Hoppa yfir valmynd
4. desember 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aukning dagvöruveltu

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 29. nóvember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Uppsveifla í efnahagslífinu frá vormánuðum hefur verið meiri en almennt var búist við.

Flestir mælikvarðar staðfesta það, hvort heldur þegar litið er til veltu á fasteignamarkaði, innflutnings eða greiðslukortaveltu, að innlend eftirspurn hefur aukist umtalsvert á árinu. Nýleg gögn um þróun smásöluverslunar benda einnig til að svo sé.

Rannsóknasetur verslunarinnar á Bifröst birtir reglulega visitölu dagvöruveltu. Á myndinni sést hvernig sú vísitala hefur þróast á undanförnum árum. Vísitala dagvöruveltu er á föstu verði, án virðisaukaskatts og árstíðaleiðrétt af fjármálaráðuneytinu. Sú leiðrétting nær þó ekki að jafna út áhrif af mismunandi tímasetningu páska og hvort velta vegna verslunarmannahelgar er í júlí eða ágúst.

Vísitala dagvöruvelti, fast verð, árstíðaleiðrétt

Dagvöruvelta hefur farið jafnt vaxandi á undanförnum árum og kemur þar bæði til aukinn kaupmáttur landsmanna og fjölgun íbúa. Jafnframt má sjá á myndinni að það tók að draga úr vextinum árið 2005 og fram á árið 2007 en þá varð mikill kippur upp á við. Jafnframt sýnir myndin að sú uppsveifla sem átti sér stað í dagvöruveltu þá hefur ekki gengið til baka.

Í mars var lægra þrep virðisaukaskattsins lækkað úr 14% í 7%, jafnframt því sem ýmsar vörur sem áður höfðu borið 24,5% skatt voru færðar í neðri flokkinn og vörugjöld voru lækkuð á matvælum. Svo virðist sem landsmenn hafi notað það svigrúm sem skattalækkunin myndaði til þess meðal annars að bæta við dagvöruinnkaup sín. Einnig er líklegt að það hafi haft áhrif til að auka neyslu að óróleiki á fjármálamarkaði sem einkenndi árið 2006 hafði fjarað út í ársbyrjun 2007 og gengi krónunnar og hlutabréfa styrkst á ný.

Þá benda upplýsingar um innheimtu virðisaukaskatts sem fjallað er um í grein hér að framan um afkomu ríkissjóðs til aukinnar neyslu en tekjur af virðisaukaskatti hafa aukist umtalsvert þrátt fyrir lækkun skatthlutfallsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum