Hoppa yfir valmynd
10. maí 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Eiginleikar tekjuskattskerfisins

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 3. maí 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Tekjuskattskerfinu var gerbreytt þegar staðgreiðsla skatta af almennum tekjum var tekin upp árið 1988 og síðan þá hafa einungis verið gerðar minni háttar breytingar á því þótt skatthlutföllum hafi verið breytt og hátekjuskattur lagður niður.

Tekjuskattar eru nú tveir: tekjuskattur sem rennur í ríkissjóð og útsvar sem rennur í viðkomandi sveitarsjóð.

Skattstofninn sem þessir skattar eru reiknaðir af eru allar tekjur aðrar en fjármagnstekjur sem framteljandi hefur með þeim eina frádrætti að heimilt er að draga frá skattstofninum hlut launþega í iðgjaldi í lífeyrissjóð, bæði almennt framlag sem er 4% af tekjum og allt að 4% til viðbótar í frjálsan lífeyrissparnað. Skattlagningu þessara frádráttarliða er frestað þar til lífeyrir er greiddur út.

Í ár er tekjuskattshlutfall 22,75% og meðalútsvarshlutfall 12,97% eða samtals 35,72%. Skatturinn reiknast þannig að þegar skatthlutfallið hefur verið reiknað af skattstofni er dreginn frá persónuafsláttur, afsláttur frá skattinum sjálfum og þannig fæst út tekjuskattur og útsvar sem greiða skal.

Persónuafsláttur í ár er 32.150 kr á mánuði eða 385.800 kr á ári. Samkvæmt þessu greiðir launþegi engan skatt fyrr en hann hefur skattstofn sem er 90 þúsund krónur á mánuði, eða 1.080 þús kr. á ári. Þetta eru hin svo kölluðu skattleysismörk en þau eru samspil skatthlutfallsins annars vegar og persónuafsláttarins hins vegar.

Vegna frádráttar lífeyrissjóðsiðgjalda gætu tekjur numið allt að tæpum 98 þúsund krónur á mánuði áður en farið er að greiða skatt. Með því skattkerfi sem hér er við lýði er skattbyrði, þ.e. hlutfall skatta af tekjum, mismunandi eftir því hvað tekjur eru háar. Segja má að þrátt fyrir eitt skatthlutfall séu skattþrepin óendanlega mörg. Í töflunni má sjá skattbyrði miðað við mismunandi tekjuskattstofn. Skattbyrði er mjög lítil fyrst eftir að skattgreiðslur hefjast en vex hratt með vaxandi tekjum í fyrstu.

Stigvaxandi skattbyrði

Tekjuskattsstofn
(þús.kr. á mánuði)
Skattbyrði
(%)
100
3,6
150
14,3
200
19,7
250
22,9
300
25,0
350
26,5
400
27,7
450
28,6
500
29,3


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum