Spurt og svarað um losun fjármagnshafta

Spurt og svarað um afléttingu fjármagnshafta

Hvað ræður því að gengið er til þessarar afléttingar núna? 

Þetta skref er í samræmi við áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kynnt var í júní 2015.

Er þetta fullt afnám hafta?

Þetta er fullt afnám hafta á fyrirtæki, almenning og lífeyrissjóði. Enn verða til staðar takmarkanir á þá sem eru í spákaupmennsku með íslensku krónuna eða eru í hópi aflandskrónueigenda.  

Hvaða áhrif hefur aðgerðin á efnahagslífið eða almenning?

Stærstu áhrifin eru þau að aukið traust á efnahagslífið bætir lánshæfismat og skuldatryggingarálag lækkar. Þetta lækkar vaxtakostnað ríkisins og fjármálafyrirtækja, og þar með heimilanna. Innlendir aðilar geta nú fjárfest erlendis án takmarkana, og lífeyrissjóðir geta það sömuleiðis. 

Af hverju hefur þessum höftum ekki verið aflétt fyrr?

Íslensk stjórnvöld hafa haldið sig við áætlun um losun fjármagnshafta sem kynnt var í júní árið 2015 og fól í sér áfangaskiptar aðgerðir í skipulögðum og varfærnum skrefum. Hvert skref í þessari áætlun hefur verið unnið eins hratt og mögulegt er. 

Hverjir eru það sem líklegir eru til að fara með fjármuni úr landi eftir að þessum höftum er aflétt? Opnar aðgerðin fyrir fjármagnsflótta?

Þróttmikill efnahagsbati, lítil verðbólga, vaxtamunur gagnvart útlöndum og innstreymi fjármagns vegna ferðaþjónustu eru allt þættir sem eru til þess fallnir að draga úr hættu á almennum fjármagnsflótta.  Aðalatriðið er að forsenda fyrir því að höftum er aflétt er að stjórnvöld telja það ekki munu hafa mikil áhrif á gengisstöðugleika. Þrátt fyrir að hömlur hafi að stórum hluta verið afnumdar fyrir nokkru hefur flæði gjaldeyris verið hefur flæði gjaldeyris verið frekar inn í landið en út. 
Aðstæður benda til þess að það sé ekki mikil hætta.

Eru einhverjar samhliða aðgerðir til að stýra áhrifum haftalosunarinnar á gengi krónunnar?

Í fyrsta lagi eru höftin losuð um leið og stór hluti aflandskrónaeigenda hafa tekið tilboði Seðlabankans. Í öðru lagi er verið að skipa nefnd til að endurmeta peningastefnuna. Í þriðja lagi má benda á að í tillögum ríkisstjórnarinnar um fjármálastefnu er lagt til að aðhald í ríkisrekstri verði aukið. Loks má benda á tillögur sérfræðingahóps til viðbragða vegna styrkingar krónunnar , sem birtar voru í febrúar

Hvaða áhrif hefur aðgerðin á vaxtastefnu Seðlabankans?

Seðlabankinn birtir sína vaxtaákvörðun á miðvikudaginn kemur. Þangað til er ekkert hægt að segja um mat bankans á áhrifunum.

Af hverju er gerður sérsamningur við aflandskrónueigendur?

Það er stefna stjórnvalda að það sé nauðsynlegt og tímabært að losa fjármagnshöft. Seðlabankinn stendur að viðskiptunum sem hafa það að markmiði að minnka verulega þá áhættu sem fylgir eignum af þessu tagi enda eru þær taldar kvikari en aðrar krónueignir.

Hverjir eru þessir eigendur?

Hópurinn er stór og fjölbreyttur. Yfirvöld eru bundin trúnaði um einstök viðskipti.

Hvað er það há fjárhæð sem gerður er sérstakur samningur um?

Eigendur um 90 milljarða hafa gengið að tilboði Seðlabankans. Aflandskrónueigendum sem ekki eiga aðild að samkomulaginu verður boðið að eiga viðskipti við Seðlabankann á sama gengi og samkomulagið hljóðar upp á næstu tvær vikurnar. Væntingar standa því til þess að fjárhæð aflandskrónueigna muni lækka enn frekar á næstu vikum. 

Eru aflandskrónueigendur sem ekki vildu taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í fyrrasumar að græða á því að hafa beðið?

Hafa verður í huga að efnahagsaðstæður hafa breyst mikið frá því útboði. Gengi krónunnar hefur styrkst mikið og Seðlabankinn hefur byggt upp mun stærri gjaldeyrisvaraforða en áður hefur þekkst. Jafnframt verður að hafa í huga að þeir aflandskrónueigendur sem tóku þátt í útboðinu í fyrra gátu ekki haft réttmætar væntingar til þess að þeir sem eftir sætu myndu fá verri kjör. Þeir gátu hins vegar haft væntingar til þess að þeir sem eftir stæðu yrðu að bíða þar til búið væri að aflétta höftunum á einstaklinga og fyrirtæki.

Er með þessum samningi við aflandskrónueigendur horfið frá fyrri stefnu stjórnvalda í samskiptum við þá?

Nei, aðgerðin er í samræmi við áætlun stjórnvalda sem kynnt var í júní 2015.

Hvað situr mikið eftir af aflandskrónum, og hverjir eiga þær?

Eftir að samið hefur verið um kaup Seðlabanka Íslands á aflandskrónum að fjárhæð um 90 milljarðar eru enn um 105 milljarðar eftir af aflandskrónueignum. Seðlabankinn mun nú gera öðrum eigendum aflandskróna tilboð með sömu skilmálum, og mun það tilboð standa í 2 vikur. Vitað er af tregðu að minnsta kosti eins þeirra aðila sem eiga verulega eign til þess að ganga til samninga á því verði sem aðrir hafa fallist á. Vonir standa til að verulegur hluti annarra aflandskrónueigenda muni þekkjast boð Seðlabankans.  Meðferð þeirra krónueigna sem eftir sitja á lokuðum reikningum í Seðlabanka Íslands mun verða til skoðunar á næstu misserum.