Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vöruviðskipti í desember 2007

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 10. janúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar voru fluttar inn vörur fyrir 34,8 ma.kr. í desember (fob virði) og út fyrir 18,7 ma.kr.

Vöruskiptahallinn var því 16,1 ma.kr. sem er mesti halli í einum mánuði á sl. ári. Það sem helst skýrir þennan mikla halla í desember er að útflutningur dregst töluvert saman. Munar þar mestu um að verðmæti útflutts áls dregst töluvert saman frá nóvember þegar það náði sögulegu hámarki. Verðmæti útfluttra sjávarafurða dregst einnig nokkuð saman en er engu að síður hátt í sögulegu samhengi.

Verðmæti innfluttra vara eykst lítillega á milli mánaða og er mikil aukning í innflutningi á hrá- og rekstrarvörum og er sú aukning til komin vegna mikils innflutnings á áloxíð í mánuðinum. Hvað aðra liði varðar er undirliggjandi samdráttur í innflutningi og er hann einna mest áberandi í hálf-varanlegum og óvaranlegum neysluvörum, en einnig er lítill innflutningur á eldsneyti í desember.

Samkvæmt þessum bráðabirgðatölum fyrir desember er vöruskiptahallinn á sl. ári 100,2 ma.kr. sem er töluverður bati frá árinu 2006 þegar hallinn nam 153,2 ma.kr.

Verðmæti útflutts áls eykst um rétt rúmlega 40% á milli ára og verðmæti útfluttra sjávarafurða um 3%. Einnig er töluverð aukning í verðmæti útflutts kísiljárns en verðmæti útfluttra landbúnaðarafurða dregst aftur á móti saman.

Verðmæti innfluttrar mat- og drykkjarvöru eykst um 12,7% og verðmæti hrá- og rekstrarvara um 5,5%. Verðmæti innfluttra fjárfestingarvara dregst saman um rúm 11% eftir að dregið hefur úr umfangi stóriðjuframkvæmdanna en þessi liður er enn mjög hár í sögulegu samhengi. Verðmæti innfluttra fólksbíla eykst um 8% og önnur flutningatæki til einkanota um rétt rúm 30%. Aðrar ótaldar neysluvörur aukast um 7,1% og ber þar hæst innflutningur á varanlegum neysluvörum eins og heimilistækjum og húsbúnaði sem eykst um 18%.

Staðvirtur vöruinnflutningur án skipa og flugvéla janúar 2003 - desember 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum