Hoppa yfir valmynd
23. mars 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Íslenskir ellilífeyrisþegar standa vel miðað við hin Norðurlöndin samkvæmt OECD

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 22. mars 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í skýrslu frá OECD, „Pensions at a glance”, eru teknir saman mælikvarðar um stöðu ellilífeyrisþega.

Í skýrslunni er ellilífeyrir í hverju landi sýndur sem hlutfall af launum verkamanns sem vinnur í 45 ár. Mælikvörðunum er skipt í þrennt, þ.e. hlutfall af lægri launum, meðallaunum og hærri launum verkamanns. Þess ber að geta að séreignarsparnaður er ekki tekinn með í tölum OECD.

Fróðlegt er að taka sérstaklega út Norðurlöndin til samanburðar þar sem lífskjör og lífslíkur eru svipaðar. Eftirfarandi tafla sýnir hlutfall ellilífeyris af tekjum verkamanns eftir skatta á Norðurlöndunum.

Tekjur ellilífeyrisþega sem hlutfall af launum verkamanns (%)
Land Lægri tekjur Meðal tekjur Hærri tekjur Lífslíkur (ár)
Danmörk
95,6
54,1
35,5
77,2
Finnland

87,3

71,5

123,1

78,5

Ísland

95,8

65,9

57,2

80,7

Noregur

85,5

65,1

50,1

79,5

Svíþjóð

90,2

68,2

74,3

80,2

Meðaltal

90,9

65,0

68,0

79,2

Heimild: OECD

Eins og sést í töflunni eru íslenskir ellilífeyrisþegar um og yfir meðaltalið á Norðurlöndunum. Miðað við lægri tekjur mega íslendingar búast við hlutfallslega hæstum ellilífeyri miðað við hin Norðurlöndin eða 95,8%. Sé miðað við meðaltekjur og hærri tekjur sitja íslenskir ellilífeyrisþegar í miðjunni á meðal Norðurlandanna. Dálkurinn lengst til hægri sýnir svo lífslíkur, sem eru hæstar á Íslandi eða 80,7 ár. Tölur OECD staðfesta aðra mælikvarða frá t.d. Nordisk Socialstatistisk Komité (NOSOSCO) þar sem að íslenskir ellilífeyrisþegar koma ágætlega út í samanburði við hin Norðurlöndin.

Að lokum má benda á að mælikvarði NOSOSCO um stöðu ellilífeyrisþega, sem nýlega var birtur í vefriti fjármálaráðuneytisins, sýnir ellilífeyrisgreiðslur á hvern ellilífeyrisþega. Þær tölur eru frábrugðnar t.d. tölum Hagstofunnar sem varða ellilífeyrisgreiðslur aldraðra. Tölur Hagstofunnar sýna ellilífeyrisgreiðslur á hvern íbúa 65 ára og eldri en ekki á hvern ellilífeyrisþega eins og sumir virðast álíta. Það er mikilvægt að halda því til haga hvort verið er að fjalla um ellilífeyrisþega eða aldraða, en á Íslandi eru ekki allir 65 ára og eldri ellilífeyrisþegar. Ellilífeyrisgreiðslur á hvern íbúa 65 ára og eldri gefa því ekki rétta mynd af ellilífeyrisgreiðslum sem íslenskir ellilífeyrisþegar eru með að meðaltali.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum