Hoppa yfir valmynd
18. september 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkisaðstoð vegna þjónustu í almannaþágu

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 13. september 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í 61. gr. samningsins um evrópska efnahagssvæðið kemur fram sú meginregla að óheimilt er að veita ríkisaðstoð sem er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum, eða framleiðslu ákveðinna vara, að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila.

Í sömu grein er jafnframt fjallað um undanþágur frá meginreglunni. Til fyllingar þessu ákvæði gefur Eftirlitsstofnun EFTA (í kjölfar stofnana Evrópusambandsins) út leiðbeinandi reglur um form og efnisreglur í tengslum við ríkisaðstoð. Er þessum leiðbeinandi reglum skipt upp í hina ýmsu kafla og tekur hver kafli breytingum eftir því sem þörf er metin á. Þannig er í hinum leiðbeinandi reglum t.d. að finna sér kafla um ríkisábyrgðir, byggðaaðstoð, aðstoð til skipasmíða, sjóflutninga o.s.frv.

Nýverið var gefinn út nýr kafli sem myndar hluta áðurnefndra leiðbeiningarreglna og snýr að ríkisaðstoð vegna þjónustu í almannaþágu (?state aid in the form of public service compensation?). Stofnanir Evrópusambandsins hafa um nokkurn tíma haft til skoðunar hvort líta beri á opinberan fjárstuðning við aðila sem falið er að veita þjónustu í almannaþágu sem tilkynningarskylda ríkisaðstoð í skilningi 61. gr. samningsins um evrópska efnahagssvæðið. Í kjölfar dóma frá Evrópudómstólnum (t.d. Altmark C-280/00) er almennt litið svo á að fjögur skilyrði séu fyrir því að ekki sé um ólögmæta ríkisaðstoð að ræða í slíkum tilfellum. Í fyrsta lagi verður viðkomandi aðili í raun að hafa með höndum skilgreinda starfsemi sem lýtur opinberum kvöðum. Í öðru lagi verður ríkisaðstoðin að vera fyrirfram ákveðin og skilgreind á gagnsæjan hátt. Í þriðja lagi má ríkisaðstoðin ekki vera meiri en sem nemur kostnaði fyrirtækisins við að veita hina opinberu þjónustu sem því hefur verið falið. Í fjórða lagi verður upphæð ríkisaðstoðarinnar, sé aðilinn ekki valinn að undangengnu útboði, að taka mið af kostnaði sambærilegra fyrirtækja og verkefna.

Aðeins að þessum fjórum skilyrðum uppfylltum er hægt að líta svo á að hinn opinberi fjárstuðningur til viðkomandi aðila feli ekki í sér ívilnun á kostnað annarra fyrirtækja og þar með sé tilkynningarskyld ríkisaðstoð. Í kjölfar dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins hefur Eftirlitsstofnun EFTA því eins og áður segir gefið út leiðbeinandi reglur um ríkisaðstoð vegna þjónustu í almannaþágu. Samkvæmt reglunum verður öll viðvarandi aðstoð frá og með 20. júlí sl., á þessu sviði, að nýrri aðstoð sem ber að tilkynna um. Með viðvarandi aðstoð er átt við aðstoð sem var við lýði þegar viðkomandi aðildarríki gerðist aðili að evrópska efnahagssvæðinu en hugtakið ný aðstoð nær til ríkisaðstoðar sem er síðar til komin. Í tilfelli nýrrar aðstoðar getur aðildarríkjum verið gert skylt að endurkrefja ólögmæta ríkisaðstoð aftur í tímann, en ef um viðvarandi aðstoð er að ræða er einvörðungu um leiðréttingu til framtíðar að ræða.

Meðal aðildarríkja evrópska efnahagssvæðisins er nokkuð deilt um það hversu langt þessar reglur nái og hvaða áhrif þær hafi í raun á þjónustu í almannaþágu og jafnframt hvað teljist vera þjónusta í almannaþágu. Sem dæmi um það má nefna að fyrir EFTA dómstólnum liggur nú mál sem snýr að því hvort stuðningur norska ríkisins við opinbera leikskóla kunni að fela í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Í því máli hefur einkarekinn leikskóli (?Private Barnehagers Landsforbund?) kært ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA frá 27. febrúar 2007 sem taldi slíkan stuðning ekki falla undir 61. gr. EES samningsins um tilkynningarskylda ríkisaðstoð. Er fyrirséð að á næstu misserum muni fleiri mál af þessum toga verða tekin til meðferðar bæði hjá Evrópudómstólnum og EFTA dómstólnum og þar með varpa skýrara ljósi á hugtakið þjónusta í almannaþágu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum