Hoppa yfir valmynd
13. mars 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Búferlaflutningar 2006

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 8. mars 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Nýverið birti Hagstofa Íslands gögn um búferlaflutninga bæði innanlands og gagnvart útlöndum fyrir árið 2006.

Í flutningum fólks milli landa er áberandi hversu mikill aðflutningur hefur verið til landsins. Ef flutningar eru greindir eftir því hvort íslenskir eða erlendir ríkisborgarar eiga í hlut kemur í ljós að aðfluttum íslenskum ríkisborgurum fækkaði í fyrra frá árinu 2005 meðan brottfluttum fjölgaði. Mismunurinn er 280 en fækkun í fjölda aðfluttra íslenskra ríkisborgara hefur oft bent til að samdráttarskeið væri framundan.

Aðfluttum erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað umtalsvert frá árinu 2003 þegar þeir voru um 1.350. Síðan þá hafa yfir 14.000 erlendir ríkisborgarar flust hingað og helmingur þess hóps kom í fyrra. Þrátt fyrir að allnokkuð sé um ráðningar til skemmri tíma í byggingarframkvæmdum hefur fjöldi brottfluttra ekki vaxið tiltakanlega mikið. Mismunur á fjölda að- og brottfluttra erlendra ríkisborgara er mikill miðað við heildarfjöldann, öfugt við það sem á við um flutninga íslenskra ríkisborgara.

Lykiltölur um búferlaflutninga milli landa 2006
Fjöldi Hlutfall
af heild
Aðfluttir karlar 6.541 66,5%
Aðfluttar konur 3.291 33,5%
Aðfluttir íslenskir ríkisborgarar 2.762 28,0%
Aðfluttir erlendir ríkisborgarar 7.070 71,9%
Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar 3.042 66,5%
Brottfluttir erlendir ríkisborgarar 1.535 33,5%
Aðfluttir 20-29 ára 3.265 33,2%
Aðfluttir 30-39 ára 2.370 24,0%


Hinn mikli aðflutningur erlendra ríkisborgara tengist ekki nema að hluta til álvers- og orkuframkvæmdunum eystra. Það sést meðal annars af því að af tæplega 10.000 manns sem fluttust til landsins í fyrra fluttust 2.000 til Austurlands. Meira en helmingur aðfluttra frá útlöndum fluttist á höfuðborgarsvæðið. Önnur vísbending um eðli aðflutningsins er að enda þótt hinn dæmigerði erlendi ríkisborgari sem hingað flyst sé karlmaður frá Austur-Evrópu þá er um 40% aðfluttra erlendra ríkisborgara konur. Hlutfall aðfluttra kvenna er einungis lágt í landshlutum þar sem stóriðjuframkvæmdirnar hafa verið yfirgnæfandi. Fjölgun í aðflutningi erlendra kvenna hefur ekki verið eins mikil eins og hjá körlum en hún er engu að síður umtalsverð. Í fyrra fluttust hingað til lands um 2.000 konur með erlent ríkisfang meðan karlarnir voru ríflega 5.000.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum