Hoppa yfir valmynd
19. mars 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hvers vegna reglugerð?

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 15. mars 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Hinn 14. febrúar sl. gaf fjármálaráðherra út reglugerð um veitingu heimildar til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli.

Reglugerðin er sett á grundvelli laga um ársreikninga þar sem kveðið er á um veitingu slíkrar heimildar. Eins og rakið var í pistli hér í vefritinu hinn 15. febrúar sl. er markmiðið með reglugerðinni að skýra nánar nokkur skilyrði laganna fyrir veitingu heimildar til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli. Því hefur hins vegar verið haldið fram í opinberri umræðu að undanförnu að fjármálaráðuneytið hafi ekki útskýrt hvers vegna reglugerðin var sett. Sjálfsagt er að bregðast við því. En fyrst þetta!

Því hefur verið haldið fram að með reglugerðinni sé verið að takmarka „ sjálfsákvörðunarrétt fyrirtækja “. Hér gætir grundvallarmisskilnings. Samkvæmt ársreikningalögum er það meginregla að texti ársreiknings og samstæðureiknings skuli vera á íslensku og fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krónum. Heimild til samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli er því undantekning frá meginreglunni og er veiting slíkrar heimildar þar af leiðandi háð því að starfsemi viðkomandi félaga uppfylli nánar tilgreind lagaskilyrði.

Það sem fyrst og fremst knúði á um reglugerðarsetninguna var að við framkvæmd laganna hafði komið í ljós að þörf var á að skýra og útlista nánar tiltekin ákvæði laganna. Skulu nefnd um þetta þrjú dæmi:

  1. Í athugasemdum við frumvarp til laganna sem fyrst kváðu á um heimild til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli sagði að mikilvægt væri að félög sem hafa meginstarfsemi sína hérlendis geti sýnt fram á veruleg tengsl félags við tiltekinn gjaldmiðil til þess að heimild verði veitt. Í lagatextanum sjálfum segir að starfrækslugjaldmiðill sé sá gjaldmiðill sem meginhluti viðskipta félags eða samstæðu fer fram í. En hvað er meginhluti viðskipta? Þarf meira en helmingur viðskipta félags að vera í viðkomandi gjaldmiðli til þess að unnt sé að veita félaginu heimild til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli? Hér þurfti skýringa við. Reglugerðin skýrir áskilnað um að meginhluti viðskipta sé í viðkomandi gjaldmiðli á þann veg að í því felist ekki krafa um að meirihluti viðskipta sé í viðkomandi gjaldmiðli, heldur krafa um að viðkomandi gjaldmiðill vegi hlutfallslega mest allra gjaldmiðla í við skiptum félags.
  2. Eins og fram kemur hér að framan ræður vægi einstakra gjaldmiðla í viðskiptum félags úrslitum varðandi veitingu heimildar til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli. Lögin hafa hins vegar ekki að geyma bein ákvæði um það til hvaða þátta skuli litið við mat á því í hvaða gjaldmiðli viðskipti félags eiga sér stað, þótt að því sé vikið í athugasemdum með frumvarpinu. Þótti ástæða til að þessi viðmið kæmu fram í regluverkinu sjálfu. Er kveðið á um það í reglugerðinni að litið skuli heildstætt til tekna, gjalda, skulda og annarra viðskiptalegra þátta í rekstri viðkomandi félags.
  3. Spurningar höfðu vaknað um það hvort félag gæti fengið heimild til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli ef þannig háttaði til að viðskipti félags­ins væru í fleiri en einum erlendum gjaldmiðli, enginn einn þessara gjaldmiðla vægi meira í viðskiptum félagsins en íslenska krónan en samanlögð viðskipti í erlendum gjaldmiðlum væru hins vegar meiri en viðskipti viðkomandi félags í íslenskum krónum. M.ö.o. hvort líta ætti svo á að úrslitum ætti að ráða hvort vægi þyngra í viðskiptum félags íslenska krónan annars vegar eða erlendir gjaldmiðlar samanlagt hins vegar. Slíkur skilningur var ekki talinn eiga sér stoð í tilgangi eða texta ársreikningalaganna, enda áhersla þar lögð á vægi hvers gjaldmiðlils fyrir sig. Til þess að eyða öllum hugsanlegum vafa hér að lútandi var talið nauðsynlegt að kveða á um það í reglugerðinni að starfrækslugjaldmiðill merki þann gjaldmiðil sem vegur þyngst allra gjaldmiðla í viðskiptum félags en ekki einungis þann gjaldmiðil sem vegur þyngst erlendra gjaldmiðla í viðskiptum félagsins. Er þetta í fullu samræmi við reikningsskilastaðla. Heimild til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli er því háð því að viðkomandi gjaldmiðill vegi hlutfallslega mest allra gjaldmiðla, að íslensku krónunni meðtalinni, í viðskiptum félagsins.

Í ársreikningalögum segir að ráðherra geti sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu heimildar til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli. Með umræddri reglugerð hafa ekki verið sett ný skilyrði, heldur hafa lögbundin skilyrði verið skýrð nánar að því leyti sem þörf var talin á.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum