Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Breytingar á fjölda fyrirtækja og félaga í eigu ríkisins

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 16. ágúst 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Allt frá gildistöku fjárreiðulaganna árið 1998 hafa ríkisaðilar verið flokkaðir í fimm hópa, A, B, C, D og E-hluta ríkissjóðs, sem taka mið af því hvernig viðkomandi starfsemi er fjármögnuð.

Skiptingin er með þeim hætti að til A-hluta ríkissjóðs teljast allar hinar hefðbundnu ríkisstofnanir, ráðuneytin og æðsta stjórnsýsla ríkisins. Þessi starfsemi er að meginhluta til fjármögnuð með skattfé. Til B-hluta teljast ríkisfyrirtæki sem ekki eru hlutafélög en byggja afkomu sína á sölu til almennings og fyrirtækja. Til C-hluta teljast lánastofnanir ríkisins aðrar en bankar. Til D-hluta teljast fjármálastofnanir ríkisins, s.s. Seðlabankinn. Loks er í E-hluta getið um öll hluta- og sameignarfélög sem eru í meirihluta eigu ríkisins.

Í fjölda talið er A-hluti ríkisreiknings yfirgnæfandi, alls 487 fjárlagaliðir. B-hluti samanstendur af 9 ríkisfyrirtækjum, í C-hluta eru 5 stofnanir og sjóðir, í D-hluta eru 3 fyrirtæki og í E-hluta eru samtals 19 hlutafélög og sameignarfélög í meirihluta eigu ríkisins.

Verulegar breytingar hafa orðið á umfangi ríkisrekstrar, þess sem stendur utan A-hluta ríkissjóðs á undanförnum árum vegna einkavæðingar og niðurlagningar stofnana á sl. 10 árum. Tilfærslur milli flokka hafa einnig haft áhrif. Fyrir gildistöku fjárreiðulaganna kom umfang ríkisins ekki nema að hluta til fram í fjárlögum og ríkisreikningi en þá var ekki getið um fjölda eða umfang hlutafélaga í eigu ríkisins.

Þegar þróunin er skoðuð yfir tiltölulega langt tímabil kemur í ljós að verulegar breytingar hafa átt sér stað í rekstri ríkisins. Í fyrra voru samtals 17 ríkisaðilar í B-, C, og D-hluta ríkisins. Til samanburðar voru 73 ríkisaðilar í þáverandi B-hluta árið 1991. Af þeim eru 25 sem ýmist er nú búið að einkavæða eða leggja niður. Að umfangi er hér um ólíka aðila að ræða, síldarverksmiðjur, lyfjaverslun og sementsverksmiðja hafa verið einkavædd, en skipaútgerð, sölunefnd varnarliðseigna og tilraunastöðvar í landbúnaði sem hafa verið lagðar niður, svo einhver dæmi séu nefnd. Þá hafa 27 liðir færst úr B-hluta yfir í A-hluta ríkisins. Hér er oft um ýmis konar sjóði að ræða, auk fyrirtækja sem eingöngu sækja tekjur sínar til annarra ríkisaðila.

Af ofangreindu má ráða að ríkisfyrirtækjum og fjármálastofnunum ríkisins hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Síðan núverandi flokkun var tekin upp árið 1998 hafa þrjú ríkisfyrirtæki verið lögð niður (Lyfjabúr Háskólans, Fríhöfnin, Umsýslustofnun varnarmála) og tvö flokkast nú með öðrum hætti. Við bætist félagið Íslenskar orkurannsóknir sem er eina viðbótin í ríkisfyrirtækjaflokkinn um árabil. Sjóðum, lánastofnunum og fjármálafyrirtækjum hefur fækkað um 8, þ.a. hafa 4 sjóðir (Lánasjóður landbúnaðarins, Þróunarsjóður sjávarútvegsins, Framkvæmdasjóður Íslands og Ferðamálasjóður) verið lagðir niður en tveir sjóðir sameinast þeim þriðja undir merkjum Íbúðalánasjóðs, auk þess sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Hafnarbótasjóður teljast nú til A-hluta ríkissjóðs.

Hluta- og sameignarfélögum í meirihluta eigu ríkissjóðs (E-hluta) hefur reyndar fjölgað um þrjú frá árinu 1998. Í árslok 1998 var langumfangsmesti ríkisreksturinn hjá Landsvirkjun, Landssímanum og viðskiptabönkunum. Eigið fé allra félaganna nam 74,1 milljarði króna í árslok 1998. Félögin sem eru í eigu ríksins í árslok 2006 eru með eigið fé samtals að fjárhæð 86,6 milljarða króna og jafngildir það meira en 20 milljarða raunlækkun á tímabilinu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum