Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þjónustusamningar hjá ríkinu

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 15. febrúar 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í nýrri stefnu ríkisstjórnarinnar um árangursríkan ríkisrekstur er lögð áhersla á að ríkið nálgist markaðinn sem upplýstur kaupandi vöru og þjónustu.

Stefnan byggist m.a. á reglugerð nr. 343/2006 um þjónustusamninga sem gefin var út í fyrra og samþykkt ríkisstjórnarinnar um útvistunarstefnu. Í útvistunarstefnunni (PDF 536 KB) er síðan lögð áhersla á að ráðuneytin endurskoði alla samninga sem ekki uppfylla kröfur reglugerðarinnar. Auk þess hefur ráðuneytið gefið út handbók um gerð þjónustusamninga.

Í reglugerðinni er að finna ýmsar breytingar til að bæta málsmeðferð og skýra verkferla, eftirfylgni, ábyrgðarsvið og hlutverk þeirra sem koma við sögu innan ríkisgeirans. Lögð er aukin áhersla á að frumathugun fari fram áður en gengið er til samninga eða verkefni boðið út. Í því felst m.a. að afla heimildar frá viðkomandi ráðuneyti og fjármálaráðuneytinu fyrir verkefninu.

Einnig er lögð áhersla á að bjóða út verkefn yfir tiltekinni viðmiðunarfjárhæð. Ráðuneytin eða stofnanir eiga sem verkkaupar að skilgreina kröfur til verksala. Verksali ber ábyrgð á framkvæmd samningsins með því að veita verkkaupa tiltekna þjónustu í því magni og af þeim gæðum svo og samkvæmt þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um. Hann skal einnig afhenda verkkaupa þær upplýsingar og gögn sem samningurinn mælir fyrir um. Þær taka m.a. til starfs- og rekstrarleyfa, auk þess sem verkkaupi getur gert kröfur um fjárhagslegt bolmagn verksala á meðan á veitingu þjónustunnar stendur. Sé verksali einkaaðili eða sjálfseignarstofnun skal í samningi koma fram að heimilt sé að krefja hann um ársreikning.

Einnig er kveðið svo á að við samningslok skuli verkkaupi gera úttekt á framkvæmd samningsins þar sem metið er hvernig til hafi tekist. Slík úttekt skal lögð til grundvallar þegar tekin er ákvörðun um framhald verkefnisins eða endurnýjun á þjónustusamningi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum