Hoppa yfir valmynd
1. júní 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um kaup á sérfræðiþjónustu vegna þjóðlendumála

Yfirlitskort um stöðu þjóðlendumála. - myndMynd/Óbyggðanefnd

Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun hefur birt um kaup ráðuneytanna á sérfræðiþjónustu er meðal annars fjallað um viðskipti fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna þjóðlendumála. Af því tilefni tekur ráðuneytið fram að samningur um þjónustuna er í endurskoðun.

Lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta hafa gilt frá árinu 1998 og hefur á þeim tíma verið unnið að því að leysa endanlega úr óvissu um eignarhald á hálendissvæðum, en lögin voru sett í þeim tilgangi. Í lögunum er mælt fyrir að um óbyggðanefnd sem er sjálfstæð stjórnsýslunefnd hafi m.a það hlutverk að skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með það hlutverk að leggja fram kröfulýsingu ríkisins fyrir hvert þjóðlendusvæði.

Þessari þjónustu hefur verið útvistað og hefur ráðuneytið átt viðskipti við lögmannsstofuna Juris vegna þess. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á að formkröfur samningsins þurfi að bæta. Ráðuneytið tekur undir þessa ábendingu stofnunarinnar. Líkt og fram kemur í skýrslunni er undirbúningur vegna málsmeðferðar og málflutningur fyrir dómstólum undanskilinn lögum um opinber innkaup þó ávallt skuli gæta að leiðbeiningum og góðum starfsháttum við val á sérfræðiþjónustu, sem eiga að tryggja hagkvæmni, gæði þjónustu, jafnræði seljenda, gagnsæi og verðsamanburð. Ráðuneytið telur að framangreind atriði hafi verið uppfyllt í viðskiptum við Juris vegna þjóðlendumála.

Um þjóðlendur og þjóðlendunefnd

Lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta hafa gilt frá árinu 1998 og hefur á þeim tíma verið unnið að því að leysa endanlega úr óvissu um eignarhald á hálendissvæðum, en lögin voru sett í þeim tilgangi.

Frá því að lögin voru samþykkt hefur verið unnið að því að leysa endanlega úr óvissu um eignarhald á hálendissvæðum bæði fyrir óbyggðanefnd og fyrir dómstólum. Óbyggðanefnd hefur nú úrskurðað um mörk þjóðlendu umhverfis miðhálendið eins og fram kemur á meðfylgjandi yfirlitskorti um stöðu þjóðlendumála á öllu landinu. Nokkur mál eru enn til meðferðar hjá dómstólum, einkum á svæðum 8a og 8b.

Óbyggðanefnd hefur formlega lokið málsmeðferð á 81,7% af landinu öllu og 98,7% af miðhálendinu, eins og það er skilgreint samkvæmt svæðisskipulagi miðhálendisins. Af þeim hluta landsins sem óbyggðanefnd hefur úrskurðað um eru 44.1% þjóðlendur og 55,9% eignarlönd. Af þeim hluta miðhálendisins sem óbyggðanefnd hefur úrskurðað um eru 85,6% þjóðlendur og 14,4% eignarlönd.

Óbyggðanefnd vinnur að því að taka til meðferðar svæði 9A í Dalasýslu en lögmenn ríkisins hafa þegar skilað inn kröfulýsingu fyrir það svæði. Þá er undirbúningur hafinn við kröfulýsingu fyrir svæði 9b á Snæfellsnesi. Eftir standa önnur svæði við Vestfirði og Austfirði ásamt eyjum og skerum umhverfis landið.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum