nýgerðum kjarasamningum og farið yfir helstu breytingar þeirra. Samninganefnd ríkisins hefur nú undirritað kjarasamninga við 66 stéttarfélög. Samningarnir hafa allir verið samþykktir og verða laun starfsmanna leiðrétt í samræmi við þá 1. júlí næstkomandi. Fjársýsla ríkisins mun annast allar breytingar kjarasamninganna vélrænt. Kjarasamningarnir eru komnir á vef fjármálaráðuneytisins.

Kjarasamningur BSRB undirritaður 25. maí 2008

Samningurinn (PDF 44 KB) nær til 20 af 23 aðildarfélögum BSRB. Þau félög sem út af standa eru Landssamband lögreglumanna, Tollvarðafélag Íslands og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna en samningar þeirra eru með gildistíma til 30. nóvember 2008.

Kjarasamningurinn gildir frá 1. maí 2008 til 31. mars 2009 og hefur hann nú verið samþykktur af öllum félögunum. Samningurinn nær til eftirtalinna félaga BSRB:

Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, Félags starfsmanna stjórnarráðsins, Kjalar - stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, Samflots bæjarstarfsmannafélaga, (innan samflotsins eru 11 stéttarfélög), SFR-stéttarfélags í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélags Íslands, Starfsmannafélags Garðabæjar, Starfsmannafélags Kópavogs, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Suðurnesja.

Helstu atriði samningsins eru sem hér segir:

Hækkun mánaðarlauna.

Frá 1. maí 2008 hækka allar tölur mánaðarlauna dagvinnu um kr. 20.300. Þetta verður til þess að bil milli launaflokka og þrepa er ekki ávallt það sama. Yfirvinna, vaktaálag og allir aðrir taxtar sem reiknaðir eru sem hlutfall af mánaðarlaunum taka breytingum í hlutfalli við hækkun mánaðarlauna.

Persónuuppbót í desember.

Persónuuppbót í desember 2008 verður kr. 44.100. Á þessu eru þó nokkrar undantekningar en persónuuppbót verður kr. 47.000 skv. sérstöku samkomulagi sem fylgir samningnum við eftirtalin félög.

Kjöl – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, Starfsmannafélag Kópavogs, Samflot bæjarstarfsmanna-félaga, Félag flugmálastarfsmanna, Starfsmannafélag Suðurnesja og Starfsmannafélag Garðabæjar.

Grein 12.2.5 um mat á ávinnslurétti veikindaréttar er breytt.

Nú ávinna starfsmenn sér veikindarétt óháð stéttarfélagsaðild hjá stofnunum ríkis, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé.

Grein 12.2.5 er nú sem hér segir:

Við mat á ávinnslurétti starfsmanns skv. gr. 12.2.1 skal auk þjónustualdurs hjá viðkomandi launagreiðanda einnig telja þjónustualdur hjá stofnunum ríkis, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé.

Á fyrstu 3 mánuðum samfelldrar ráðningar skal þó fyrri þjónustualdur samkvæmt þessari grein ekki metinn nema að viðkomandi starfsmaður hafi samfelldan þjónustualdur hjá framangreindum launagreiðendum í 12 mánuði eða meira.

Grein 12.8.1 um veikindi barna yngri en 13 ára er breytt.

Heimild foreldra til að vera frá vinnu vegna veikinda barna er aukin úr 10 dögum í 12 daga.

Grein 12.8.1 er nú sem hér segir:

Annað foreldri á rétt á að vera frá vinnu í samtals 12 vinnudaga (96 vinnuskyldustundir miðað við fullt starf) á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Í þessum fjarvistum skal greiða starfsmanni dagvinnulaun og vaktaálag skv. reglubundinni varðskrá/vaktskrá. Réttur þessi hefur ekki áhrif á rétt starfsmanns skv. öðrum greinum.

Undirrituð voru nokkur samkomulög um sérmál einstakra stéttarfélaga:

Við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar um að kjarasamningur Samflots vegna Starfsmannafélags Akraness frá 17. mars 2005 framlengist og munu aðilar vinna að því að samræma texta samninganna á samningstímanum.

Við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar um að gerður verði sérstakur samningur vegna háskólamenntaðra starfsmanna.

Við Starfsmannafélag Kópavogs um að kjarasamningur Samflots vegna Starfsmannafélags Kópavogs frá 17. mars 2005 framlengist.

Auk þess var gengið frá sérstöku samkomulagi við nokkur stéttarfélög, sem upp eru talin að framan, um að persónuuppbót í desember verði kr. 47.000.

Eftirfarandi bókanir eru með samningi BSRB.

Bókun vegna upplýsinga til stéttarfélaga um laun félagsmanna.

Framlenging á bókunum um þróunar- og símenntunarsjóði félaganna auk óbreytts framlags til Fræðslusetursins Starfsmenntar. Undantekning er bókun vegna Sjúkraliðafélags Íslands sem m.a. tiltekur upphafsgreiðslu.

Bókun um mögulega aðkomu að Endurhæfingarsjóði með hliðsjón af samkomulagi aðila á almennum vinnumarkaði. Efnt verði til samstarfs við önnur samtök ríkisstarfsmanna og greiðslurnar inntar af hendi þegar samkomulag liggur fyrir.

Bókun vegna breytts fyrirkomulags á fjölskyldu- og styrktarsjóði þannig að frá áramótum 2008/2009 renni framlögin aðgreind til bandalaga ríkisstarfsmanna. Komi breytingarnar til framkvæmda mun framlag til BSRB hlutans hækka um 0,20% og verði 0,75% í stað 0,55% frá 1. janúar 2009.

Bókun vegna þróunar á náms- og starfsráðgjöf fyrir félagsmenn BSRB, ásamt raunfærnimati.

Þá er bókun vegna eflingar mannauðsmála hjá ríkinu.

Kjarasamningur við Starfsgreinasamband Íslands undirritaður 26. maí 2008

Samningurinn (PDF 80 KB) gildir frá 1. maí 2008 til 31. mars 2009. Samningurinn nær til eftirtalinna félaga Starfsgreinssambands Íslands (SGS):

Eflingar-stéttarfélags, Einingar-Iðju, Verkalýðsfélags Akraness, Stéttarfélags Vesturlands, Verkalýðsfélags Snæfellsbæjar, Verkalýðsfélagsins Stjörnunnar,Verkalýðsfélags Stykkishólms, Verkalýðsfélags Vestfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur, Verkalýðsfélags Hrútfirðinga, Stéttarfélagsins Samstöðu, Öldunnar stéttarfélags, Framsýnar stéttarfélags, Afls starfsgreinafélags, Verkalýðsfélags Suðurlands, Bárunnar stéttarfélagas, Drífandi stéttarfélags, Verkalýðs- og sjómannafélagsins Boðans, Verkalýðfélags Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis.

Helstu atrið samningsins eru sem hér segir:

Ný launatafla.

Frá 1. maí tekur gildi ný samræmd lífaldurstengd launatafla sem er eins og launatafla SFR. Launataflan er birt í fylgiskjali 1 með samningnum og þar er einnig sýnd aðferðarfræðin við vörpun í nýja launatöflu.

Grein 1.4.1 um tímakaup í dagvinnu er breytt.

Vegna breytinga á launatöflunni reiknast tímakaup í dagvinnu og vaktaálag af hverjum launaflokki og þrepi en ekki af fastákveðnu þrepi eins og áður var. Viðmið á launum ungmenna breytist einnig.

Ræsting.

Nokkrar breytingar verða á ákvæðum um ræstingu. Taxtar tímamældrar ákvæðisvinnu við ræstingu hækka í samræmi við hækkanir á almennum vinnumarkaði.

Þá greiðist ræsting á tímabilinu 00:00 – 08:00 og aukastykki í ræstingu skv. öðrum launaflokki og viðkomandi lífaldursþrepi.

Taxtar flatarmældrar ákvæðisvinnu við ræstingu hækka einnig í samræmi við hækkanir á almennum vinnumarkaði.

Vinna við hreingerningu/aðalhreingerningu greiðist með yfirvinnutaxta skv. öðrum launaflokki, ef hún er ekki hluti af almennri vinnuskyldu starfsmanns. Þó aldrei lægri en sem samsvarar hærri taxtanum í tímamældri ákvæðisvinnu fyrir ræstingu. Þetta er nú óháð þrepi sem er breyting frá því sem áður var.

Önnur atriði:

  • Orlofsuppbót á árinu 2008 verður kr. 24.300, þar sem ekki var samið um orlofsuppbót í síðasta samningi.
  • Persónuuppbót í desember 2008 verður kr. 44.100.
  • Grein 12.2.5 um mat á ávinnslurétti veikindaréttar er breytt. (Sjá BSRB).
  • Grein 12.8.1 um veikindi barna yngri en 13 ára er breytt. (Sjá BSRB).

Grein 12.9.1 um styrktar- og sjúkrasjóð er breytt.

Frá 1. janúar 2009 greiðir vinnuveitandi mánaðarlega framlag í styrktar- og sjúkrasjóð viðkomandi aðildarfélags SGS sem nemi 0,75% af heildarlaunum starfsmanns.

Eftirfarandi bókanir eru með samningnum.

Bókun vegna upplýsinga til stéttarfélaga um laun félagsmanna.

Sérstök jöfnunargreiðsla vegna ósamræmis á milli hópa í ræstingu til þeirra ræstitækna sem vinna í tímamældri ákvæðisvinnu. Um er að ræða eingreiðslu, skv. sérstakri mælingu, allt að kr. 17.000 sem greidd verður út 1. desember 2008. Fjársýsla ríkisins mun sjá um að greiða þá greiðslu.

Um mögulega aðkomu að Endurhæfingarsjóði með hliðsjón af samkomulagi aðila á almennum vinnumarkaði. Efnt verði til samstarfs við önnur samtök ríkisstarfsmanna og greiðslurnar inntar af hendi þegar samkomulag liggur fyrir.

Vegna athugunar á framkvæmd ræstingarvinnu í nágrannalöndunum.

Kjarasamningar við Rafiðnaðarsamband Íslands, Samiðn f.h. aðildarfélaga, Verkstjórasamband Íslands f.h. aðildarfélaga allir undirritaðir 29. maí 2008

Kjarasamningarnir við ofangreind félög eru allir á sömu nótunum. Gildistími þeirra er frá 1. maí 2008 til 31. mars 2009. Helstu atriði samninganna eru sem hér segir:

Ný launatafla.

Frá 1. maí tekur gildi ný samræmd lífaldurstengd launatafla sem er eins og launatafla SFR Rammaskilgreiningar, þ.e. skilgreiningar starfa í ramma falla brott. Launataflan er birt í fylgiskjali 1 með samningunum.

Gr. 1.4.1 um tímakaup í dagvinnu er breytt.

Vegna breytinga á launatöflunni reiknast tímakaup í dagvinnu og vaktaálag af hverjum launaflokki og þrepi en ekki af fastákveðnu þrepi eins og áður var.

Önnur atriði:

  • Orlofsuppbót á árinu 2008 verður kr. 24.300, þar sem ekki var samið um orlofsuppbót í síðasta samningi.
  • Persónuuppbót (desemberuppbót) á árinu 2008 verður kr. 44.100.
  • Nýr 11 kafli um stofnanaþátt og samstarfsnefndir tekur gildi 1. maí 2008.
  • Grein 12.2.5 um mat á ávinnslurétti veikindaréttar er breytt. (Sjá BSRB).
  • Grein 12.8.1 um veikindi barna yngri en 13 ára er breytt. (Sjá BSRB).

Grein 12.9.1 um styrktar- og sjúkrasjóð er breytt.

Frá 1. janúar 2009 greiðir vinnuveitandi mánaðarlega framlag í styrktar- og sjúkrasjóð viðkomandi aðildarfélags sem nemur 0,75% af heildarlaunum starfsmanns.

Eftirfarandi bókanir eru með samningunum.

Bókun vegna upplýsinga til stéttarfélaga um laun félagsmanna.

Um mögulega aðkomu að Endurhæfingarsjóði með hliðsjón af samkomulagi aðila á almennum vinnumarkaði. Efnt verði til samstarfs við önnur samtök ríkisstarfsmanna og greiðslurnar inntar af hendi þegar samkomulag liggur fyrir.

Vegna vörpunar í nýja launatöflu en tryggt skal að enginn lækki í mánaðarlaunum við vörpun í nýja launatöflu.

Í fylgiskjali 1 með samningunum er nýja launataflan birt.

Með kjarasamningi Rafiðnaðarsambands Íslands og Samiðnar fylgir fyrirmynd af stofnanasamningi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum