Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Íbúaþróun

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 24. janúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Landsmönnum hefur fjölgað mjög á undanförnum árum.

Hinn 1. desember síðastliðinn taldi Hagstofa Íslands að íbúafjöldinn næmi 313 þúsund manns. Fjölgunin var 1,8% frá fyrra ári.

Á síðustu fimm árum hefur landsmönnum fjölgað um 25 þúsund manns. Af Evrópulöndum eru það einungis Írland og Kýpur þar sem mannfjölgun hefur verið um það bil jafn mikil og hér á landi.

Fjölgunin hérlendis er til komin af tveimur ástæðum: annars vegar eru fæddir fleiri en dánir og hins vegar hefur verið mikill aðflutningur fólks frá útlöndum. Náttúruleg fjölgun, þ.e. fæddir umfram dána hefur verið álíka hér á landi og á Írlandi, um 0,8% á ári. Hún er næst mest í Frakklandi en þó einungis helmingur af því sem hér er. Í öðrum löndum er hún minni og í sumum fjölmennum ríkjum Vestur-Evrópu og nær öllum löndum Austur-Evrópu deyja fleiri en fæðast um þessar mundir. Árið 2006 fæddust þannig færri en dóu á Ítalíu, í Þýskalandi og Portúgal.

Það eru búferlaflutningar sem er megináhrifaþáttur mannfjöldabreytinga í flestum löndum Evrópu og þar skipa Kýpur, Írland og Ísland efstu sætin og Spánn bætist í hópinn. Í öllum þessum löndum bættu millilandaflutningar yfir 1% við mannfjöldann á árinu 2006. Brottflutningur er mestur frá Austur-Evrópuríkjunum og fer því saman við náttúrulega fækkun. Þarna situr Pólland í þriðja neðsta sæti með brottflutning sem nam 0,3% af íbúafjölda árið 2006.

Hlutfallsleg breyting íbúafjölda eftir landssvæðum 2002-2007

Á Íslandi hafa auk þessa verið miklir flutningar fólks innlands milli landssvæða. Þetta má sjá af myndinni sem sýnir hlutfallslega breytingu íbúafjöldans eftir landsvæðum á síðustu 5 árum. Heildarfjölgunin nam 8,6% á þessum tíma.

Í upphafi tímabilsins sem hér er til umfjöllunar voru framkvæmdir vegna stóriðju ekki hafnar að marki eystra og undir lok árs í fyrra hafði íbúum Austurlands fækkað nokkuð frá því þegar mest var enda framkvæmdatímabilinu nær lokið. Engu að síður nemur fjölgun íbúa Austurlands 20% þótt eitthvað kunni að fækka þar á ný þegar uppbyggingu verður að fullu lokið.

Suðurnesjamönnum hefur hins vegar fjölgað mest allra á þessum tíma, þrátt fyrir að varnarliðið hafi farið af landi brott og margir misst atvinnu af þeim sökum. Höfuðborgarsvæðið, sem löngum hefur vermt efsta sæti landshlutanna í íbúaþróun, bæði hlutfallslega og í beinum tölum, er í fjórða sæti. Íbúum hefur fækkað á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum. Þessi tilfærsla íbúanna í landinu skýrir að hluta af hverju eftirspurn eftir nýjum íbúðum hefur verið meiri en fólksfjölgun á undanförnum árum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum