Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Rekstur ríkisstofnana og viðhorf forstöðumanna

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 8. febrúar 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í lok nýliðins árs fór fram viðamikil viðhorfskönnun meðal ríkisstarfsmanna.

Gagnaöflun stóð yfir fram að jólum og er nú unnið að greiningu gagna, en vonir standa til að helstu niðurstöður verði gefnar út og kynntar fyrir páska. Hluti könnunarinnar snýr að forstöðumönnum ríkisstofnana sem fá á næstu dögum senda tvo spurningalista.

Annar listinn inniheldur staðreyndaspurningar þar sem ætlunin er að kanna fyrirkomulag starfsmannamála, verkefni stofnana, árangursstjórnunun og fleira sem tengist starfsemi ríkisstofnana. Þar sem um staðreyndir er að ræða er þessum spurningalista svarað undir heiti stofnunarinnar en þannig er mögulegt að kanna áhrif mismunandi stjórnunaraðferða, m.a. á viðhorf starfsmanna. Hinn spurningalistinn, sem er nafnlaus, inniheldur viðhorfsspurningar þar sem markmiðið er að fá mat forstöðumanna á fyrrnefndum atriðum, en til viðbótar verður spurt um viðhorf þeirra til ýmissa umbótaverkefna ríkisins sem og viðhorf til eigin starfs.

Báðir spurningalistarnir verða sendir forstöðumönnum á næstu dögum og vonast aðstandendur til að þátttaka forstöðumanna verði góð. Könnunin mun gefa mikilvægar upplýsingar og gott yfirlit yfir aðferðafræði sem notuð er við stjórnun ríkisstofnana og gagnast öllum sem koma að málaflokknum. Niðurstöðurnar verða nýttar til að móta áherslur stjórnunar hjá ríkinu sem og í starfsmannamálum. Könnunin hefur jafnframt fræðilegt gildi á sviði opinberrar stjórnsýslu.

Þessi hluti könnunar á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna nær til um 200 forstöðumanna ríkisins en skilyrði fyrir þátttöku er að á stofnuninni starfi fimm eða fleiri starfsmenn. Til samanburðar má nefna að þetta er sama skilyrði og árið 1998 þegar sambærileg könnun var gerð, sem náði þá til tæplega 250 forstöðumanna. Nánari upplýsingar eru á vef fjármálaráðuneytisins.




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum