Hoppa yfir valmynd
19. október 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áhrif alþjóðavæðingar á innlenda eftirspurn

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 18. október 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í rammagrein 1 í nýrri þjóðhagsskýrslu fjármálaráðuneytisins er fjallað um helstu ástæður þess að innlend eftirspurn, hagvöxtur og tekjur ríkissjóðs hafa verið umfram væntingar undanfarin ár.

Í stuttu máli má segja að íslenskt efnahagslíf hafi tekið stakkaskiptum á undanförnum árum í tengslum við víðtækar skipulagsbreytingar og aukna þátttöku í alþjóðlegu efnahagsstarfi. Uppbygging atvinnugreina sem ekki voru eins áberandi áður hefur verið ör á síðustu árum.

Þrátt fyrir mikið aðhald í efnahagsstjórn á Íslandi, með því mesta á OECD-svæðinu undanfarin ár, hefur uppgangur efnahagslífsins verið mikill og honum jafnframt fylgt meira ójafnvægi í formi verðbólgu og viðskiptahalla en búist var við.

Undanfarna áratugi hefur markvisst verið dregið úr viðskiptahindrunum í alþjóðahagkerfinu sem hefur aukið hagvöxt í heiminum. Stækkun markaða og breytingar á framleiðslumynstri heimsins hafa leitt til aukinna alþjóðaviðskipta og það skapað svigrúm fyrir atvinnulíf einstakra landa til að sérhæfa sig í auknum mæli. Hagkvæmari nýting framleiðsluþátta hefur stuðlað að aukinni framleiðslu, fjárfestingu og arðsemi fyrirtækja. Í kjölfarið hafa hlutabréf út um allan heim hækkað í verði og framboð á ódýrara fjármagni stóraukist á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Til viðbótar hefur þessi þróun byggt á bylgju tækniframfara sem leyst hefur úr læðingi margvíslega krafta og skapað tækifæri fyrir framþróun á mörgum sviðum. Samhliða hafa framleiðni og launatekjur aukist, ekki síst í þekkingariðnaði. Ásamt bættu aðgengi einstaklinga að ódýrara lánsfjármagni hefur aukinn kaupmáttur víða leitt til hækkunar fasteignaverðs. Allt hefur það lagst á eitt við að auka eftirspurn og hagvöxt.

Meðfylgjandi tafla sýnir þróun eignaverðs í nokkrum löndum. Af ofangreindu má vera ljóst að þróun efnahagsmála á Íslandi undanfarin ár hefur verið nátengd hinni alþjóðlegu.


Þróun eignaverðs í nokkrum löndum 2003-2006

Breyting frá byrjun árs 2003 til loka árs 2006 (%)

Land
Íbúðaverð
Hlutabréfaverð
Ástralía
49,2
89,7
Bandaríkin
57,0
49,4
Bretland
54,9
57,9
Frakkland
73,8
80,9
Ísland
74,6
316,2
Noregur
46,7
317,5
Nýja-Sjáland
88,6
107,9
Heimild: EcoWin.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum