Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um tekjuafkomu ríkissjóðs

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 17. janúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í endurskoðaðri þjóðhagsspá er ekki gert ráð fyrir miklum breytingum á afkomu ríkissjóðs árið 2008.

Áhrif lækkunar hlutabréfaverðs árið 2007 eru talin hafa takmörkuð áhrif til lækkunar tekjuskatts lögaðila og fjármagnstekjuskatts sem kemur til greiðslu árið 2008. Tekjur af þessum liðum miðast að stærstum hluta við hagnað fyrirtækja og fjármálagjörninga fyrra árs. Þó er viðbúið að þróunin á síðasta ársfjórðungi ársins 2007 hafi einhver áhrif til lækkunar þessara liða.

Á móti má búast við meiri tekjum af tekjuskatti einstaklinga og veltusköttum á yfirstandandi ári í samanburði við fyrri þjóðhagsspá. Ljóst er að mikil óvissa tengist núverandi spám.

Ef aðstæður í fjármála- og atvinnulífi á yfirstandandi ári þróast á verri veg en nú er gert ráð fyrir mun það hafa áhrif til lækkunar á tekjum ríkissjóðs. Jafnframt yrði slík þróun líkleg til að auka útgjöld hans, meðal annars vegna aukinna útgjalda til atvinnuleysisbóta. Það yrði hins vegar í fullu samræmi við það mikilvæga hlutverk opinberra fjármála að hafa sveiflujafnandi áhrif á efnahagsþróunina. Nú er gert ráð fyrir að tekjuafgangur ríkissjóðs verði 17,2 milljarðar króna árið 2008, eða 1,3% af landsframleiðslu. Í haust var spáð að afgangurinn yrði 17,6 milljarðar, eða 1,4% af landsframleiðslu.

Afkoma ríkissjóðs 1998-2009

Frá sjónarhóli hagstjórnar er áætlað að kerfislæg afkoma ríkissjóðs verði aðeins hagstæðari í ár en í fyrri spá. Kerfislægur afgangur ríkissjóðs er áætlaður 3,0% af landsframleiðslu á sl. ári, sem er 0,1% lækkun frá fyrri spá. Kerfislæg afkoma ríkissjóðs er áfram jákvæð árið 2008 en lækkar frá árinu 2007. Afkomubreytingin milli ára gefur til kynna að fjármál ríkissjóðs hafi smávægileg hvetjandi áhrif á landsframleiðsluna árið 2008. Árið 2009, þegar áform stjórnvalda um að mæta samdrætti í þjóðarútgjöldum með aukinni fjárfestingu koma að fullu fram má búast við örlítið neikvæðri kerfislægri afkomu og að áhrif ríkissjóðs verði áfram smávægilega hvetjandi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum