Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Staða efnahagsmála á Norðurlöndunum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 28. júní 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fundur fjármálaráðherra Norðurlandanna var haldinn í Helsinki þ. 19. júní sl. og sat Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, fundinn fyrir Íslands hönd. Á fundinum kom fram að staða efnahagsmála á Norðurlöndum er eindæma góð, þótt munur sé á stöðu og horfum einstakra landa. Hagvöxtur á Norðurlöndunum var mikill í fyrra og hefur sjaldan verið meiri. Árið 2006 var vegið meðaltal hagvaxtar ríkjanna nálægt 4,5%. Hagvöxturinn var mestur í Finnlandi, eða 5,5%. Í ?fastalands? Noregi (að olíuframleiðslu undanskilinni) var hagvöxturinn 4,6%. í Svíþjóð var hagvöxturinn litlu minni, eða 4,4%. Í Danmörku var hagvöxturinn 3,2% en þar er skortur á vinnuafli talinn vera farinn að halda aftur af hagvexti. Sem kunnugt er var hagvöxtur hér á landi 2,6% í fyrra eftir að hafa slegið Norðurlandamet árin tvö þar á undan. Hagvöxturinn hefur almennt verið drifinn
áfram af fjárfestingu og einkaneyslu en í Svíþjóð og Finnlandi hefur vöxtur útflutningsframleiðslu verið leiðandi í þróuninni.

Atvinnuleysi sem hlutfall af vinnuafli minnkaði í fyrra en er almennt mun hærra en á Íslandi. Í Svíþjóð var atvinnuleysi 8,4% af vinnuafli í fyrra ef með eru taldir þeir sem eru þátttakendur í vinnumarkaðsaðgerðum á vegum hins opinbera. Eitt af meginmarkmiðum nýrrar ríkisstjórnar er að auka atvinnu og áætlað að atvinnuleysishlutfallið þar lækki í 6,7% í ár. Í Finnlandi var atvinnuleysi 7,7% af vinnuafli í fyrra en áætlað er að það lækki í 7,2% í ár. Í Noregi var atvinnuleysi 3,4% og þar er farið að bera á vinnuaflsskorti þrátt fyrir töluverðan innflutning vinnuafls. Í Danmörku var atvinnuleysishlutfallið 4,3% í fyrra og stefnir áfram niður á við. Mjög langt er síðan atvinnuleysi þar í landi hefur verið svo lágt. Farið er að bera á skorti vinnuafls í sumum greinum þótt erlent vinnuafl sé flutt inn í töluverðum mæli. Nýgerðir kjarasamningar hafa þó ekki leitt til mikillar hækkunar kaupgjalds, en verðbólga
er almennt séð lítil. Af þessu má vera ljóst að það skiptir í tvö horn á Norðurlöndunum í vinnumarkaðsmálum þar sem Svíþjóð og Finnland búa við umframframboð á vinnuafli en í hinum þrem löndunum er skortur á fólki. Raunar hefur gott atvinnuástand í Danmörku
og Noregi orðið til þess að Svíar hafa flutt þangað í auknum mæli til að vinna. Hvergi er ástand á vinnumarkaði jafn þanið og á Íslandi, en atvinnuleysið hér mældist 1,3% af vinnuafli í fyrra, þótt spáð sé að stefni í hærra atvinnuleysisstig á komandi misserum.

Ísland sker sig einnig úr hópi hinna Norðurlandanna að öðru leyti. Í fyrra var verðbólga hér á landi 6,8% en er spáð að verða 3,7% í ár. Utan Íslands var verðbólga mest í Noregi, eða 2,5%, en annars staðar var hún á bilinu 1,3 - 1,9%. Viðskiptajöfnuður var jákvæður
á hinum Norðurlöndunum í fyrra þegar mikill viðskiptahalli myndaðist hér á landi. Að stórum hluta tengist sú þróun örri uppbyggingu atvinnulífsins. Á Íslandi var afkoma hins opinbera á Ísland 4,6% af landsframleiðslu í fyrra. Það var hæsta hlutfall á Norðurlöndum ef Noregur er undanskilinn en afkoma olíusjóðsins, sem nú nefnist lífeyrissjóður Noregs,
er með í tölum um afkomu hins opinbera. Á öðrum Norðurlöndum var afkoma hins opinbera
einnig jákvæð en til samanburðar má geta þess að á evrusvæðinu í heild er hún neikvæð og mun halda áfram að vera það á næstu árum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum