Hoppa yfir valmynd
31. október 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 25. október 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans var haldinn í Washington DC dagana 20-22. október sl.

Á fundinum var birt skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um horfur i alþjóðlegum efnahagsmálum. Þrátt fyrir umtalsverðan óróleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum í ár eru hagvaxtarhorfur í heimsbúskapnum enn taldar góðar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir nú að hagvöxtur í heiminum verði 5,2% í ár en 4,8% árið 2008. Ástæðuna fyrir hægari heimshagvexti má að mestu rekja til verra ástands á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum.

Spáð er að hagvöxtur í þróuðum ríkjum verði að meðaltali 2,5% árið 2007 og 2,2% árið 2008. Þar af er spáð að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði 1,9% bæði árin 2007 og 2008. Gert er ráð fyrir svipuðum hagvexti í Japan en aðeins meiri hagvexti á Evrusvæðinu, eða 2,5% árið 2007 og 2,1% árið 2008. Í öðrum þróuðum ríkjum er spáð 3,7% hagvexti árið 2007 og 3,1% árið 2008. Gert er ráð fyrir mun meiri hagvexti í nýmarkaðs- og þróunarríkjum, eða 8,1% árið 2007 og 7,4% árið 2008. Þegar tekið er tillit til fólksfjölgunar er spáð að hagvöxtur á mann í þróuðum ríkjum verði um 2% en í nýmarkaðs- og þróunarríkjum verði hann ríflega 6%. Af heimsframleiðslu ársins 2006 áttu 52% sér stað í þróuðum ríkjum en 48% annarsstaðar.

Margir áhættuþættir eru taldir vera til staðar sem áhrif geta haft til að breyta niðurstöðunni. Á meðfylgjandi mynd má sjá mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á helstu áhættuþáttum og breytingum á hverjum áhættuþætti fyrir sig frá því í vorspá. Athygli vekur að nú er gert ráð fyrir því að hagvöxtur geti orðið minni árið 2008 en gert var ráð fyrir í meginspá Alþjóðagaldeyrissjóðsins í apríl síðastliðnum.

Þróun alþjóðlegra áhættuþátta



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum