Hoppa yfir valmynd
22. október 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Búferlaflutningar milli landa leiðandi í mannfjöldaþróun

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 18. október 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Nýlegar tölur Hagstofunnar sýna að 2/3 fólksfjölgunar í landinu á fyrri helmingi ársins voru vegna búferlaflutninga milli landa.

Tölur liggja fyrir hjá Hagstofunni um mannfjöldann og þróun hans til loka júní og nýjustu tölur um búferlaflutninga milli landsvæða innanlands og gagnvart útlöndum ná til loka september. Á fyrri helmingi ársins fjölgaði íbúum landsins um 3.700 manns, eða 1,2%. Á sama tíma var fjöldi aðfluttra umfram brottflutta af landinu 2.561 en náttúruleg fjölgun var 1.139 manns, þ.e. fæddir umfram dána.

Brottfluttir frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar voru 234 fleiri en aðfluttir á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Aðfluttir frá útlöndum voru hins vegar 2.343 fleiri en brottfluttir og því fjölgaði á höfuðborgarsvæðinu um 2.109 manns vegna flutninga. Þess ber að gæta að höfuðborgarsvæðið sem atvinnusvæði er að stækka sem sést af miklum fólksflutningum til Suðurnesja og þeirra byggða Suðurlands sem næst liggja hinu skilgreinda höfuðborgarsvæði.

Það landsvæði sem var öflugast um aðdrætti í innanlandsflutningum á fyrstu þremur fjórðungum ársins voru Suðurnes þar sem íbúum fjölgaði um 769 þeirra vegna. Í öðrum landshlutum fækkaði (sjá mynd). Í öllum landshlutum fjölgaði hins vegar vegna millilandaflutninga nema á Austurlandi. Einnig þar voru Suðurnes í fararbroddi sé höfuðborgarsvæðið undanskilið. Á tveimur landsvæðum fækkaði fólki af völdum búferlaflutninga í heild, á Vestfjörðum og Austurlandi.

Búferlaflutningar á fyrri hluta 2007, aðfluttir umfram brottflutta

Íbúaþróunin á Suðurnesjum vekur athygli fyrir þær sakir hversu mikið aðdráttarafl svæðið hefur, þrátt fyrir að herstöðin hafi verið lögð niður og enn sé atvinnuleysi talsvert. Jákvæð íbúaþróun á Austurlandi, bæði í ár og í fyrra stafar af aðflutningi frá útlöndum, þrátt fyrir að aðflutningur innanlands hafi aukist nokkuð og heldur dregið úr brottflutningi á undanförnum árum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum