Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Af vettvangi tvísköttunarmála

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 23. ágúst 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Ýmislegt er á döfinni á sviði samningagerðar um tvísköttunarmál um þessar mundir.

Fyrr í þessari viku var haldinn fundur í vinnuhópi á vegum norræna ráðherraráðsins, en hópurinn hefur það hlutverk að gera upplýsingaskiptasamninga á sviði skatta við ýmsar þekktar skattavinjar, þ.á.m. Ermasundseyjarnar Guernsey, Jersey og Mön.

Um er að ræða samnorrænt verkefni með það að markmiði að samhæfa og styrkja viðleitni Norðurlandanna í baráttunni gegn alþjóðlegum skattaflótta. Formlegar viðræður eru þegar hafnar við Mön og Jersey og sömuleiðis skattavinjarnar Arúba og Hollensku Antillaeyjar. Jafnvel er búist við undirritun upplýsingaskiptasamninga milli eyjunnar Manar og Norðurlandanna á fundi fjármálaráðherra Norðurlanda í lok október nk.

Rétt er að geta þess að hvert Norðurlandanna gerir sjálfstæðan tvíhliða upplýsingaskiptasamning við eyjuna Mön, þó svo að samningarnir séu samhljóða að efnisinnihaldi.

Þá er nýafstaðinn fundur um norræna tvísköttunarsamninginn sem er frá árinu 1996. Fyrir fundinum lágu ýmsar tillögur varðandi breytingar á einstökum ákvæðum samningsins í formi bókunar við hann. Meginbreytingin skv. þessum tillögum varðar 18. gr. samningsins sem fjallar um skattlagningu eftirlauna.

Samkvæmt gildandi samningi er skattlagning eftirlauna alfarið í höndum greiðsluríkis þeirra, en í tillögunni sem fyrir liggur er gert ráð að skipta megi skattlagningarréttinum milli greiðsluríkis eftirlaunanna og búseturíkis eftirlaunaþegans. Þess má geta að meginregla þessa ákvæðis í samningsfyrirmynd OECD er að búseturíki eftirlaunaþegans eigi alfarið skattlagningarréttinn, en þróunin í aðildarríkjum OECD hefur hins vegar verið sú að fara þá leið sem nú er lögð til gagnvart norræna tvísköttunarsamningnum. Stefnt er að undirritun umræddrar bókunar á áðurnefndum fundi fjármálaráðherra Norðurlanda í lok október.

Auk þessa eru framundan áframhaldandi samningaviðræður við Slóveníu, en þær viðræður hófust á árinu 2004. Vonast er til að þeirri samningagerð ljúki á næsta fundi sem haldinn verður í Reykjavík í fyrstu viku september. Þá munu í annarri viku september hefjast formlegar samningaviðræður við Búlgaríu um gerð tvísköttunarsamnings milli landanna. Að lokum má geta þess að undanfarna mánuði hefur verið unnið að íslenskri þýðingu á endurskoðuðum tvísköttunarsamningi Íslands við Bandaríkin.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum