Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Spár um gengisþróun krónunnar

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 16. ágúst 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Gengi íslensku krónunnar hefur ráðist á gjaldeyrismarkaði frá mars 2001 þegar Seðlabankinn tók upp verðbólgumarkmið með stýrivexti að stjórntæki.

Á haustmánuðum 2005 hófu erlendir aðilar útgáfu skuldabréfa í íslenskum krónum. Við það varð gengisþróunin nátengdari vaxtamun við útlönd og skilyrðum á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Þeirri breytingu hefur fylgt aukin fylgni krónunnar við gengisbreytingar annarra ,,hávaxtamynta? þróaðra ríkja, s.s. nýsjálenska og ástralska dalsins, en einnig mynta nýmarkaðsríkja.

Gengisvísitala og spár

Myndin sýnir þróun gengisvísitölunnar frá 2004 ásamt októberspám fjármálaráðuneytisins um gengisþróun næstu ára. Almennt séð er talinn ógerningur að spá fyrir um gengi gjaldmiðla með einhverri vissu. Spár ráðuneytisins hafa um nokkurt skeið gert ráð fyrir veikingu á gengi krónunnar, þ.e. til hækkunar gengisvísitölunnar, m.a. á grundvelli væntrar þróunar greiðslujöfnuðar og vaxtamunar við útlönd.

Frá haustmánuðum 2005 hefur útgáfa erlendra aðila á skuldabréfum í krónum leitt til mun meiri styrkingar á gengi krónunnar en spáð var. Á móti hefur órói á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, á fyrri hluta ársins 2006 og aftur nýverið, haft áhrif til að veikja gengi krónunnar og annarra gjaldmiðla. Gert er ráð fyrir að óróleikinn sem nú einkennir alþjóðlega fjármálamarkaði gangi niður þegar óvissu um útlánatöp í áhættumeiri íbúðafjárfestingum í Bandaríkjunum hefur verið eytt.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum