Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samþykkt lög á vorþingi

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 29. mars 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á nýafstöðnu vorþingi lagði fjármálaráðherra fram 11 lagafrumvörp. Af þeim voru 9 afgreidd sem lög frá Alþingi.

Þau lög sem samþykkt voru eru eftirfarandi:

  • Lokafjárlög 2005
  • Lög um breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs - gjaldtaka fyrir starfsleyfi handa grafískum hönnuðum.
  • Lög um breyting á ýmsum lögum er varða lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins - lögfestar voru breytingar á lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og lögum um lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga í tilefni af samkomulagi Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyris reglum ríkisstarfsmanna. Þá var samþykkt að starfsmönnum alþjóða stofnana, sem Ísland á aðild að samkvæmt lögum eða fjölþjóðlegum samningum, verði að uppfylltum vissum skilyrðum veittur réttur til að greiða iðgjald til B-deildar sjóðsins á meðan starfstíma þeirra erlendis stendur. Að lokum var samþykkt leiðrétting á viðbótarframlagi sveitarfélaga vegna lífeyrisiðgjalds kennara og skólastjórnenda grunnskóla.
  • Ný heildarlög um opinber innkaup - innleiðing á EES gerðum. Útboðsstyrkir sem varða vörur, verk og þjónustu og hins vegar veitutilskipun sem varðar innkaup opinberra veitustofnana. Önnur atriði eldri laga eru að mestu óbreytt svo sem málsmeðferðarreglur o.fl.
  • Lög um skattlagningu kaupskipaútgerðar - með lögunum er skattlagning kaupskipaútgerða gerð sambærileg við það sem gildir í nágrannalöndum okkar. Jafnframt var samþykkt tvenns konar ríkisaðstoð við kaupskipaútgerðir. Annars vegar ríkisaðstoð sem felur í sér að útgerðarfélög sem bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi í skilningi tekjuskattslaga og skráð hafa kaupskip sín á íslenska alþjóðlega skipaskrá eigi kost á að velja milli tekjuskatts á hagnað og skatts sem ræðst af flutningsrými kaupskipaflotans (tonna skatts). Hins vegar aðstoð sem felst í fjárframlögum sem svara til 90% tekjuskatts og útsvars af launum áhafna.
  • Lög um starfstengda eftirlaunasjóði - með lögunum er kveðið á um innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins 2003/41/EB, frá 3. júní 2003, um starfsemi og eftirlit með lögaðilum um starfstengd eftirlaun.
  • Lög um breyting á lögum um tekjuskatt - með lögunum voru samþykktar breytingar sem snúa að starfstengdum eftirlaunasjóðum, breytingar sem heimila lögaðilum sem eru heimilisfastir á Evrópska efnahagssvæðinu og bera takmarkaða skattskyldu á Íslandi að draga frá tekjum móttekinn arð með sama hætti og gildir fyrir innlend félög og breyting sem varðar skilyrði fyrir samsköttun sambúðarfólks. Að lokum var samþykkt að arðstekjur af veiðirétti frá veiðifélögum verði skattlagðar í 10% fjármagnstekjuskatti óháð því hvort viðtakandi greiðslnanna hefur með höndum búrekstur eða annan rekstur á jörð eða ekki.
  • Lög um breyting á lögum um virðisaukaskatt - um er að ræða tæknilegar breytingar sem nauðsynlegar eru vegna breytingar á lægra skattþrepi virðisaukaskatts úr 14% í 7%, sem lögfest var með lögum nr. 175/2006 og tók gildi 1. mars 2007. Þá var felld úr gildi heimild til að nota skemmra uppgjörstímabil en einn mánuð.
  • Lög um breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. - samþykkt var að fella niður vörugjald af bifreiðum sem nýta metangas að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu tímabundið til ársloka 2008.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum