Hoppa yfir valmynd
31. október 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mikil umsvif á vinnumarkaði

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 25. október 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Hagstofan birti nýlega niðurstöður vinnumarkaðskönnunar fyrir 3ja ársfjórðung þessa árs.

Umsvif á vinnumarkaði undanfarin ár hafa aldrei verið meiri. Enda þótt atvinnuþátttaka teljist hafa minnkað um 0,1% hefur hlutfall starfandi af mannfjölda á vinnualdri aldrei verið hærra, eða 82% á síðasta ársfjórðungi.

Á vinnumarkaði er áberandi fjölgun fólks á starfsaldri og þar er skýringin fyrst og fremst mikill aðflutningur fólks frá útlöndum. Fjöldi landsmanna á starfsaldri telst nú tæplega 220.000 manns. Á 3ja ársfjórðungi ársins 2007 hafði starfandi fjölgað um 7.600 frá sama ársfjórðungi í fyrra, en það er 3,6% aukning. Fjölgun starfandi nemur því nærri einu starfi á hverjum klukkutíma ársins. Í mælingu Hagstofunnar teljast einungis 800 manns af aukningunni hafa komið úr hópi atvinnulausra.

Vinnutími er venjulega lengstur á 3ja ársfjórðungi og það er hann einnig nú; telst vera 43,2 stundir að meðaltali á viku. Hann hefur hins vegar dregist saman frá sama ársfjórðungi fyrra árs um 0,9 stundir. Svo mikil breyting milli ára er sjaldgæf og einungis einu sinni áður hefur mælst meiri breyting en þetta. Breytingin á vinnutíma er langmest hjá aldurshópi 55-74 ára þar sem meðalvinnutími fer úr 43,8 stundum í fyrra í 42,1 í ár. Atvinnuþátttaka þessa hóps er hins vegar meiri en í fyrra og atvinnuleysi minna.

Vinnumagn, þ.e. margfeldi fjölda starfandi og vinnustunda, er talin haldgóð mæling á vinnuframlagi. Á meðfylgjandi mynd sést að ársvöxtur vinnumagns er enn verulegur þótt hann hafi farið mjög minnkandi síðustu tvo ársfjórðunga frá því hámarki sem náðist í fyrra þegar ársvöxtur vinnumagns nam 6,7% á fjórða ársfjórðungi. Ríflega tveggja prósenta ársvöxtur vinnumagns eins og nú mælist á 3ja ársfjórðungi telst víða ásættanlegur grundvöllur ríflegs hagvaxtar ef hann fer saman við framleiðniaukningu vinnuafls.

Ársvöxtur vinnumagns



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum