Hoppa yfir valmynd
29. júní 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sameiginlegur skattgrunnur fyrirtækja í Evrópusambandinu

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 28. júní 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Þann 5. apríl 2006 kynnti framkvæmdastjórn ESB fyrstu áfangaskýrslu sína um sameiginlegan skattgrunn fyrirtækja (Common Consolidated Corporate Tax Base). Í henni er fjallað um þá hugmynd að gera fyrirtækjum
með starfsemi víða á innri markaðinum kleift að fylgja einum skattareglum í stað þess að fylgja reglum allra þeirra ríkja sem þau starfa innan. Gert er ráð fyrir að viðkomandi fyrirtæki geti á þennan hátt meðal annars nýtt sér tap á móti hagnaði af rekstri innan alls innri markaðarins, forðast tvísköttun og komið í veg fyrir vandamál
sem tengjast ákvörðun um verð í viðskiptum milli eininga innan fyrirtækjasamstæðna. Tilgangurinn er að gera rekstur fyrirtækja hagkvæmari, bæta samkeppnisstöðu þeirra, auka samkeppni á innri markaði og draga úr kostnaði við bæði almenna stjórnun og skriffinnsku tengda skattamálum. Framkvæmdastjórnin tók fram í fréttatilkynningu, þegar skýrslan var kynnt, að ekki væri lagt til að afnema sjálfsákvörðunarrétt aðildarríkjanna varðandi skatttekjur af fyrirtækjum. Ríkin myndu ákveða skattprósenturnar áfram. Jafnframt sagðist hún stefna að því að leggja fram tillögur um löggjöf um sameiginlegan skattgrunn á árinu 2008.


Framkvæmdastjórnin hefur talað fyrir þeirri hugmynd að fyrirtækin fái að velja á milli kerfa. Þannig verði sameiginlegur skattgrunnur valkostur en ekki skylda og skatttekjum af þeim sem velja samræmdan
skattgrunn verði skipt réttlátlega milli ríkjanna á grundvelli samkomulags þeirra á milli. Skoðanir eru skiptar um framkomnar hugmyndir. Þær njóta almennt fylgis hjá talsmönnum fyrirtækja, en mörg ríki hafa lýst yfir efasemdum eða andstöðu. Margir sjá kosti í því að fyrirtæki, sem uppfylla ákveðin skilyrði, geti valið milli kerfa en aðrir segja að tvö kerfi í hverju landi auki kostnað og flækjustig bæði hjá fyrirtækjum og skattyfirvöldum, auk þess að leiða til samkeppni milli núverandi skattkerfa í ríkjunum og hins nýja kerfis. Þeir sem eru á móti
telja hæpið að sameiginlegur skattagrunnur auki samkeppnishæfni og draga bæði í efa þau sjónarmið sem hugmyndirnar byggja og hagkvæmni fyrirkomulagsins.


Framkvæmdastjórnin sendi frá sér áfangaskýrslu númer tvö í röðinni um sameiginlegan skattgrunn þann 2. maí 2007 og var málið síðan rætt á 2804 fundi efnahags- og fjármálaráðherra ríkjanna (ECOFIN) 5. júní sl. Mörgum spurningum er enn ósvarað því til dæmis liggur ekki fyrir hvernig framkvæmdin yrði. Ein hugmyndin er sú að þar til bært stjórnvald í því ríki sem fyrirtæki hefur höfuðstöðvar úrskurði hvort það uppfyllir skilyrði. Skattyfirvöld í ríkinu annist skattlagninguna í samvinnu við skattyfirvöld í þeim ríkjum sem útibú eða dótturfyrirtækin eru. Sameiginleg yfirskattanefnd ríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar úrskurðaði í deilum en finnist ekki lausn þannig gæti þurft að taka mál upp í Ráðherraráðinu, framkvæmdastjórnin að úrskurða
eða jafnvel skjóta því til skattadeildar sem stofnuð yrði við Evrópudómstólinn. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdastjórnin kynni sérfræðingum ríkjanna drög að tilskipun um samræmdan skattstofn í september
2007, en talið ólíklegt að endanleg tillaga verði kynnt fyrr en eftir mitt ár 2008.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum