Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýtt rafrænt markaðstorg fyrir ríkið

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 28. júní 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fjármálaráðherra hefur gert samning við Vörusjá ehf. um rekstur og þróun nýs rafræns markaðstorgs fyrir stofnanir og fyrirtæki ríkisins. Að Vörusjá standa fyrirtækin EC Software ehf., Spron, Árvakur hf. og Íslandspóstur hf. Hið nýja torg mun leysa af hólmi Rafrænt markaðstorg ríkisins (RMR) sem verið hafði starfrækt frá júní 2002. Á því torgi voru um 150 ríkisstofnanir og um 70 birgjar í viðskiptum.

Á rafrænu markaðstorgi geta opinberar stofnanir og fyrirtæki keypt með rafrænum hætti á vefnum vörur frá birgjum á grundvelli rammasamninga Ríkiskaupa, ásamt því að afla sér helstu upplýsinga um kjör og afslætti í samningunum, sem einnig munu verða aðgengileg á torginu. Vinna við tengingar birgja og kaupenda við torgið hefst föstudaginn, 29. júní nk.

Ýmsar nýjungar verða kynntar á hinu nýja markaðstorgi Vörusjár. Það mun jafnframt verða sveigjanlegra og auðveldara í notkun en RMR. Torgið býður birgjum einnig upp á þann möguleika að birta öll viðeigandi tilboð á vöru og þjónustu sérstaklega. Í framhaldinu stendur til að útvíkka vöruúrvalið hjá rammasamningsbirgjum auk þess sem aðrir birgjar og þjónustuaðilar munu smám saman geta nýtt sér þessa nýju leið til að koma sinni vöru og þjónustu á framfæri, þegar torgið kemst í almenna notkun.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum